27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 622 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Jón Þorkelsson:

Eg finn ástæðu til þess að gera einmitt nú nokkra grein fyrir afstöðu minni til þessa máls, einkum af því, að eg þóttist skilja að til mín væri stefnt sumu af því, sem sá háttv. þm., er nú settist niður, sagði um háskólann. Það er misskilningur hans, að eg hafi svo mjög sett fyrir mig fjárhag landssjóðs, sem nú sé í kröggum. En það sem mér þótti mest að, var það, að hér er flasað alt of mikið að miklu máli og vandmeðförnu. Það sem á vinst með fjárveitingum þeim, sem hér er farið fram á, eru mest launabætur handa fremur vel launuðum kennurum, en lítið annað. Reyndar heyri eg að háttv. Ed. hafi bætt einhverju við námsstyrk, en meira þó við laun handa kennurunum eða með öðrum orðum handa sjálfum sér, sumir þeirra.

Annað er það, að eg vil ekki að neitt sé veitt til þessa máls á fjáraukalögum. Að vísu þykir mér vænt um að sjá áhuga manna á þessu máli, sem mér hefir lengi verið ant um, en löngum hefir átt örðugt uppdráttar. Fyrir 10— 20 árum vorum við álitnir loftkastalasmiðir, sem þá vorum að berjast fyrir því. Nú eru þeir menn, er þá voru mest á móti háskólanum, hvað óðastir að koma nafninu á hann, því að annað er ekki verið að gera hér. Þeir vilja einungis hækka laun kennaranna, og svo ætlast þeir ennfremur til þess að komið verði á laggirnar nýrri deild, og að þar geti byrjað fyrirlestrar 1. október í haust. Það getur þó varla verið meining neins, sem vit hefir á, að þetta geti átt sér stað svona gersamlega undirbúningslaust. Allir vita þó að Lárus H. Bjarnason lagaskólastjóri og Einar Arnórsson lagaskólakennari þurftu undirbúning, áður þeir tæki þau störf að sér, enda var öll von til þess, því að þarna var óplægður íslenzkur akur að minsta kosti. Eg man nú ekki, hve mikinn styrk þeir fengu til þessa, en held þó að herra skólastjórinn hafi fengið 2500 kr. en hinn hálft annað þúsund til þess að lesa fræðin. Nú er það svo um þessa fyrirhuguðu deild háskólans, og merkustu sem á að verða, að þar er ekki síður óplægður akur, en í lögfræðinni. Að vísu hefir allmargt verið skrifað um þau efni, en það er mest um fornöldina, en of fátt að gagni frá síðari tímum, og það sem til er, er ekki í samhengi, eða þannig lagað, að það geti lagst til grundvallar fyrir fyrirlestra heild. Eg hygg nú að flestum, sem vit hafa á, muni vera það lítt skiljanlegt, að hér finnist nokkur sá maður, er geti byrjað að halda viðsæmandi fyrirlestra um þessi efni 1. okt. í haust, og þess vegna virðist mér eftir næga athugun, sem þessi till. hafi komið helsti hvatskeytlega frá vini minum, h. þm. Dal., (B. J.) sem — að honum annars ólöstuðum — er miklu meiri hugsjóna- en hyggindamaður. Hann hefir látið sér ant um að þetta mál næði fram að ganga fyrir 17. júní n. k. og mundi eg sízt amast við því, ef undirbúningur hefði verið nægur og eg skal geta þess í sambandi við þetta, að á síðasta þingi þegar málið lá hér fyrir, vildi eg fá fjárveitingu, einmitt í því skyni að þessu yrði komið í kring fyrir þann dag, og nefndi það við þá menn, sem nú fara hvað geystastir, en fékk það svar, að ekkert lægi á.

Þetta má lesa í aths. við stjórnarfrv. frá 1909, enda hefir víst 17. júní staðið fastur í höfðum ýmsra manna síðan. Því merkilegra er það, að menn skuli ekki hafa haft manndáð í sér til þess að gera neitt þessu til undirbúnings. En að hrófla upp háskóla svona undirbúningslaust nú þegar á öndverðu sumri, það yrði ekki til annars en þess, að 17. júní gæti orðið okkur til minni sæmdar en æskilegt væri. Það má vera að við megnum ekki mikið, en við erum skyldugir til að gera annað eins og þetta eins vel og við getum. Mér virðist því eigi annað að gera hér, en að veita mönnum fé til þess að búa sig undir hinar nýju stöður. Eg hefi ekkert á móti því, ef laun hinna núverandi kennara eru of lág, að úr því sé bætt til bráðabirgða, en að fara að setja upp háskóla einungis til þess að veita mönnum launahækkun, þykir mér ekki ráðlegt. Eg skil ekki, að úr því geti orðið nein þjóðhátíð á afmælisdag Jóns Sigurðssonar. Það kom fram hjá háttv. þm. Dal. (B. J.), að einn lagaskólakennarinn hefði »ósæmilega« lág laun, 1600 kr. Það mætti vel hækka þetta til bráðabirgða, og eins ef líkt væri ástatt með fleiri.

