27.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 640 í B-deild Alþingistíðinda. (1097)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Eggert Pálsson:

Umræðurnar hafa nú aðallega snúist um þetta tvent, háskólamálið og loftskeytamálið. Það er kunnugt, að háskólamálið var afgreitt hér frá háttv. deild með miklum meirihluta atkvæða, og það meira að segja með nafnakalli, þá er fjáraukalögin voru hér síðast til umræðu. Vona eg að eins verði nú, því að síðan er ekkert það komið fram, er geti réttlætt það, að háttv. þm. greiði öðruvísi atkvæði en þeir gerðu þá.

Að því er snertir loftskeytamálið, býst eg við að það standi svipað á með það hér í deildinni og áður og háttv. þm. hafi ekki breytt um skoðanir á því. Nefndarálitið í máli þessu ásamt breytingartillögu þeirri, er fram hefir komið í því, gefur mér þó tilefni til að fara nokkrum orðum um það. Eg skal geta þess, að sakir fjærveru var eg ekki með á síðasta fundi fjárlaganefndar. Og þegar eg kom heim var nefndarálitið til undirskriftar, og skrifaði eg undir það fyrirvaralaust, með því að eg taldi sjálfsagt að það væri í alla staði sannleikanum samkvæmt, enda í fullu samræmi við það sem áður hafði komið fram í nefndinni. En síðar hefi eg komist að raun um, að það mun ekki í alla staði rétt, sem stendur í nefndarálitinu, að meirhluti í nefndinni sé því fylgjandi, að loftskeytasamband verði ákveðið í þessum aukafjárlögum milli Rvíkur og Vestmannaeyja. Þessa vildi eg láta getið.

Í sambandi við þetta skal eg svo lítillega minnast á breyt.till. á þgskj. 781, þar sem ráð er gert fyrir, að loftskeytastöð verði sett á Seljalandi. Það mætti nú ef til vill gera ráð fyrir, að þetta mundi milda mig og kjósendur mína nokkuð í þessu máli. En eg skal nú þegar taka það fram, að það gerir það alls ekki hvað sjálfan mig snertir, og þykist hafa ástæðu til að ætla að það geri það alls ekki heldur hvað kjósendur mína snertir. Þeir eru með öllu mótfallnir loftskeytasambandi. Það hefir komið fram áskorun frá kjósendum í Vestmannaeyjasýslu til þingsins um að fá þráðskeytasamband en ekki loftskeytasamband, sem þeir og hafa algerlega mótmælt. Og vilja þeir heldur ekkert samband, ef þeir eiga að eins kost á að fá loftskeytasamband. Eg veit með vissu, að kjósendur mínir eru einnig á sama máli. Mér er það vel kunnugt, því eg hefi nýskeð verið á ferð þar eystra og hefi átt tal við ýmsa þeirra um þetta mál, og eru þeir algerlega mótfallnir loftskeytasambandi, hverjum pólitískum flokki sem þeir hafa fylgt eða fylgja. Þeim finst, sem von er, að þeir séu beittir ranglæti, ef þeir fá að eins slíkt samband, þar sem aðrir landshlutar hafa hlotið það hnoss að fá þráðskeytasamband. Vilja þeir því eins og Vestmanneyingar heldur ekkert samband fá að þessu sinni heldur en loftskeytasamband. Ástæðan fyrir því er sú, sem öllum ætti að vera ljós, að þetta samband er með öllu ófullnægjandi og að ýmsu leyti óhentugt, og þeir vona, að þingið muni seinna líta með sanngirni á hinar réttmætu kröfur þeirra um þráðskeytasamband, þótt það vilji eigi gera það nú að þessu sinni. Eg veit að vísu, að loftskeytasamband mundi verða að einhverjum notum, en hvergi nærri slíkum sem þráðskeytasamband. Það þarf ekki neina sérlega skarpskygni til þess að sjá það, að hentugra er að tala í síma um málefni en að senda loftskeyti þeim viðvíkjandi. Háttv. þm. Dal. (B. J.) sagði að mönnum væri hentara og betra að senda skeyti, þegar um viðskifti væri að ræða en að tala. Þetta getur ef til vill átt sér stað um vana »forretningsmenn« en alls ekki um alþýðuna yfirleitt, henni er ekki og getur ekki verið létt um að binda hugsun sína í stuttorðum skeytum. Hann talaði einnig um, að það væri stór munur á því að hafa loftskeytastöðvar á þessum slóðum, þá er um bjargráð er að ræða þar. En þetta er alls ekki rétt athugað. Það á sér oft stað, að menn róa út frá Landeyjasandi, þá er um fisk er að ræða. Ef nú brim skyldi brátt bera að höndum, svo að ómögulegt væri að lenda, væri miklu þægilegra og fljótlegra að geta talað út í Vestmannaeyjar frá stöð í Landeyjum á sjálfum sjávarbakkanum um að senda björgunarskip frá eyjunum, en að senda mann með skeyti, sem oft væri ekki auðhlaupið að, til Seljalands til þess að fá það sent af stað þaðan. Eg hygg að slíkt mundi oft og einatt taka svo langan tíma, að það kæmi ekki að neinum notum. Það er alkunnugt, að þarna hafa oft fjöldi manns druknað í einu. Nú hefir háttv. deild samþykt að byggja brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi, sem kostar um 70 þúsund kr., vegna þess, að í ánni hafa nokkrir menn druknað og hefi eg sízt á móti því. En hvað mætti ekki bjarga mörgum mannslífum með því að verja hálfri þessari fjárhæð til þráðskeytasambands milli Vestm.eyja og meginlandsins.

Þegar um þráðarsamband og loftskeytasamband er að ræða, má líkja þeim við brú og ferju yfir vatnsfall. Þráðarsambandinu má líkja við brúna, en loftskeytasambandinu við ferjuna. Sé ekki um annað að ræða en ferju, fara menn að sjálfsögðu yfir um á henni heldur en tefla lífi sínu í hættu, en sé um brú og ferju að velja, velja menn umsvifalaust brúna. Það er annars harla einkennilegt, að svona mikið kapp skuli vera lagt á að fleygja út fé til slíkra loftskeytastöðva, þar sem svo mikil fjárþröng er fyrir hendi. Það er þvert ofan í ósk og vilja þeirra, sem þær eiga helzt að nota. Eigi þetta að vera endanleg niðurstaða á sambandinu milli Vestmanneyja og meginlands, þá verður það ekki úr skafið, að hlutaðeigendur eru stakasta ranglæti beittir gagnvart öðrum landsbúum. En vilji forsprakkar þessa máls skoða það aðeins sem bráðabirgðaráðstöfun, þá virðist svo, sem sú bráðabirgðarráðstöfun sé nokkuð dýr og ekki sem bezt viðeigandi að gera slíkt »experiment« eftir því sem fjárhagur landsins horfir nú við.