18.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 810 í B-deild Alþingistíðinda. (1173)

95. mál, vantraust á Kristján háyfirdómara Jónsson

Ráðherrann (Kr. J.):

Eg get með sanni sagt, að þau fari nú að tíðkast hin breiðu spjótin. Vér byrjuðum þingið með vantraustsyfirlýsingu til fyrverandi ráðherra, og um hana hefir verið þjarkað, svo að nú er liðinn mánuður af þingtímanum. En nú er komin fram önnur vantraustsyfirlýsing gegn mér, og lítur út fyrir, að hún með öllum sínum dilkum muni taka annan mánuðinn til. Innihald hennar er það, að neðri deild alþingis lýsi yfir vantrausti sínu á Kristjáni Jónssyni sem ráðherra. Eg vil benda á það, að svo hefir henni verið flýtt, að hún er fram komin og prentuð, áður en eg hefi fengið ráðherraskipun mína. Það reið á þegar að binda vel um hnútana og safna mönnum undir merkið. En eg verð að spyrja: Hvað hefi eg gert mér til foráttu? Eg kannast ekki við neitt í þá átt. Eg hefi verið og er í sjálfstæðisflokknum, sem eg tel að sé sami flokkurinn, sem myndaðist árið 1895, þó að hann hafi oft skift um nöfn. Eg hefi þannig verið í sama flokki og hinn fyrverandi ráðherra var og er í, og eg vil leyfa mér að segja það, að mitt sæti þar hafi ekki verið ver skipað en annara. Eg var ennfremur í því flokksbrotinu, sem flutti vantraustsyfirlýsingu gegn fyrverandi ráðherra og feldi hann frá völdum, og eg hefi fylgt þessum sama flokki, eins og eg tók fram, síðan 1895, að hann var stofnaður. Eg segi því: Hvað hefi eg gert, sem mér verði fundið til foráttu? Eg veit ekki til, að eg hafi neitt brotið af mér. Þvert á móti hefi eg verið góður flokksmaður, þó eg segi það sjálfur, og er enn réttrúaður sjálfstæðismaður. Mér er því ekki ljóst, á hverju vantraustsyfirlýsing til mín getur verið bygð, nema ef vera skyldi að hún væri sprottin af persónulegum ástæðum. — Því er haldið fram, að eg með því að taka á móti ráðherraembættinu hafi framið þingræðisbrot. Þar til er því að svara, að Hans Hátign konungurinn hefir rétt til að taka hvern mann í þeim flokki, sem er í meiri hluta í þinginu, til ráðherra; hann hefir algerlega frjálst val og ótvíræðan rétt til þessa, sem alstaðar er viðurkendur. Jafnvel á sjálfu Englandi, heimkynni þingræðisins, dettur engum manni í hug að efast um þennan rétt konungs. Eg var í þeim flokki í þinginu, eða í því flokksbroti sjálfstæðisflokksins, sem feldi fyrverandi ráðherra, var í þeim flokki, þegar Hans Hátign konungurinn bað mig að takast á hendur þetta embætti; hitt er þýðingarlaust, þótt mér, fyrir einhverjar ókunnar sakir, hafi verið vikið úr flokknum á eftir. Frá Hans Hátign konungsins hlið er því útnefning mín fyllilega samkvæm þingræðislegum reglum, og verður ekki að því leyti talað um þingræðisbrot með neinum rétti.

