01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 797 í B-deild Alþingistíðinda. (1159)

12. mál, vantraustsyfirlýsing og ráðherraskipti

Ráðherrann (B. J.):

Eg vil hér með tilkynna hinni virðulegu deild, að eg hefi fengið svolátandi svar frá konungi við lausnarbeiðni minni frá 25. f. mán.:

»Lausnarbeiðni yðar hefi eg meðtekið, þótt leitt þyki, en bið yður þjóna embættinu til þess er eftirmaður er skipaður«.

— Í sambandi við þetta skal þess getið, að í gær hefir borist orðsending frá konungi, þar sem hann óskar, að alþingi haldi áfram umhugsun og ráðagerð um eftirmann minn, og vonast hann eftir skeyti um það, þegar hann kemur aftur frá Svíþjóð hinn 11. þ. m. Eg mundi hafa skýrt deildinni fyr frá þessu svari konungs, ef eg hefði ekki verið að bíða eftir samkomulagi um eftirmann minn. En nú sé eg, að ekki er til neins að bíða lengur.

II.

Á fundi deildarinnar 15. marz tilkynti forseti, að hinn nýskipaði ráðherra, Kristján Jónsson, þingmaður Borgfirðinga, er þá var staddur í deildinni, óskaði að taka til máls, áður en til dagskrár væri gengið.