18.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 828 í B-deild Alþingistíðinda. (1179)

95. mál, vantraust á Kristján háyfirdómara Jónsson

Jón Ólafsson:

Herra forseti! Þegar eg fyrst sá þessa vantraustsyfirlýsingu, þá gat eg ekki gert að því, að spyrja sjálfan mig: »Hefir hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) ekki getað fengið neinn mann í öllu þinginu til þess að vera framsm. þessarar tillögu nema sjálfan sig?«. Því þetta mál er honum svo skylt, að hann hefði sízt átt að vera flutnm. þessarar tillögu, sem hér liggur fyrir. Hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir sýnt, að hann yfir höfuð er haldinn af mjög slæmri ráðherrakveisu, og það hefir nú komið í ljós, að hún er illkynjaðri en eg hafði búist við. Það hefði verið annað mál, hefði hann haft sterkan meiri hluta með sér í þinginu. En hér er ekki því að heilsa; hvort sem hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefði orðið ráðherra eða sá, sem varð það, þá var að eins um bráðabirgðarstjórn að ræða. Það var fyrirsjáanlegt, að sá, sem yrði ráðherra, mundi að eins verða það stuttan tíma. Þetta hefir hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) skilið fullvel, að hér væri að eins um fárra mánaða ráðherravöld að tala. Hvorugur þeirra, er um var að ræða, hafði fylgi nema lítils minnihluta, þótt hvor um sig hafi líklega haft vissu fyrir, að sér yrði ekki steypt á þessu þingi.

Eg var að blaða hér í einni kvæðabókinni okkar og þar rakst eg á þessa vísu. Með leyfi hins hæstv. forseta vil eg hafa hana yfir:

Eiríkur í suðrið sér

segir: „hættum glensi“;

bitann tók frá munni mér

meinvætturinn Bensi.

Það er þannig með þetta mál; það er ekki verið að keppa um annað en bita »Meinvætturinn Bensi« tók bitann frá munninum á mér«, segir hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) nú. Og er það ljóst af því, hversu mikið kapp hann hefir lagt á þetta mál, að honum hefir verið kappsmál um bitann.

Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) er mikill stjórnmálamaður, hefir sjálfsagt ýmsar hugsjónir í stórmálum, sem hann vill koma fram. Því væri skiljanlegt, að hann vildi vera ráðherra, ef hann hefði öruggan meiri hluta til fylgis. En nú er það ekki, og því er óskiljanlegt, að hann skuli ekki geyma þetta kapp eftir ráðherrastöðunni, þangað til hann nær þeim meiri hluta, sem einn getur gefið honum magn til að koma nokkru fram. Honum var það fullkunnugt, að hér var að eins um bráðabirgðarstjórn að ræða.

Mér finst það dálítið undarlegt, að einmitt hinn háttv. þm. N.-Ísf.

(Sk Th.) skuli á fundi, sem haldinn var hér í bænum nýlega, hafa lagt hinum núverandi ráðherra það til lasts, að hann styddist við atkvæði heimastjórnarmanna og þeirra konungkjörnu, og svipað segir hann í »Þjóðviljanum«. Háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) talar nú svo sem hann hefði aldrei viljað styðjast við fylgi hinna konungkjörnu og heimastjórnarmanna. Eg vil nú leyfa mér að bera brigður á þetta. Hinn háttv. þm. hefir nú alveg gleymt því, að hann var sjálfur á dögunum að vekja bónorð við heimastjórnarflokkinn, og í þeim flokki eru 5 konungkjörnir þingmenn. Eg vil með leyfi hins hæstv. forseta leyfa mér að lesa hér upp í deildinni bréf. Þetta bréf er biðilsbréf þess manns, sem vill gera það sem á dönsku er kallað »Fornuftsparti«. Biðillinn segir við stúlkuna: »Eg elska þig ekki, en mig langar í eigur þínar. Eins og á stendur, þá finst mér vera reynandi hjá okkur að taka saman; ef til vill semur okkur ekki, en þá getum við síðar skilið«.

Þetta biðilsbréf hljóðar svona:

»Þar sem 9 þingmenn úr þeim hluta sjálfstæðisflokksins, er vantraustsyfirlýsingunni voru samþykkir, hafa á fundi í gærkveldi fyrir sitt leyti, óskað að benda á mig sem ráðherraefni — 2 eru á hinn bóginn háyfirdómara Kr. Jónssyni fylgjandi — og þar sem hinn hluti sjálfstæðisflokksins hefir á fundi kl. 2—3 e. h. í gær með 11 atkvæðum gegn 2 — einn greiddi ekki atkv. — lýst því yfir, að hann léti ráðherravalið afskiftalaust og tjáði sig hvorki með né móti neinu ákveðnu ráðherraefni, hefir mér hugkvæmst, að rétt væri að spyrjast fyrir um, hvort heimastjórnarflokkurinn — ef til kæmi — mundi vilja sjá mig í friði til loka yfirstandandi þings, þ. e. eigi fylgja vantraustsyfirlýsingu, þótt fram kæmi, sem reyndar má telja nær óhugsandi, þar sem sjálfstæðisflokkurinn er órofinn flokkur.