Þá er næsta spurningin, hvort eg hafi ófyrirsynju og ólöglega tekið á móti embættinu, og vil eg þá þegar taka það fram, að eg ber einn ábyrgð á því, og verð að sæta afleiðingunum. Í því efni skal eg taka það fram, að eg hafði fulla ástæðu til að telja mér stuðning helmings allra þjóðkjörinna þingm. og allra hinna konungkjörnu þingm., alls 23 þingmanna. (Skúli Thoroddsen: Eg hafði skrifleg loforð meiri hluta þjóðkj. þingmanna). Mér er ókunnugt um það »dokument«, enda er hægt að orða slík skjöl þannig, að menn geti skrifað undir fyrir báða, og lofað hvorum tveggja stuðningi sínum. Þar að auki var því þannig varið, að tveir þingmenn að minsta kosti höfðu lýst því yfir, að þeir mundu styðja hvern þann ráðherra úr sínum flokki, er fengi konungsútnefningu, og þá einnig mig. Þetta, sem eg hefi haldið fram um mitt fylgi, er bygt á góðum heimildum og á nákvæmri athugun á afstöðu þingmanna, eins og hún var rétt um það leyti, er ráðherraskipunin var gerð. Hafi breyting orðið á síðan, þá er það mér bæði óvænt og ókunnugt, enda hefi eg enga ástæðu til að óttast eða ætla að svo sé. Eg staðhæfi, að enginn annar hér á þinginu hafi getað sýnt sama fylgi og eg. Og fylgi mitt var að öllu leyti ráðvandlega fengið. Eg staðhæfi, að Skúli Thoroddsen hafi einungis haft fylgi 7 þingmanna í flokksbrotinu, að honum sjálfum meðtöldum; svo voru 10 eða 12, er kalla má hlutlausa í þessu máli. Eg staðhæfi, að þessir 10 eða 12 hafi að eins lýst því yfir, að þeir skyldu láta Skúla Thoroddsen óáreittan, og eg gat einnig búist við, að þeir mundu láta mig óáreittan. Eg get ekki kannast við, að skýrsla Sk. Thoroddsen um fylgi hans sé rétt, enda tek eg það upp aftur, að fylgi mitt er vel fengið að öllu leyti. Það er hér talað um þingræðisbrot, en hvað er þá þingræði? Þingræði er það, að þingið, meiri hluti þess, eigi að ráða, en þegar talað er um meiri hluta alþingis, þá verður auðvitað að telja með hina konungkjörnu þingmenn. Þeir hafa sama rétt og sömu kröfu til þess, að þeirra vilji sé tekinn til greina, sem hinir þjóðkjörnu þingmenn, og engum dettur í hug að halda því fram, að atkvæði hinna konungkjörnu þingmanna sé eigi jafn gott og gilt og hinna þjóðkjörnu, þegar um lagasamþyktir er að ræða, og enginn getur efast um það, að þeirra atkvæði geti ekki, jafnt sem hinna þjóðkjörnu þingmanna, ráðið úrslitum málanna, og því skyldi þá ekki hin sama regla eiga við um þetta mál; en sé þetta rétt, sem eg tel vafalaust, þá leiðir af því það, að ef þessi tillaga verður samþykt hér í deildinni, þá krefst eg þess, að hún verði einnig borin upp í efri deild, og borin þar upp til atkvæða. Efri deild hefir fyllilega sama rétt til að greiða atkvæði um þetta mál og þessi deild, og eg mun eigi þykjast þurfa að taka gilda einhliða yfirlýsingu Nd. í þessu máli, og þar af leiðandi mun það ekki hafa þau áhrif á mig, sem til er ætlast, þótt þessi þingsályktunartillaga verði samþykt hér í deildinni í dag. En hvað ætla þá tillögumenn að gera, ef tillagan verður samþykt hér í deildinni? Ef eg fer úr embættinu, vil eg spyrja, hafa þeir þá nokkra von um að geta fengið annan ráðherra með meiri hluta í minn stað? Eg held að óhætt sé að segja: nei! — Flokkurinn gat ekki komið sér saman um neitt ráðherraefni, og vissan um, að flokknum mundi ekki takast það, knúði mig til að gefa kost á mér til að takast embættið á hendur; því að öðrum kosti hefðum vér orðið að sitja með þann ráðherra, sem meiri hluti þings hafði lýst vantrausti sínu á; og eg hefi enga trú á því, að atkv. þau, sem Skúli Thoroddsen reiknar sér, séu svo örugg, að þau mundu tryggja honum ráðherraembættið örugglegar en mér. Og hverju mætti þá búast við? Líklega enn öðrum »Ministerkrise«. Og ef eg sit nú eftir sem áður, hvað gera tillögumenn þá? Flutningsmenn tillögunnar skora á mig að segja af mér embættinu þegar í stað; en ef eg verð ekki við óskum þeirra og sit kyr, hvað ætlast þeir þá til að gert verði? Ætlast tillögumenn til, að eg rjúfi þing? Eða ætla þeir að halda áfram þingstörfum með mér eftir sem áður? Hefir nokkuð af þessu verið athugað? Eg held það ekki. Tillögunni hefir verið varpað fram nokkuð athugunarlaust. Hún virðist vera nokkuð ógætilegt frumhlaup, og ekkert annað. Nú er þegar hálfnaður þingtíminn, og engin mál eru enn afgreidd; vér höfum haft »Ministerkrise« í heilan mánuð, og ekkert hefir verið starfað til gagns; eigum vér nú að fá annan »Ministerkrise«, er standi yfir það sem eftir er þings; eg held að það sé ekki heppilegt fyrir land og lýð.

