24.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 674 í B-deild Alþingistíðinda. (1142)

12. mál, vantraustsyfirlýsing og ráðherraskipti

Flutningsm. (Benedikt Sveinsson):

Það er nú alkunnugt orðið, að margir af flokksmönnum sjálfstæðisflokksins innan þings og utan geta ekki lengur borið traust til núverandi ráðherra í þeirri stöðu. Höfum vér, allmargir alþingismenn meiri hlutans, látið það ótvírætt í ljós við ráðherra, fært ástæður fyrir skoðun vorri, og óskað að hann segði af sér völdum, en hann ekki fengist til þess, þegar á átti að herða, og ekki látið þess neinn kost að víkja nema fyrir vantraustsyfirlýsing, er kæmi fram í þinginu. — Hefðum vér þó miklu fremur kosið, að ráðherra hefði vikið, án þess að til slíks kæmi, sem honum hefði og verið útlátalaust, þegar er hann vissi, að hann hafði að minsta kosti mist traust svo margra sinna flokksmanna í þinginu, að hann var kominn þar í minni hluta, nema því að eins, að hann gerði sér von um að geta stuðst við hinn flokkinn, »frumvarpsflokkinn«, eða einhverja af þeim flokki, nægilega marga til þess að tryggja sér nýjan meirihluta í þinginu.

En ráðherra hefir nú synjað þess þverlega, að lúta öðru en beinni vantraustsyfirlýsing, og því er það, að vér sjálfstæðismenn höfum orðið neyddir til að bera hana fram, hjá því varð ekki komist sakir undirtekta ráðherra, því að oss þykir það skyldara að fylgja fram málstað vorum en einstökum manni, þegar oss þykir hann ekki vinna í samræmi við stefnu vora — heldur þvert á móti. — Vér getum hvorki fyrir sjálfum oss né öðrum réttlætt ýmsar athafnir hans og framkomu, og eigi heldur vænst þess, að honum takist það betur framvegis, að vinna í samræmi við flokkinn.

Vér erum ósamþykkir ráðherra fyrir framkomu hans bæði utan lands og innan: Fyrir undanhald og ístöðuleysi gagnvart útlenda valdinu og fyrir lélega stjórn og athafnaleysi innanlands.

Framkoma ráðherra gagnvart danska valdinu hefir verið í ósamræmi við vilja og stefnu sjálfstæðisflokksins og honum ósamboðin bæði í orði og verki, og skal eg nú nefna þess nokkur dæmi:

Viðskifti hæstv. ráðherra vors byrja með forsetaförinni. Ekki er því að leyna, að mikla skapraun höfðu margir Íslendingar af þeim fagurmælum, sem ráðherra mælti þá í eyru danskra blaðamanna. Var að vísu margt logið, ýkt og fært til hins verra vegar, bæði af Dönum og þeirra vinum — en sumt var þó satt, og var það algerlega óþarft og ósamboðið ráðherra Íslands að leita vinfengis danskra blaðamanna með skjalli og lítilsvirðandi samanburði á Danmörku og Íslandi. Kom slíkt og mjög illa við orðræður þær, sem blað ráðherra hafði oft á síðustu árum haft um þetta efni. — Það var síður en svo, að þessi frammistaða aflaði landinu virðingar utanlands. En eg skal ekki fara fleiri orðum um það, heldur minnast á afskifti ráðherra af sambandsmálinu.

Það var sagt í fyrra dag í blaði stjórnarinnar, að ráðherra hafi átt »manna langmestan þátt í því, að innlimunin tókst ekki 1908«. — Það er rétt, að núverandi ráðherra gekk þá fast fram, enda stóð hann manna bezt að vígi sakir stöðu sinnar. — En hitt er þó fjarstæða, að eigna honum nálega einum það verk, eins og stundum hefir heyrst, því að það er satt að segja, að þar unnu að á eigin hönd hundruð manna og jafn vel þúsundir út um alt Ísland og hefðu gert það, eins fyrir því, þótt núverandi ráðherra hefði tekið aðra stefnu í málinu. Þetta er ekki sagt til að rýra starf núverandi ráðherra þá, en hinu má heldur ekki gleyma, að íslenzka þjóðin er svo vel sett, sem betur fer, að hún á miklum fjölda góðra drengja á að skipa, þegar réttindum hennar er í tvísýni teflt, og vænti eg fastlega, að ekki bregðist það heldur í framtíðinni, þegar á reynir.

