27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 611 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Framsögumaður (Björn Þorláksson):

Fjáraukalögin hafa komið með talsverðum breytingum frá Ed. Eg skal leyfa mér að fara yfir helztu breyt.

Í 4. gr. hefir 129 kr. verið bætt við skrifstofukostnað vegaverkfræðingsins; þetta hefir verið gert samkvæmt áskorun frá ráðherra. Í sömu grein er lækkuð fjárveitingin til brúargerðar á Hölkná í Þistilfirði; fjárlaganefnd þessarar deildar hafði lagt til, að veittar yrðu 3500 kr. gegn því að ? kæmi annars staðar að, en hin háttv. deild færði fjárveitinguna upp í 4500 kr. Nú hefir efri deild fært hana niður í 3500 kr. og sett það skilyrði, að héraðið greiði það sem á vantar. Þá hefir verið bætt við 1000 kr. til nýrrar brúar á Víðidalsá og sett hin sömu skilyrði fyrir þeirri fjárveitingu. Ennfremur er það skilyrði sett fyrir fjárveitingum til beggja brúanna, að þær verði úr járni.

Ennfremur hefir efri deild lækkað fjárveitinguna til húsabyggingar handa vitaverðinum á Siglunesi úr 3000 kr. niður í 2500 kr. og fært launaviðbót hans niður úr 300 kr. í 150 kr. Stærsta breytingin, sem efri deild hefir gert er þó sú, að fella niður fjárveitinguna til loftskeyta milli Vestm.eyja og Reykjavíkur.

Ákvæði 5. gr. um háskóla Íslands hefir efri deild breytt þannig, að þar sem ákvæðið fór héðan með engri fjárveitingu ákveðinni, þá hefir Ed. sett upp 3450 kr. fjárveitingu.

Í 6. gr. hefir efri deild bætt við 500 kr. styrk til þess að gefa út bréf Jóns Sigurðssonar; bókmentafélagið hefir ekki séð sér fært að koma öllum bréfunum út í ár nema það fengi slíkan styrk. Bréfin hafa reynst meiri að vöxtum en áætlað var.

Þá er ný fjárveiting í 7. gr., alt að 3000 kr. til þess að gera við skólahúsið á Hólum og loks eru 500 kr. til þess að reisa Jóni Sigurðssyni minnisvarða á Rafnseyri.

Fjárlaganefndin hefir nú athugað alt þetta og komist að þeirri niðurstöðu, að ekki sé ástæða til þess að amast við þessum breytingum efri deildar, að einni undantekinni. Nefndin vill sem sé halda fast fram fjárveitingunni til loftskeytasambands milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur, með því að hún telur það samband betra og ódýrara en ritsímasamband. Eg ætla mér ekki að fara mörgum orðum um þetta mál, en vil aðeins taka það fram, að í þessu máli verður að taka tillit til fleiri héraða en Vestmannaeyja einna, því að ef öflug loftskeytastöð væri reist hér, þá gæti Reykjavík bæði haft samband við skip og ef til vill líka við Grænland eða Vesturheim, ef stöðin væri nógu sterk; og ennfremur væri þá betur séð fyrir hag sumra héraðanna hér á suðurströnd landsins, þar sem ókleift er að koma símasambandi á. En með 3 ódýrum stöðvum er hægt að koma þeim í loftskeytasamband, eins og h. þm. A.-Sk. (Þ. J.) fer fram á í brtill., þar sem hann leggur til, að veittar verði alt að 20 þús. krónum til stöðva í Hornafirði, Vík og undir Eyjafjöllum. Þannig gætu þá þessi héruð fengið allgott hraðskeytasamband og verður á það að líta, er þessu máli á að ráða til lykta. Skal eg svo láta útrætt um þetta að sinni.

Eg vil geta þess, að nefndin hefir gert þá athugasemd við hækkunina á skrifstofufé vegaverkfræðingsins, að þó hún láti svo búið standa að þessu sinni, þá óskar hún, að slíkt komi ekki fyrir oftar.

Þá vil eg minnast á breyt.till. mína á þgskj. 670 viðvíkjandi háskólanum; hún er frá mér persónulega en ekki frá nefndinni. Eg skal fyrst geta þess, að eg hefi frá öndverðu verið á móti stofnun háskólans og hefi því greitt atkvæði bæði móti lögunum um stofnum háskóla og um laun háskólakennara. Eg er því ekki í ósamræmi við sjálfan mig, þótt eg nú vilji fella burtu fjárveitinguna til hans. Að vísu get eg kannast við, að ef háskóli væri vel undirbúinn, mundi hann gera oss gagn og sæmd, en bæði vantar oss fé til þess að gera hann svo úr garði sem æskilegt væri og þar að auki er tilfinnanlegur skortur á nógu góðum kenslukröftum við hann. Eg skal játa, að eg hefi ekki mikið vit á þessu máli, en eg hefi heyrt skynbæra menn segja, að enn vantaði allan undirbúning til þess, að vér gætum komið oss upp sæmilegri háskólastofnun. En mín skoðun er það, að sá háskóli, sem ómyndarlega er efnt til, hljóti að verða oss til lítillar sæmdar. Þegar þetta mál var rætt hér, var stofnun háskólans sett í samband við 100 ára afmæli Jóns Sigurðssonar, en það get eg ekki séð að sé rétt, því að hann hafði aldrei neinn sérstakan áhuga á þessu máli. Þessi fyrirhugaði háskóli mundi ekkert hafa fram yfir embættismannaskólana nema nafnið eitt, — og fleirri kennara og hærri laun. Þótt hinir yngri mentamenn vorir haldi þessu máli allákaft fram, þá vil eg benda á, að þjóðin hefir ennþá ekki, svo að eg til viti, tekið nokkursstaðar í sama streng. Utan Reykjavíkur hefi eg enga rödd heyrt, er fari í sömu átt. Eg vil því fastlega mæla fram með þessari till., en annars ætla eg mér ekki að taka meiri þátt í þeirri burtreið, sem væntanlega verður um hana háð.

Þá er breyt.till. frá háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) um fjárveitingu til brúargerðar á Hölkná í Þistilfirði. Tel eg víst að nefndin sé henni mótfallin.

Að því er snertir breytingartillöguna viðvíkjandi styrkveitingu til kvennaskólans á Blönduósi, hefir nefndin ekki haft hana til meðferðar. En eg fyrir mitt leyti mun greiða tillögunni atkv.