27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 616 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Bjarni Jónsson:

Eg veit ekki, hvernig þessar yfirlýsingar frá Vestmanneyingum eru komnar fram. Eg get vel trúað því, að kapp hafi verið lagt á að fá þær. Eg hefi heyrt einn merkan mann þar segja, að eins hefði verið hægt að safna þar undirskriftum í mótsetta átt. Eg er því hlyntur að loftskeytastöð verði sett í Vestmannaeyjum því að þá er hægt að fá ódýrt samband við Skaftafellssýslur. Það er ekki hægt að leggja síma lengra en til Víkur. Það er afarmikill sparnaður að hafa loftskeytastöðvar í Skaftafellssýslum í staðinn fyrir að leggja síma um þær, þótt slíkt væri hægt. Háttv. þm. Vest. (J. M.) sagði, að ekki hefði komið fram ósk frá sýslubúum um þetta. Það er að vísu rétt, að ekki hefir komið fram ósk frá þingmálafundum þar í sýslum um þetta, þar eð þeir hafa ekki búist við slíku. En háttv. þm. sýslnanna hafa tjáð mér að þessu muni vera þar vel tekið. Það er ekki rétt að loftskeytasamband sé ónógt fyrir Vestmanneyjar. Það er hollara fyrir viðskiftin að rita en tala. Það sparar fólki útgjöld, því það talar of mikið í símann eins og annarstaðar.

Það er réttilega tekið fram af háttv. þm. Vest. (J. M.) að skip geta eins haft samband við 1 stöð og 2 stöðvar. En skip ná fljótara sambandi við Vestmannaeyjar en Reykjavík. Auk þess að ódýrara er að hafa loftskeytastöð í Vestmannaeyjum, sem fyr var sagt, þá má og geta þess, að oft ber það við að skip stranda við suðurströnd landsins og væri þá hægra að ná í björgunarskipið, ef stöð væri í Vestmannaeyjum, því að það mundi þá oftast vera þar. Eg trúi því ekki, að Vestmanneyingar vilji heldur ekkert samband en loftskeytasamband. En ef þeir vilja sjálfir leggja síma á eigin kostnað, mun víst enginn banna þeim það.

Þá vildi eg minnast á tillöguna um að fella burtu fjárveitinguna til háskólans. — Þetta er illa ráðið og vona eg að tillagan verði tekin aftur. Meðal þeirra mörgu ástæða, sem eru fyrir henni er meðal annars sú, að í haust er 100 ára afmæli norska háskólans. Það mundi vekja eftirtekt á hinni íslenzku þjóð, ef einhver af kennurum háskólans væri sendur þá til Noregs til þess að samgleðjast Norðmönnum. Einnig verður bráðum haldin hátíð mikil á Frakklandi í minningu þess að 1000 ár eru liðin síðan að ríki Göngu-Hrólfs var stofnað þar. Það mundi vekja athygli, ef þeir menn, sem fara þangað, gæti borið kveðju frá háskóla vorum. Menn gætu, ef til vill, kallað þetta tildur og prjál. En það er ekki svo, því okkur vantar einmitt að aðrar þjóðir þekki okkur. Embættin við háskólann mætti veita með samkepni og mætti fá útlenda háskólakennara til þess að dæma á milli umsækjendanna. Eg hygg, að stjórnin mundi ekki hafa neitt á móti þessu, ef hún sæi að það væri alvara þingsins að haga því svo. Tel eg þetta heppilegast. En hins vegar held eg ekki, að þessi tillaga muni hafa byr hjá háttv. deild. Vona eg svo, að tillagan um að fella burtu fjárveitingu til háskólans verði feld.