24.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 772 í B-deild Alþingistíðinda. (1154)

12. mál, vantraustsyfirlýsing og ráðherraskipti

Ráðherrann (B. J.):

Það hefir verið skýrt svo frá hér í deildinni í dag, að eg eigi að hafa boðist til að sleppa þessu hnossi, sem svo margir sækjast eftir, ráðherraembættinu, í góðu, sem kallað er. Það er satt, að eg lét þá skoðun í ljósi við flokkinn, að ekki mundi á mér standa, ef eg væri kominn sjálfur í minni hluta í mínum flokki, sem reyndar er ekki enn, þrátt fyrir mikinn og margvíslegan undirróður, og að þeir góðu herrar gætu bent mér á einhvern eftirmann úr flokknum, sem styddist við nægilegan meiri hluta. En þetta hefir heldur ekki lánast enn sem komið er. Og þess vegna óskaði eg heldur, að vantraustsyfirlýsingin kæmi fram. Eg þurfti líka að fá þessa yfirlýsingu á þinglegan hátt, sem svo er kallað, annað mátti heita óverjandi gagnvart konungi og þjóðinni.

Eg heyri enn sagt, að eg eigi að hafa verið svo linur í kröfum fyrir Íslands hönd niður í Danmörku; ja, þvílíkur hégómi! Eg neita því óhikað að hafa á nokkurn hátt slegið af kröfum sjálfstæðisflokksins. Það, sem eg hefi sagt dönskum blaðamönnum, er, að hugsast gæti, að eitthvert samkomulag, eitthvert »kompromis« kæmist ef til vill á, einhver afsláttur yrði báðum megin — og eg stend við það. Þegar tala á um eitthvað og þeir halda sinn í hvorn enda, lýkur þeirri viðureign venjulega á »kompromis«. Eg hefi aldrei talað neitt í þá átt, er gefi átyllu til að tala um verulegan afslátt í sjálfstæðiskröfum vorum. Það er alt einber skáldskapur, er um það hefir verið sagt.

Eg er samdóma mikilsvirtum þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um það, að sjálfstæðisbaráttan mundi auka þroska þjóðarinnar, ef Íslendingar fylgdust þar allir að einu máli. En ef altaf er eintóm sundrung og tvístringur, þykir mér vafasöm von þroskaauka af henni.

Mér er núið því um nasir, að eg hafi á þinginu 1909 sagt, að eg gerði mér að góðu rökstudda dagskrá í sambandsmálinu. Hygg eg, að það sé í flestra augum lítilfjörleg dauðasök. Það getur verið álitamál, með hverju ráði menn komast lengst, hvort sé vænlegra til sigurs að berja í borðið eða freista sigursins með lipurð. Eg hallaðist heldur að rökstuddri dagskrá, vildi vinna það til, til frekara samkomulagstilrauna að fara þá leiðina að hætta við frumvarpið, sem mér var kunnugt um, að Danir töldu snoppung framan í sig. Eg er þeirrar skoðunar að góðmannlegt viðmót sé vænlegast til samkomulags og framgangs þeim málum, er menn berjast fyrir. En þegar eg varð þess áskynja, að flokksmenn mínir höfðu beyg af, að sú leiðin væri farin, féll eg frá því. Fyrir mér vakir að freista samkomulags. En það er ósatt, að eg hafi brugðist stefnuskrá flokks míns frá 1909 og ætla mér ekki að bregðast henni.

Þá er mér borið á brýn, að eg hafi látið undan síga í viðureigninni við Dani um botnvörpusektirnar og stuðlað að því, að Danir fengju þær aftur. Það, að botnvörpusektirnar eru teknar upp í fjárlögin, þýðir ekkert annað en að þinginu er gefinn kostur á að segja álit sitt um, hvort það vill efna loforð sín eða fullnægja því, er orðið hefir að samkomulagi. Ef þetta hefði ekki orðið að samkomulagi, hefði það aldrei komið til tals. Eg hefi aldrei lofað neinu né barist fyrir neinu í þessu efni.