Háttv. flutnm. (Sk. Th.) tók það fram, að útnefning mín væri á móti vilja meiri hluta þjóðkjörinna þingmanna; um þetta skal eg taka það fram, að tveir af hinum þjóðkjörnu þingmönnum úr meirihlutanum höfðu lýst yfir því við mig, að þeir myndu styðja þann ráðherra úr meirihlutaflokknum, sem fengi konungsútnefning, og enn fleiri þingmenn úr meirihlutanum höfðu berlega sagt það við mig, að þeir mundu styðja mig, svo að eg þóttist og þykist enn örugglega geta talið mér stuðning vísan af hálfu 17 þjóðkjörinna þingmanna, og er það réttur helmingur þeirra. Enn mintist háttv. flutningsmaður á ráðherraábyrgðarlögin, og hélt því fram, að eg með því að taka á móti ráðherraembættinu hefði brotið gegn 1. og 4. gr. þessara laga; en þar til er því einu að svara, að eg mun einn taka á mig alla ábyrgð, er af því hlýtst, ef svo skyldi reynast, að eg hafi brotið gegn þessum lagafyrirmælum, — en því neita eg.

Þá sagði háttv. flutningsm. að hann ásamt formanni flokksins, síra Sigurði Stefánssyni, hefði komið til mín á sunnudaginn, og spurt mig um, hvort eg mundi ekki vilja tjá honum (flutnm.) fylgi mitt ef hann yrði ráðherra, og kvaðst hann þá hafa haft fylgi 20 þjóðkjörinna þingmanna, og hafi eg þá átt að svara, að eg mundi ekki leggja hálmstrá í veginn fyrir hann, eins og á stæði, ef hann yrði ráðherra. Eg verð nú að vísu að játa það, að eg þá þegar efaði, að rétt væri skýrt frá fylgi því, er hann tjáði sig hafa, enda get eg nú lýst yfir því, að eg hefi vissu fyrir, að sú saga var ekki rétt. Hitt er aftur á móti satt, að þegar flutningsm. kom til mín á sunnudaginn, þá lofaði eg honum því, að eg mundi ekki leggja stein í götu hans á þessu þingi, ef konungur skipaði hann ráðherra.

Ennfremur fann háttv. flutningsm. að því, að eg hefði ekki ráðfært mig við sjálfstæðisflokkinn, áður en eg símaði til konungs um að eg tæki að mér embættið. Þar til er því að svara, að þegar eg fékk skeytið frá konungi um að taka að mér embættið, stóðu umræður sem hæst í Ed. um bankamálið, mál, sem mér hefir verið og er hið mesta áhugamál — miklu meira en ráðherraembættið — sá eg mér því ekki fært að kalla menn saman á fund, enda áleit eg í rauninni slíks alls ekki þörf, eftir því sem á stóð.

En hins láðist háttv. flutningsm. að geta, að það virðist sem formaður flokksins hafi haft nægan tíma til að kalla saman flokksfund til að ræða útnefninguna, og fundi í efri deild, er þá stóð sem hæst, var frestað meir en 20 mínútur, til þess að þessi flokksfundur yrði haldinn; en eg fekk engin orð, og alls enga bendingu um, að það ætti að vera flokksfundur þá; honum var haldið algerlega leyndum fyrir mér, nema þegar þingmennirnir skutust inn í fundarherbergið og út úr því aftur.