Á þinginu var það einhuga samþykki sjálfstæðismanna að setja fram kröfur Íslendinga í lagaformi til þess að Danir og aðrir fengi að vita þær sem glöggast. Þetta var tilætlun allra flokksmanna vorra í landinu og að þessu hafði verið unnið allan þingtímann. — Það kom því mörgum á óvart, þegar ráðherra fór að ympra á því, þegar komið var fram undir þinglok (28. apríl. Alþt. ’09 B. II. 767), að hlíta mætti við það, að þingið léti vilja sinn í ljós í þessu máli með rökstuddri dagskrá! — eða jafnvel léti málið óútrætt. Sbr. Alþt. B. II. 769). Auðvitað fékk þetta ekki áheyrn flokksmanna, heldur var mótmælt og datt svo niður. — En þessu hreyfði ráðherra eftir bendingu frá Neergaard forsætisráðherra Dana, því að Danir vildu fyrir hvern mun halda því í þagnargildi, að Íslendingar væri ekki ánægðir með tilboð þeirra — »uppkastið«, sem þeir höfðu skrumað af út um öll lönd og hælt sér fyrir dæmalausa mannúð og réttlæti. Og einkum vildu þeir aftra því, að beinar kröfur kæmi fram í lagaformi, því að þá áttu þeir örðugra með að dylja það fyrir nágrannaþjóðunum, að frjálslyndi þeirra væri minna en þeir höfðu látið og alt kæmi skýrt fram, hvað í milli bæri. — Það og annað, að líklegt var, að Íslendingar mundu verða fastari fyrir, ef þeir hefði sett kröfur sínar svo ákveðið fram — heldur en ef þeir fengist nú til að láta undan og láta sér nægja að koma að eins með einhverjar yfirlýsingar, sem lítt yrði eftir tekið og fljótt félli í gleymsku.

Það var að vísu ekki við að búast, að málið næði samþykki Dana, eins og áður var í pottinn búið, þar sem Danir vissu heilan flokk í landinu miklu lítilþægari, sem fylgt hafði »nefndar«frumvarpinu, en engu að síður var það hinn mesti ills viti, að ráðherra skyldi þegar hafa dignað svona í því að halda málinu fram með þeirri einurð og staðfestu, sem því var samboðin, og fara að draga úr framgangi þess á þinginu.

Danir hafa síðan reynt að þegja málið í hel, og til ráðherra hefir ekki heyrst um það utan það eitt, er hann sagði við danskan blaðamann í vetur, »að málið mundi nú látið bíða að sinni, og Íslendingar mundu sætta sig við eina eða aðra tilslökun í áttina til konungssambands!« — Þessi ummæli ráðherra eru alls ekki töluð í umboði flokksins og öðru nær, en flokkurinn geti sætt sig við, að ráðherra af hans flokki gefi Dönum þannig undir fótinn um lítilþægni vora — enda fékk ráðherra þakklæti fyrir þau í »Þjóðólfi« og þarf þá ekki frekari vitna við.

En þar sem Danir hafa í engu viljað sinna réttmætum jafnréttiskröfum íslenzku þjóðarinnar, þá er það linlega tekið á móti að gefa þeim þessar og þvílíkar yfirlýsingar. Þeir mega gjarnan hafa nokkurn ugg af því, að það geti haft sínar afleiðingar að þeir vilja varna oss réttinda.