Þá er nú þingfrestunartillagan. Eg skal engu spá um það, hvort konungsvaldið hefði látið undan síga, ef eg hefði haldið málinu til frekari streitu en eg gerði. Eg er samt líklega fróðari um það en aðrir virðulegir þingdeildarmenn. En ef eg hefði gert það, er mér óhætt að fullyrða, að þá væri minni hlutinn nú kominn til valda og eg áleit skyldu mína að varna því, að slíkt gerðist milli þinga. Eg hefði brugðist meiri hlutanum, ef eg hefði hlaupið frá völdum milli þinga.

Eg hefi áður gert skilmerkilega grein fyrir, hvers vegna eg bar ekki upp stjórnarskrárfrumvarp í ríkisráðinu og skal eg ekki ítreka það.

Um áfengistollinn get eg þess, að sem stendur er óhægt að gera nákvæmari áætlanir. Það verður fyrst hægt á næstu missirum. Þeir, sem telja áfengistollinn áætlaðan ofháan hafa ekki gildari rök við að styðjast en þeir sem telja hann hæfilegan.

Það er rétt, að bankarannsóknin hefði átt að fara fram í kyrþey — enda var annað aldrei tilætlun stjórnarinnar. Það var háreysti virðulegs mínnihluta, er hleypti öllu í uppnám.

Frávikning bankastjórnarinnar gerðist eftir eldri bankalögunum (frá 1885). Það er fjarstæða, að ný bankalög gætu sett þá inn og allir lögfræðingar hljóta að vera á sama máli um það. Ef menn hugsa sér, að bankastjórnin hefði drýgt glæp — þetta er að eins hugsunardæmi — þá ætti eftir þessari lagaskýringu að taka þá úr tukthúsinu, setja þá inn í embættið og reka þá úr sætum sínum, er fyrir eru, hina settu gæzlustjóra, svo að glæpamennirnir gætu setst þar í þeirra stað. Þar til hæstaréttardómur er kveðinn upp um, að þessi skoðun mín sé röng, held eg henni fram.

Þá er mér fundið til foráttu, að eg hafi gert of lítið úr hve skilnaðarstefnan sé rík hér á landi og á að hafa verið mjög bljúgur í viðræðum, er hún kom til tals. Það getur verið álitamál, hve mikill ótti Dönum stendur af skilnaðarhótunum. Eg tel mig kunnugri þeim efnum en marga aðra. Að minni vitund gera þeir ekki annað en espast við það og verða óviðráðanlegri í viðureign en ella. Þeir sem trúa á skelkinn, halda auðvitað hinu fram. Eg tel vafasamt, hvort rétt sé að gera of mikið úr henni. En eg hefi hvergi gert minna úr henni en hún er. Eg hefi sagt, að að svo stöddu væri ekki nema örlítið brot með henni, en að meiri hlutinn vildi komast með góðu að því, er hann keppir að. Eg hefi haldið því fram, að ef Danir yrðu mjög þverbrotnir við oss, mundi það glæða eldinn, og hygg eg, að þeim sé það ljóst.

Virðul. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) brigzlaði mér um, að eg hefði ekki látið bera sambandsmálið upp á ríkisþingi Dana. En slíkt er mér ofvaxið og öllum íslenzkum ráðherrum. Það eru engin ráð til að neyða Dani til slíks. Þeir eru með öllu ófáanlegir til að líta við frumvarpinu frá 1909. Þótt konungur vildi gæti hann ekki skipað ráðherrum sínum að leggja það fyrir ríkisþing. Danir vilja sem stendur ekki samkomulag á þeim grundvelli, er vér nú stöndum á.

Hvað viðtekur eftir atkvæðagreiðslu þá, er nú fer fram, læt eg ósagt. Það getur verið, að minni hlutinn og brot úr meiri hlutanum bræði sig saman, verði úr þeim samsteypa og brotið sætti sig við uppkastið sæla eða klofni aftur, og eða loks að minni hlutinn og brotið renni saman annan daginn og klofni hinn. Meðan svo stendur, er »kaos« á þingi. Hvernig eg snýst við því, læt eg seinna í ljósi. Eg hefi ekkert fastráðið enn um það né hvaða stefnu eg tek. Og lýk eg svo þessu máli.1)

1) Eftir að þessari ræðu var lokið, bar forseti undir atkvæði, hvort fresta skyldi umræðum til morguns, en það var felt með 15:10 atkv. með nafnakalli.