27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 636 í B-deild Alþingistíðinda. (1096)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Hannes Hafstein:

Mig furðar á ummælum háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. þm.

N.-Ísf. (Sk. Th.) um áskorun þá, sem alþingi hefir borist frá þorra allra kjósenda í Vestmannaeyjum. Báðir hafa þeir gert minna en lítið úr áskoruninni og farið um hana óvirðulegum orðum. Áskorunin er þess efnis, að þingið veiti hvorki fé til sæsíma til eyjanna né til þráðlauss sambands heldur láti málið bíða í þetta sinn, og er álitið, að þeir sjálfir muni ætla sér að sækja um »koncession« til þess að leggja fram þann kostnað, sem þarf til þess að komast í samband við umheiminn. Áskorunin er undirskrifuð af 109 kjósendum af 150 alls, og það er upplýst af háttv. þm. Vestm. (J. M.), að fleiri menn mundu hafa skrifað undir, ef þeir hefðu ekki verið til sjós. Þetta segja háttv. þm., að sé ekkert að marka, því að sömu mennirnir mundu fást til þess að skrifa undir áskorun, sem færi í þveröfuga átt. Það er eins og þetta sé bygt á einhverri sérstakri reynslu. Eg skal rifja upp fyrir háttv. þm. dálitla sögu, sem gerðist fyrir nokkrum árum. Þá var reynt að safna undirskriftum um alt land til þess að skora á stjórnina að biðja konung að synja staðfestingar á lögum, sem alþingi hafði samþykt. Þá heyrðust stór orð um það, að þeir menn væru úalandi og úferjandi, sem ekki vildu fara að »vilja þjóðarinnar«, í þessu efni, en nú, þegar alþingi alls enga ákvörðun hefir tekið, á það að vera fjarstæða og óhæfa, að taka nokkurt tillit til eindregins vilja mikils meiri hluta þeirra kjósenda, sem hlut eiga að máli. Væri hér að ræða um sérstaka hagsmuni fyrir landssjóð, eða almenningsheill, þá væri ekkert á móti því að segja, að þingið metti það meira en hagsmuni og óskir Vestmanneyinga í þessu efni. Löggjafarvaldið á fyrst og fremst af öllu að hugsa um hag landsins í heild sinni. Væri það því ábatavænlegra fyrir landssjóð, og hentugra fyrir almenn viðskifti lands og eyja, að hafa loftskeytastöð heldur en talsíma, skyldi eg ekki hafa á móti þessu hinu mikla kappi, sem lagt er á það, að binda fjárveitinguna til hraðskeytasambands við loftskeytastöðvar. En því fer fjarri að slíku sé að heilsa. Álit þeirra, sem vit hafa á þessum efnum, gengur í mótsetta átt. Byggingarkostnaðurinn er meiri við loftskeytastöðvar í Vestmanneyjum og Reykjavík heldur en sæsíma, svo miklu meiri, að reisa má fyrir mismuninn eina loftskeytastöð á hentugum stað til sambands við skip á sjó, eins og sýnt hefir verið með rökum. Reksturskostnaðurinn við loftskeytastöðvarnar í Vestmanneyjum og Reykjavík er svo mikill, að tekjuafgangur landssjóðs mundi verða harla rýr. Hann mundi verða örlítill í samanburði við hreinar tekjur af þráðsambandi milli lands og eyja. Reynslan hér í landinu sýnir glöggt, að það er talsíminn, sem gefur tekjurnar en ekki ritsíminn. Og það liggur í augum uppi, að loftskeytasamband getur ekki gefið meiri tekjur en ritsímasamband. Hér er því ekki um það að ræða, að fjárhagslegir hagsmunir landssjóðs gefi tilefni til að beita þeirri aðferð gegn Vestmanneyingum, að láta þá fá loftskeytasamband, þvert ofan í ósk þeirra og vilja. Eins fjarstætt er það, að nauðsynlegt sé að setja loftskeytastöð í Vestmannaeyjum vegna sambands við skip á sjó, því að stöð til þeirra nota getur alveg eins verið annarstaðar. Sú röksemd háttv. þm. Dal. (B. J.) að þörf sé að setja loftskeytastöð í Vestmannaeyjum til þess að hægt sé að hafa veikari og þar af leiðandi ódýrari stöðvar í Skaftafellssýslum til þess að ná sambandi við stöðina hér í Reykjavík, gildir ekki neitt, því það þarf alls ekki að að setja slíka stöð í Reykjavík, heldur væri hægt að setja hana í Rangárvallasýslu, sem síminn endar og þyrfti því slík stöð ekki að vera sterkari en stöð í Vestmannaeyjum, sem með þessu móti alveg mætti komast hjá að setja. Það er yfirleitt vafasamt, hversu ánægðir menn yrðu með loftskeytastöðvar einar í Skaftafellssýslum.

Háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.) hefir komið með tillögu um, að settar verði 3 loftskeytastöðvar fyrir suð-austurlandið og gerir hann ráð fyrir því, að 1 stöð verði sett einhversstaðar undir Eyjafjöllum. En þar sem auðvelt er að leggja talsíma þangað skil eg ekki hvað þá er að gera með loftskeytastöð í Reykjavík. Þá þyrfti heldur ekki loftskeytastöð í Vestmannaeyjum vegna sambandsins við Skaftafellssýslur, heldur gengju skeyti frá Skaftafellssýslustöðvunum þá beina leið frá Eyjafjallastöðinni gegnum síma til Reykjavíkur. Fyrir þessu mætti því unna Vestmannaeyjum talsímasambands. Eg álít, að tillaga háttv.

A.-Sk. (Þ. J.) sé ekki nægilega hugsuð og eigi alls ekki að standa í því sambandi við Vestmannaeyjaspursmálið, sem hann vill setja tilöguna í. Það veitir ekki af að athuga betur, hvað Skaftfellingum er fyrir beztu, að því er hraðskeytasamband snertir, og ekki úrhættis til næsta þings.

Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) vék nokkrum orðum til mín, þá er hann talaði um háskólamálið. Hann sagði, að eg hefði borið honum á brýn, að hann hefði »kúvent« í þessu máli. Þetta er ekki rétt, því að eg hefi ekki tekið fyr til máls en nú. En annars er það ekki nema dagsatt, að hann hefir »kúvent« í þessu máli. Allir muna hans hjartnæmu og stórorðu ræðu um háskólann á síðasta þingi, sem nýlega er búið að rifja upp fyrir honum í stúdentafélaginu. En annars veit eg raunar ekki til, að hann hafi áður verið neinn sérstakur frömuður þessa máls, eða að baráttan fyrir því sé honum að þakka, þótt hann einhverntíma hafi eitthvað um það skrifað eins og fleiri. Eg tek mér ekki nærri, þótt háttv. þm. segi, að eg hafi ekki gert annað í þessu máli en »hlýðnast skipun þingsins.« Það getur vel verið að svo sé. Eg hefi aldrei hrósað mér af því, að eg hafi fundið það upp, né yfir höfuð eignað mér neinn heiður af því. Hinsvegar hefi eg þó ekki látið það afskiftalaust með öllu, og þegar eg lagði háskólafrumvörpin fyrir alþingi 1909, samkvæmt þingsályktun Nd. 1907, var sú skipun á orðin, að þetta mál, sem stöðugt undanfarið hefir verið skoðað sem ófáanleg ósk, er í Danmörku mundi verða barist á móti sem fráleitasta »separatismus«, var orðið fyrir fram samþykt af konunginum, og lagt fyrir alþingi í nafni hans og umboði. Að fá konungsstaðfestingu eftir á, eftir að alþingi hafði samþykt stjórnarfrumvarpið var þá ekkert sérlegt pólitískt þrekvirki sem heiðraður svonefndur sjálfstæðisflokkur geti sér eignað. Eg þarf ekki að færa nein rök fyrir því sem sagt hefir verið um «kúvendingu« háttv. þm. í þessu máli, því að háttv. þm. Dal. (B. J.) hefir gert það. Háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) þekti á síðasta þingi, eins vel og nú allar þær ástæður, er hann nú hefir á móti því, að háskólinn taki til starfa. Að eins eina ástæðu þekkti hann ekki þá. En þessi eina ástæða er sú, að hann vissi ekki á síðasta þingi um breytingu þá, sem nú er orðin á því er snertir valdið til þess að veita hin nýju prófessorsembætti við háskólann. En það getur líka haft þýðingu fyrir suma.