27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (1085)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Forseti:

Áður en umræðan hefst, vil eg geta þess, að hér liggja fyrir tvær tillögur, á þgskj. 670 og 737 sem eru mjög einkennilegs eðlis og óvenjulegar. Þær fara fram á, að fella burtu fjárveitingar, sem báðar deildir hafa samþykt. Eg hefi áður látið þá skoðun í ljós, að samkvæmt anda þingskapanna gætu slíkar till. ekki komist að. Þessari skoðun var þá ekki mótmælt, enda hygg eg það óyggjandi, að hún sé rétt. En síðan hefi eg komist að raun um, að ýmsir eru sárgramir yfir því, að ekki megi bera slíkar till. undir atkv. og telja það gerræði. Eg hygg, að slíkur skilningur á þingsköpunum stafi að miklu leyti af flokksfylgi og get eg því ekki talið hann ábyggilegan, enda hefi eg altaf haft þá skoðun, að í slíkum málum eigi ekki að taka tillit til þess, sem annar flokkurinn vill vera láta, heldur til vilja deildarinnar í heild sinni; flokksforseti hefi eg aldrei ætlað mér að vera. Það liggur alls ekki undir úrskurð deildarinnar, hvort skilningur minn er réttur — enda tel eg það hafið yfir allan efa að svo sé — en hins vegar getur forseti látið hjá líða að beita lögum, ef þess er alment óskað. Eg skoða það því sama sem afbrigði frá þingsköpum, að þessum tillögum sé hleypt að og þurfa því 3/4 deildarmanna, er atkvæði greiða að samþykkja það auk ráðherrans. Á þennan hátt get eg leyft, að tillögur þessar komi til atkvæða.

Var því næst samþykt með 16 samhljóða atkv., að tillögurnar mættu berast undir atkvæði, og ráðherrann leyfði það fyrir sitt leyti.