Þá virtist mér nokkuð undarlegt, hvernig háttv. flutningsm. talaði um skipun hinna konungkjörnu þingmanna. Eg sé ekki ástæðu til að tala neitt um það mál nú, enda mun eg láta það mál afskiftalaust, þangað til almennar kosningar til alþingis eru um garð gengnar, sem búast má við að verði í haust. En hér liggur fiskur undir steini, hér hafa verið gerðir samningar og skuldbindingar gefnar af háttv. flutningsmanni um skipun hinna konungkjörnu þingmanna næst, og gefur það mér tilefni til þess, að taka það fram nú þegar, að eg hefi enga samninga gert, hvorki viðvíkjandi hinum konungkjörnu né öðru.

Það lítur út fyrir, að háttv. flutningsmaður hafi misskilið þau ummæli mín hér í deildinni nú fyrir fáum dögum, er eg sagði, að eg vildi vinna að því að efla frið og ró í landinu á þann hátt, að eg mundi ekki skifta mér að neinu leyti af stórpólitík, sem svo er kölluð; það hefi eg aldrei sagt, að eg myndi ekki gera. Hinsvegar hefi eg ástæðu til að halda, að mér muni takast að skapa frið og ró í landinu. Eg hefi aldrei verið ákafur flokksmaður, og þessvegna ekki tekið neinn þátt í hinum áköfu og æstu flokksdeilum, er hafa átt sér stað nú um tíma meðal þjóðar vorrar, og þótt háttv. flutningsm. vilji halda því fram, að útnefning mín í ráðherraembættið muni hleypa öllu í bál og brand, þá eru slíkt staðlaus ummæli, og órökstuddir spádómar, enda hefir ekki enn borið á neinni óánægju eða ófriði eða æsingi í blöðum þeim, er eg hefi séð, nema Ísafold, og hvernig á eg að bera ábyrgð á því, þótt blað fyrv. stjórnar sé farið að úthverfast, enda mundi það blað hafa snúist móti hverjum, sem tekið hefði að sér stjórntaumana.

Þá hefir mér verið brigslað um valdagræðgi; því mótmæli eg algerlega, að eg eigi það brigzl skilið, og eg get lýst því yfir, að mér hefir áður staðið til boða að verða ráðherra, stóð það til boða á síðasta þingi, en hafnaði því þá; hefi ekki ætlað mér að yfirgefa það embætti, sem eg hefi verið í; en hefi nú eins og eg hefi áður tekið fram, tekið að mér þetta embætti, einungis til að skirra vandræðum, og koma þinginu og þjóðinni út úr ógöngum þeim, sem hún sýnilega var komin í, og þessvegna var það, að eg hikaði ekki við að hlýðnast konungsboðinu.

Þá þykist eg hafa svarað háttv. flutningsmanni að mestu eða nægilega, og skal eg þá næst minnast á það, að hér er komin fram rökstudd dagskrá svohljóðandi:

»Þingdeildin telur ekki rétt að nokkur sé skipaður í ráðherrasess, ef hann hefir ekki stuðning meiri hluta þjóðkjörinna þingmanna, nema að ekki sé annars kostur, svo að í bili þurfi að skipa mann til að veita umboðsmálunum forstöðu. En í því trausti að núverandi ráðherra framfylgi stjórnarskrárbreytingu á þessu þingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá.«

Eg hefi ekki mikið um þessa tillögu að segja, en vil þó taka það fram, að eg er ekki sammála fyrsta lið hennar. Þó get eg fyrir mitt leyti látið mér lynda tillöguna, og því get eg lýst yfir, að eg muni framfylgja stjórnarskrárbreytingarfrumvarpi á þessu þingi. Tillöguna get eg þá skoðað svo sem traustsyfirlýsingu til mín.

Að lokum vil eg biðja þingið að hafa það hugfast, að það var einungis af þeirri einni ástæðu, að eg tók að mér þetta embætti, að eg vildi reyna, ef unt væri, að koma á friði og ró í landinu, því er sannarlega ekki vanþörf á, eftir allan þann æsing og óróa og gauragang, er átt hefir sér stað á síðustu tímum.