Það varð hljóðbært í haust, að ráðherra hefði staðráðið að fresta þinghaldi fram á vor, og bréf hans, sem nýlega var birt í Ísafold, ber þess vitni, að svo hefir verið. Ástæður til þingfærslu munu hafa verið: 1) að komast hjá örðugleikum við vetrarþing, 2) að stilla svo til, að alþingi hefði hér setu á aldarafmæli Jóns Sigurðssonar og 3) að fyrirbyggja það hneyksli, að konungkjörnu þingmennirnir sæti á fjórum reglulegum þingum án endurkosningar, — sem aldrei hefir átt sér stað, hvorki um þjóðkjörinn þingmann né konungkjörinn til þessa og aldrei verið tilætlan stjórnarskrárinnar. Taldi hin fyrri stjórn það höfuðástæðu til þingrofs síðast, að koma í veg fyrir setu þjóðkjörinna þingmanna á fjórum fjárlagaþingum sama kjörtímabil. En út í það atriði ætla eg ekki að fara frekara, heldur legg eg áherzluna á hina pólitísku hlið málsins.

Þetta mál er eingöngu íslenzkt sérmál, sem Dönum kemur ekki hið minsta við og hafa engan rétt til að skifta sér neitt af — eins og viðurkent hefir verið í einhverjum blöðum þeirra nýlega. — Hvað skyldi líka vera íslenzkt sérmál, ef ekki það, hvenær alþingi Íslendinga er kallað saman? Það er algerlega á valdi hinnar íslenzku stjórnar. — En hvernig fer ? — Ráðherra gefur í skyn, að hann hafi sótt málið fast, en Danir (og þeirra liðar héðan) hafi róið þar á móti öllum árum af fjandskap við sjálfstæðisflokkinn íslenzka, og ráðherrann lætur hér undan erlenda valdinu í alíslenzku máli, og er slík frammistaða með öllu óverjandi. Fyrir því eru engar afsakanir gildar. Ekki skal það efað, að nóg hafi verið reynt að stæla konungsvaldið héðan í þessu máli gegn ráðherra, og að ýmsir Danir hafi gengið sama erindið — engu að síður var það sjálfsögð skylda ráðh. að halda málinu til streitu, úr því að hann hóf það á annað borð. Konungur gat ekki skipað honum að skrifa undir ráðstöfun, sem ráðherra vildi ekki sjálfur. — Því er barið við, að ráðherra hefði þá orðið að fara

frá, — eins og það hefði ekki verið betra en að kúgast — en til þess hefði aldrei komið, þegar til alvöru kom. Enda hafa blöð Dana játað það síðan (eins og eg gat um), að þetta mál væri þeim alveg óviðkomandi og færi einungis milli ráðherra Íslands og konungs, sem vitanlegt var, hversu ant sem þeim er þó undir niðri að styrkja flokk sinn hér. Ráðherrann segir í einu bréfi sínu, að konungur geti ekki kúgað ráðherra til að gera annað en þeim líki. Alveg rétt. Hann þurfti því ekki að slaka til. Sjálfsagt að láta þá íslenzku þjóðina sjá svart á hvítu, hvar skórinn krepti. En það kemur ekki fram opinberlega. Ráðherra hefir leyst konungsvaldið af hólmi og tekið ábyrgðina á sig.

Eftir alt þetta lætur svo ráðherra danska ráðgjafa hafa sig til þess að taka upp í fjárlagafrumvarpið ákvæðið illræmda um það, að ? botnvörpusektanna skuli renna í sjóð Dana. — Þetta er gersamlega réttlaus krafa og beint ofan í lög, bæði dönsk og íslenzk, bæði »stöðulögin« dönsku, stjórnarskrána sjálfa, 2. gr., og botnvörpuveiðalögin. — — Framkoma Dana í málinu er líka eftir því. Stundum þykjast þeir hafa búið »Islandsfalk« til í því trausti, að þeir fengi þetta fé samkvæmt samningi, en þó var skipið bygt áður en alþingi tók upp botnvörpusektaákvæðið 1905. Þeir kallast hafa verið gabbaðir, en bygðu þó skipið — fyrir sjálfa sig — ári áður en þeir fóru bónarveg að Íslendingum að taka þátt í kostnaðinum. Þeir tala í öðru orðinu um samning, í hinu orðinu neita þeir að nokkur »leyni-samningur« hafi verið gerður. Hitt vita allir, að um engan opinberan samning er að ræða — og þá alls ekki um neinn samning!

