15.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 799 í B-deild Alþingistíðinda. (1161)

12. mál, vantraustsyfirlýsing og ráðherraskipti

Skúli Thoroddsen:

Eg álít hlýða að mótmæli komi nú þegar fram gegn því, að þingræðið hefir verið brotið, er núverandi ráðherra var skipaður, þar sem Hans Hátign konunginum var það fullkunnugt, að 19 þjóðkjörnir þingmenn höfðu skriflega lýst því yfir, að þeir mundu að eins styðja einn ákveðinn mann, sem ráðherra. Auk þess hafði einn þingmaður lýst því yfir, að hann mundi styðja þennan sama mann út þingtímann, og sá 21. hafði lýst því yfir, að hann mundi láta ráðherraútnefninguna hlutlausa. Þannig lá fyrir skýlaus yfirlýsing frá meiri hluta allra þingmanna og miklum meiri hluta allra þjóðkjörinna þingmanna um, að þeir mundu ekki styðja Kristján Jónsson til ráðherraembættis, og konungi var þetta fullkunnugt. En sá maður, sem hefir gerst svo djarfur að takast á hendur ráðherraembættið, þó hann vissi, að hann ekki hefði meiri hluta þjóðkjörinna þingmanna með sér og þannig brotið þingræðið, hann hefir unnið það verk, sem getur haft mjög óheillavænlegar afleiðingar fyrir landið og þjóðina.

Eg vildi það kæmi fram hér í deildinni skýr mótmæli gegn gerræði því, sem hér hefir verið beitt.