Sami háttv. þm. hugsaði sér, að embætti við þessa nýju deild yrðu skipuð á þann veg, að tilvaldir menn frá útlöndum yrðu látnir dæma um umsækjendurna. Eg veit ekki, hvort hann hefir gáð að því, hvers konar embætti hér er um að ræða. Það eru þær greinar, sem vér Íslendingar erum bezt að oss í, saga vor, mál og bókmentir. Þessir menn mundu nú verða frá nágrannalöndunum, t. d. Noregi og Svíþjóð, og er nú strax það aðgætandi, að sumarið mundi verða flestum nokkuð stuttur frestur, enda mundi þá þurfa einhvern póst á fjárlögunum til þess að kosta þetta, því að menn fá eigi lærða prófessora fyrir ekkert til þess að ferðast hingað og sitja hér á dæmistóli langa hríð. En svo hefi eg og í öðru lagi enga trú á því, að þetta gagni neitt. Eg þekki engan þann mann erlendan, sem geti verið dómari yfir oss í íslenzkum fræðum, heldur erum vér þar réttmætir dómarar yfir þeim, og eg hefi aldrei þekt neinn útlendan mann, sem hafi getað það, og hefi eg þó þekt allmarga af þeim, sem taldir voru bezt að sér í þeim fræðum. Flestir þeirra vita ekkert nema þurra grammatík, og eru í einhverju gaufi aftur í fornöldinni. Hún liggur líka nú fyrir öllum eins og opin bók, að heita má, en hinar aldirnar þekkja útlendingar ekki til nokkurs gagns, og geta ekki þekt, fyr en við höfum kent þeim það. Í sögu vorri vita fæstir útlendingar neitt. Þessi samkeppnis- og prófdómskenning þm. er því álíka hugsjónaborin og hitt, að heimta að háskólinn sé settur á stofn 17. júní í ár, og fyrirlestrar byrji 1. okt. Hinu mundi eg vilja fylgja, að fyrra ár fjárhagstímabilsins væri mönnum veitt fé til undirbúnings og seinna árið fé til skólans sjálfs, og hann þá stofnaður. Ef menn vilja endilega binda sig við »humbug«, þá geta þeir alt eins vel bundið sig við annan fæðingardag en Jóns Sigurðssonar. Sá maður hafði hvort sem var aldrei önnur afskifti af háskólamálinu en þau, að hann kom hingað á þing 1845 með áskorun um stofnun þjóðskóla í vasanum frá stúdentum í Khöfn, og kom prestaskólinn út af því 1847. Fyrir því gekkst Helgi biskup, en læknaskólinn komst á fyrir dugnað og fylgi Jóns landlæknis Hjaltalíns. Að því er tekur til lagaskólans, þá man eg þar betur eftir öðrum nöfnum en Jóns Sigurðssonar, t. d. Arnlj. Ólafssonar, Benedikts Sveinssonar, Péturs biskups, síra Eiríks Kúlds, H. Kr. Friðrikssonar o. fl. En ef setja ætti háskólann á stofn einhvern vissan dag, nokkrum sérstökum manni til heiðurs, þá væri enginn maklegri þess en Benedikt Sveinsson, sem allir kannast við. Og þá færi vel á, að hann yrði settur á stofn um miðjan vetur 1913, 20. jan. á fæðingardag Benedikts. Eg legg nú auðvitað enga áherzlu á þetta, hvort háskólinn skuli vígður vera á einhverjum sérstökum minningardegi, heldur hitt, að til hans sé stofnað með einhverju viti, svo að stofnun hans verði oss til sem mestrar sæmdar. Áhugi ungra manna á þessu máli er allrar sæmdar verður, en það eru tvær hliðar á því máli. Eg kannast við, að það er skiljanlegt, þegar í ráði er að reisa hér háskóla, að stúdentar láti sig þá það mál miklu skifta á fjörugum fundum, við gott glas og gamanyrði. En þeir mega ekki þjóta mjög upp til handa og fóta, þótt þeim líki ekki eitthvað, og þó að við eldri mennirnir tökum ekki allar ályktanir þeirra alvarlega, þegar svo stendur á, enda man eg ekki til að stúdentar — þá voru að vísu sumt af því aðrir menn en nú — tæki því máli svo vel fyrrum, þegar það þurfti þó helzt stuðnings við. Þeir, sem nú láta sér óðast um framkvæmdir þessa máls, ætla eg, að rituðu þá róg — jafnvel erlendum mönnum — um þá menn, sem börðust fyrir því máli hér á landi. Eg hygg, að mönnum megi nú vera ljós afstaða mín í þessu máli, hún er hin sama og verið hefir. Eg vil að málið gangi fram, en eg vil því sé fylgt með forsjálni og fyrirhyggju. Lýsi eg því ósönn ummæli 1. þm. Eyf. (H. H.) og þm. S.-Þing. (P. J.), að eg hafi breytt stefnu í málinu. Það situr ekki mjög á þessum þingmönnum að tala alt of digurt í þessu máli. Hvorugur þeirra studdi það, þegar því lá mest á. Þó skal því ekki gleymt, að 1. þm. Eyf. (H. H.) hefir haft góð afskifti af því að síðustu. 1907 skipaði þingið stjórninni með þingsályktunartill. að leggja fyrir næsta þing frumvarp um stofnun háskóla hér á landi, og stjórnin (ráðherra H. H.) hlýddi því, en hvað þm. S.-Þing. (P. J.) hefir gert málinu til gagns, þekki eg ekki.