Danir banna Íslendingum sjálfum að verja landhelgi Íslands, þykjast einir hafa rétt til landvarna hér (héldu því meðal annars fast fram í millilandanefndinni) en koma svo og heimta af Íslendingum borgun fyrir að halda fyrir þeim réttindum þeirra.

Það er ósæmilegt, að þeir fái þetta fé, meðan þeir halda slíku fram. Hitt væri samningamál, að Íslendingar borguðu þeim sanngjarnlega fyrirhöfn þeirra, ef þeir viðurkendu rétt Íslendinga til þess að hafa vörnina sjálfir á hendi. Ella tekur slíkt engu tali. Það er því stór furða, að ráðherra skuli taka þessa ósanngirni upp í fjárlagafrumvarp sitt. — Að vísu munu Danir hafa látið svo þegar ráðherra bar fjárlög síðasta þings fram til staðfestingar, að þeir mundu fella þau nema þetta væri lagfært á næstu fjárlögum — og því hefir ráðherra dregist á að gera það. — Síðan hefir þó Neergaard játað það í ríkisþingi Dana, »að um það geti ekki verið að tala fyrir konung, að synja fjárlögum Íslands staðfestingar fyrir þessa sök«. —

Nú segir ráðherra, í athugasemdum fjárlagafrumvarpsins, að Dönum »sé eigi láandi, þótt þeir þykist hafa orðið fyrir vonbrigðum« og að »alþingi virðist ekki geta verið þekt að því, að láta neitt upp á sig standa í þannig vöxnum viðskiftum«.

Fyrverandi ráðherra (H. H.) fór þeim mun hóglegar í sakirnar, að hann kom þó ekki með ákvæðið í fjárlagafrumv. sjálfu upphaflega, heldur með breyt.till. og kallaði það ekki »beina kröfu« — heldur »að eins kurteislega málaleitun« (Alþt. B. 137). — Danski tónninn er háværari og ákveðnari í fjárlagafrumvarpinu núna!

Um afskifti ráðherra af viðskiftaráðunautnum get eg verið fáorður. Danir fóru með röklausar ásakanir á hendur Bjarna Jónssyni, og utanríkisráðherra Dana heimti erindisbréf hans af ráðherra. Ráðherra svaraði með mjög auðmjúku bréfi. Talaði um »leiðinlega — eða sorglega — gleymsku«, en þetta er mál, sem Dani varðaði alls ekkert. — Danir voru ánægðir með skoðun ráðherra á starfi ráðunautsins, og þetta spilti fyrir honum erlendis.

Það hefir mælst mjög illa fyrir meðal þjóðarinnar, að ýmsir æztu embættismenn landsins létu það viðgangast, að þeir voru skráðir sem »núlifandi danskir menn« í »Bláu bók« Kraks, sem út var gefin í Danmörku árið sem leið, og er rit, sem fer víða um lönd. Meðal þessara »dönsku manna« er ráðherra vor talinn. Hann kom að vísu með nokkrar afsakanir fyrir því síðar, þegar þetta hneyksli var orðið að blaðamáli, en engin leiðrétting hefir þó verið á því gerð. — Íslenzka þjóðin getur ekki unað því, að helztu embættismenn hennar láti það viðgangast, að þjóðerni voru sé afneitað á þennan hátt frammi fyrir alheimi. Er það hart, að virðingu þjóðernis vors skuli hafa stórhrakað svo síðan á 18. öld, því að þá, á verstu einveldistímunum, voru Íslendingar taldir sem sérstök þjóð við hlið Dana og Norðmanna í samskonar fræðibókum, er Danir gáfu út á þeim tímum. — Eg hefi ekki viljað ganga alveg þegjandi fram hjá þessu, og verð að leggja áherzlu á þá kröfu, að slíkri óhæfu verði afstýrt framvegis, hverjir sem hlut eiga að máli.

