28.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 644 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

87. mál, fjáraukalög 1910 og 1911

Björn Kristjánsson:

Það hefir verið mikið rætt um loftskeytin hér í dag, og meira en eg hafði búist við. Nú er eins og menn vita komin áskorun til þingsins frá Vestmanneyingum, um að láta þá hafa símasamband, en ekki loftskeyti. Það kann nú í fljótu bragði að virðast all-glæsilegt, að undir þessa áskorun eru skrifaðir 109 af 150 kjósendum í eyjum, en þegar farið er að athuga þetta nánar, þá verður mönnum fyrir að spyrja um það, hvernig á þeim áskorunum standi, og þinginu er það alveg hulið á hvern hátt málið hefir verið lagt fyrir þá. En svo mikið er víst, að þeir hafa ekki vitað að þeir ættu að fá samband beina leið í land með loftskeytunum, því að það kom ekki til fyr en í dag og meðan þeir vissu það ekki, þá var minni furða, þótt þeir væru þeim mótfallnir, því eins og kunnugt er, eru viðskifti og samgöngur allmiklar milli lands og eyja, þar sem menn fara á milli bæði til sjóróðra og í kaupavinnu og að allmikil verzlunarviðskifti eru milli þessara stöðva. Þetta gefur nú eyjarskeggjum tilefni til mótmæla, að þeir halda að þeir fái ekki samband beint í land. En mér þætti gaman að vita, hvað þeir segðu nú, ef þeir vissu um till. háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), þar sem gert er ráð fyrir, að þeir fái eigi eingöngu samband beint í land, heldur einnig við Vík, því að við þann kaupstað hafa þeir einnig töluverð viðskifti. Ef þeir vissu, að þeir ættu líka að fá samband þangað, þá er eg viss um að þeir sneru við blaðinu og óskuðu einmitt eftir loftskeytunum.

Eg sé að háttv. þm. Vestm. (J. M.) er ekki hér viðstaddur. Hann gat þess í dag, að hér væri ekki um nema eina stöð að ræða, og skil eg vel, að eyjabúar uni illa við það og hafi þetta atriði eitt með öðru orðið tilefni til þess, að þeir gáfu þessa yfirlýsingu. Þá hafa þeir heldur viljað leggja síma í land, en þiggja þessa einu stöð. Í öðru lagi vita þeir ekkert hvað viðhald sæsímans kostar. Við skyldum sjá, ef þeir þyrftu að fá »kabelskip«, hvort landssjóður mætti ekki fá að bera þann kostnað. En þetta er nú ekki aðalatriðið, heldur hitt, hvað mönnum kemur að beztu gagni. Einn maður hefir haldið því fram, að þetta útiloki samband við aðra staði á landinu, en það er gersamlega tilhæfulaust, því að síminn tekur við þar sem loftskeytin enda. Það er líka tekið fram af háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), að stöðin undir Eyjafjöllum taki við loftskeytunum frá Vestmannaeyjum, og það er því að eins á þessu stutta bili yfir sjóinn, sem þeir þurfa að nota loftskeytin og taxtinn hlýtur að verða hinn sami og ef sími væri alla leiðina, annars væri þeim gert þyngra fyrir en öðrum landsmönnum. Hin hliðin á þessu gagni er sú, að menn geta ekki talað saman, og finnast sumum það mikil óþægindi, að alt skuli þurfa að vera skriflegt. Ef ekki er um eintómt gamanhjal að ræða, þá eru það viðskifti manna á milli, sem síminn er notaður til, og eins og háttv. þm. Dal. (B. J.) tók fram, þá er það alt tryggara, sem skrifað stendur, en hitt sem talað er. Og þótt menn þurfi að bíða skipanna með »privat«-hjal, þá held eg að þeir fái fullkomlega sinn rétt fyrir því. Menn geta þá skrifað »slúðrið«.

Það er æðimargt, sem sagt hefir verið. Meðal annars sagði háttv. þm. Vestm. (J. M.) í dag, að engin ástæða væri til þess, að taka tillit til annara en Íslendinga sjálfra, og að á íslenzkum skipum séu engin loftskeytaáhöld. En hvers vegna eru þau þar ekki? Auðvitað af því að engin loftskeytastöð er til á landinu. Meðan svo er hafa þau ekkert með slíkt að gera, en þegar hún er komin, þá mundu þau útvega sér tækin, eins og önnur skip.

Þá var minst á það, að ódýrari tilboð kynnu að geta komið frá öðrum en Marconifélaginu. Hér er ekki á ferðinni nein skipun til stjórnarinnar að gera þetta í ár, heldur að eins heimild og það er nógur tími til þess að taka á móti tilboðum frá öðrum. Mér skildist það á ræðu eins háttv. þm., að svo væri ekki, en það er misskilningur hjá honum. Stjórninni ber engin skylda til þess að borga þetta út á neinum sérstökum degi. Sami háttv. þm. talaði um Poulsen í Khöfn, og taldi þýðingarmikið að hans aðferð kæmist líka að. Það er nú alt saman gott og blessað, en það getur beðið. (Pétur Jónsson: Nei, það er enginn tími til þess). Jú, það er nógur tími til stefnu að fá að vita um þessi afbrigði á svona hálfum mánuði. Þá ber þess og að geta, að sú list að tala þráðlaust gegnum loftið á stuttu svæði, er nú í sem óðastri framför, og hefir nú þegar verið talað þannig saman á miklu lengra bili, en milli lands og eyja. (Jón Jónsson S.-M.: Hvað kostar það?). Þess er enn ógetið, að loftskeytasamband við Vestmannaeyjar mundi verða miklu ódýrara en símasamband, sem eðlilegt er, þar sem stofnunin sjálf er ódýrari. Það hefir verið getið um fjárkröggurnar, og að landssjóð vanti stundum fé til nauðsynlegra útgjalda, og er það rétt. En hér er ekki

um fyrirframgreiðslu að ræða til þessa fyrirtækis.

Eg skal svo eigi fjölyrða um þetta, því að eg held það sé gersamlega þýðingarlaust, að vera að tala með þessu frv. eða móti, en einungis vil eg vona að þeir sem áður hafa greitt því atkv. geri það eins og hingað til.