Þá verð eg að fara nokkrum orðum um athafnir ráðherra innanlands.

Rannsókn hans á landsbankanum var skilin svo af mörgum, sem stjórnin hefði þar með hafið nýja stefnu, eða ásett sér að taka upp ríkara aðhald og eftirlit með opinberum stofnunum og starfsmönnum þjóðfélagsins, en títt hefir verið að undanförnu. Slík stefna mælist vel fyrir hjá þorra almennings, enda er hann því óvanur, því að fyrri stjórnir hafa ekki látið mikið til sín taka í þeim efnum.

En þetta hefir alt farið í mola og mikið ósamræmi komið fram í athöfnum stjórnarinnar. Kemur það berlega fram í afskiftum hennar af Íslandsbanka. Eftirlit með honum hefir ekkert verið fram yfir hið lögboðna, sem er ámóta í báðum bönkunum. Hefði þó sízt verið vanþörf á því, að skygnast þar í saumana, eins og áþreifanlega kom fram, þegar upp komst hið gífurlega hneyksli í útibúi bankans á Akureyri árið sem leið, sem einsdæmi er í sögu landsins: Bankastjórinn hafði árum saman haft hina mestu óreglu og sviksemi í frammi í stjórn sinni, notað fé bankans svo tugum þúsunda skifti í eigin þarfir, í sukk sitt og brask, með leynd og heimildarleysi, sópað úr reikningslánum manna og sparisjóðsbókum, tekið við borgun fyrir víxla, en ekki greitt bankanum féð, hirt sjálfur peningabréf til bankans o. s. frv. — Meðan árleg skoðun fór fram í bankanum hafði hann fengið bráðabirgðarlán í landsbankaútibúinu, til þess að sletta yfir verstu gloppurnar. Loksins hverfur hann eitt kveld, meðan annar undirbankastjóri Íslandsbanka er að gera upp hag útibúsins, stingur á sig eitthvað 500 kr. úr peningabréfi til bankans og læst svo vera dauður! Hefst síðan við fullan mánaðartíma í miðjum Akureyrarbæ og siglir svo loks til Ameríku.

Hvað er svo gert af hálfu hins opinbera til þess að vernda rétt viðskiftamanna bankans með því að ná í sökudólginn? Undirbankastjórinn gerir enga gangskör að því, bæjarfógeti gerir ekkert, landstjórnin ekkert. Engin opinber rannsókn fer fram. Eina ráðstöfunin af hálfu stjórnarvaldanna var »dánarbús«auglýsingin fræga í Lögbirtingablaðinu. Það var öll röggsemi fógetans, lengra komst hún ekki fyrri en löngu seinna, þegar sökudólgurinn var kominn í aðra heimsálfu. Eg skil ekki, að svo slælega hefði verið tekið á þvílíku hneyksli öllu saman í nokkru öðru siðuðu landi.

Ofan á þetta bætir svo ráðherra órökstuddu lofi á »allri stjórn bankans«, sem »sé og hafi jafnan verið í bezta lagi«.

— Menn beri þetta saman við ummæli ráðherra um landsbankann og athugi hvílíkt samræmi í þeim er, þegar að er gætt, hvað fram hefir komið í hvorum staðnum, öðrum við rannsókn, hinum rannsóknarlaust.

Það er einkennilegt dæmi um réttarfarið í landinu á þessum tímum, að jafnframt því sem þetta margþætta stórhneyksli á sér stað við eina opinbera stofnun í landinu, þar sem óráðvandlega er farið með marga tugi þúsunda króna — eg veit ekki hve marga — þá er hafin sakamálsrannsókn á hendur umkomulitlum bóndamanni vestur í Tálknafirði út af 25 — segi og skrifa tuttugu og fimm aurum(!), er grunur þótti á, að hann hefði haft af landssjóði í skiftum sínum við hið opinbera! — Það mál var rekið með ósleitilegri röggsemi af yfirvaldinu, stjórnarráðið bauð að halda þeim prófum áfram, málið var dæmt, bóndinn sakfeldur, lagt löghald á alt bú hans og hann dæmdur í hegningarhúsið. Þetta mál kom að vísu ekki til kasta ráðherra sjálfs, svo að hann á hér ekki beinan hlut að máli, en eg hefi ekki viljað láta það liggja í þagnargildi, af því að það sýnir svo greinilega samræmið í réttarástandi landsins.

Undirbúningur lagafrumvarpa er eitt af helztu ætlunarverkum stjórnarinnar. Fyrri stjórnin fékk oft ákúrur fyrir það, að hún hefði verið síðbúin með frumvörpin, þau kæmi ekki í hendur þingmanna fyr en rétt í þingbyrjun eða á þingi. Væri því loku fyrir skotið, að þau yrðu rædd á þingmálafundum og þau væri oft orðin að lögum áður en þjóðin vissi nokkuð af, svo að hún gæti ekki á nokkurn hátt látið sína skoðun á þeim í ljós. Þetta átaldi 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) hér á alþingi 1905 og eins var það átalið í blöðum og á þingmálafundum vorið 1907.

Núverandi stjórn hefir enga bót á þessu ráðið, síður en svo. Alt var óundirbúið í haust, þegar ráðherra fór utan. Hann fór svo að vinna að frumvörpum suður í Danmörku, fjarri allri samvinnu við Íslendinga. Slíkt er öfugt og óviðeigandi. Frumvörpin eru samin þar flestöll á dönsku og ófáanleg fyr en í þingbyrjun, nema þá á dönsku eftir að ráðherra kom heim. Þetta horfir ekki til batnaðar. Hér á ofan hefir stjórnin vanrækt að undirbúa frumvörp, er síðasta alþingi fól henni, svo sem um aðskilnað ríkis og kirkju og stjórnarskrármálið, sem er mjög bagalegt og getur orðið að tjóni, ef nú verða misfellur á frágangi þess máls í þinginu sakir ónógs undirbúnings.

Ráðherra hefir dvalið langvistum erlendis, suður í Danmörk, og er ekki annað sjáanlegt, en það hefði verið ráðherra skyldara starf að undirbúa þessi lagafrumvörp og önnur — heldur en að leggja þá virðing á Skrælingjafélagið að sækja þar fund og hlýða á marklaust þref um Íslandsmál, því að þau eru gersamlega óvarðandi það félag. Þar er er ekkert forum fyrir þau né fyrir ráðherra Íslands til þess að ræða þau þar. — Það er og ráðherra Íslands óskylt starf að halda fyrirlestra við lýðskóla á Jótlandi, enda mun leika á tveim tungum, hverja vegsemd landið hafi af því haft.

Þetta undirbúningsleysi frumvarpanna og annað athafnaleysi stjórnarinnar stafar að minsta kosti að nokkru leyti af heilsulasleika ráðherra. Það er kunnugt, að hann hefir verið lasburða tímum saman, síðan hann komst í þessa stöðu, enda er hann orðinn þreyttur af miklu starfi og nokkuð hniginn að aldri. Vill það oft verða, þegar miklir starfsmenn takast á hendur annarlegt verksvið á gamals aldri, að þeir njóta krafta sinna miður en ella, og vafalaust er þetta undirrótin margs þess, er eg hefi talið ábótavant í fari ráðherra. Það er réttmæt afsökun, það sem hún nær, en ekki fullnægjandi, því að þjóðinni er það nauðsynlegt, að æzti valdsmaður hennar hafi nokkurn veginn óskerta krafta og sé í fullu fjöri.

Eg hefi þá farið yfir margt af því, sem mér mislíkar í framkomu ráðherra utanlands og innan. Vona eg, að af þessu megi vera ljóst, að eg hefi — frá mínu sjónarmiði — fulla ástæðu til að stuðla að því, að ráðherra (B J.) leggi niður völd og að það eitt er skylda mín, ef eg vil vera tryggur mínum málstað og flokks þess, sem nú er í meiri hluta. Það er sjálfsögð skylda hvers manns að fylgja fremur málstaðnum en manninum, þar sem fylgi við hvoratveggju getur ekki farið saman.