Alþingi 6. marz 1911.

Skúli Thoroddsen.

Til

þingmanna Heimastjórnarflokksins, Alþingi.«

Þetta biðilsbréf er ljós vottur þess, í fyrsta lagi, að háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hafði ekki það fylgi, sem hann gæti treyst; og í öðru lagi vottur þess, að honum var fullljóst sjálfum, að hér átti aðeins að tjalda til einnar nætur. Það er auðsætt, að búist er við að leita atkvæðis þjóðarinnar eftir á. Og þá fer kappið, sem hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir lagt á að verða ráðherra, að verða óskiljanlegt. Því það er alstaðar viðurkent, að þar, sem ráðherra er skipaður, til þess að fara með völd um stundarsakir — það sem Danir kalla »Forretningsminister« — þá getur hann engar stórbyltingar gert. Sá ráðherra fæst að eins við óhjákvæmileg mál og smámál og gegnir stjórnarstörfum þangað til leitað hefir verið atkvæða þjóðarinnar og hún fengið tækifæri til þess að skera úr. Mér verður þessvegna óskiljanlegt, að háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) skuli sækja þetta svona fast, eftir að konunginum hefir þóknast að kveðja annan mann til ráðherra, því það er auðsætt, að háttv. þm. N. Ísf. (Sk. Th.) hefir ekki traust nema 9 þingmanna auk sjálfs síns. Hinir úr hans flokki lofa að »sparka« honum ekki, svo eg brúki þinglegt orð, sem oft heyrist þessa dagana. En það er ekki fylgi, þótt einhver segi, að hann skuli ekki amast við manni.

Sá kostur er fyrir þjóðina í ráðherravali konungs nú, að það verður heldur enginn eftirlaunakostnaður af nýju ráðherraútnefningunni. Hann mun halda fyrra embætti sínu óveittu meðan hann er ráðherra.

Það hefir verið sagt hér í deildinni í dag, að enginn ætti að takast ráðherraembættið á hendur, nema hann hefði fylgi meiri hluta þingmanna. Þetta játa allir. En ef enginn hefir meiri hluta í þinginu, á þá að vera ráðherralaust? Einhver verður þó að gegna ráðherrastörfum og fara með stjórnarstörfin og rjúfa þingið.

Svo hefir verið talað um, að ráðherrann ætti að hafa meiri hluta þjóðkjörinna þingmanna með sér. Hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hafði þó í hyggju að styðjast við fylgi hinna konungkjörnu og heimastjórnarmanna. Eg fyrir mitt leyti held ekki upp á konungskosning þingmanna. Eg hefi fyrstur á þingi 1887 flutt frumvarp um afnám konungkjörinna þingmanna. En meðan þeir eru, þá hafa þeir sama rétt og þjóðkjörnir þingmenn. Enda vita allir, að atkvæði eru talin en ekki vegin. Hér í deildinni getum við nefnt 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og 1. þm. Eyf. (H. H). Það er 1 atkv. hvoru megin. Og ef við í efri deild nefnum 2. þm. K.G. (J. P.) og 5. kgkj. (L. H. B.) Þá er það líka 1 atkvæði hvoru megin. Atkvæði þessara þingmanna gilda jafnt, af því einu, að þau eru talin, en ekki vegin.

Mér virtist háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) leggja mikla áherzlu á skeyti, sem sent hefði verið konungi og þar sem tekið hefði verið fram, að enginn annar en hann sjálfur gæti vænst fylgis sjálfstæðisflokksins sem ráðherra. En er það nauðsynlegt, að sá sem er ráðherra hafi traust meiri hluta sjálfstæðisflokksins? Það er þó ekki sama, meiri hluti alþingis og meiri hluti sjálfstæðisflokksins.

Hinn háttv. þm. Dal. (B. J.) heldur því fram, að núverandi ráðherra hafi ekki fylgi helmings þingmanna, af því 21 þm. hafi heitið þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) fylgi sínu og hlutleysi. Ráðherra hefir talið sér fylgi 21—23 þingmanna. Af þessu heldur háttv. þm. Dal. (B. J.) að þingmenn séu 44. Eg hafði séð þessu haldið fram áður í einu ógáfuðu blaði, en eg hélt háttv. þm. Dal. (B. J.) væri svo gáfaður, að hann geti skilið þetta, því að það getur vel samrýmst. Það eru ýmsir menn, sem hafa traust til beggja þessara manna eða vilja við hvorugum amast. Því hafa báðir haft jafnan rétt til að telja sér þá. Eg hefi lesið nöfn þeirra, sem voru háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) fylgjandi. Einn þeirra hefir sagt við mig, að hann vildi hvorugum velta, ef hann styddist við meiri hluta. Annar hefir sagt, hann vildi heldur núverandi ráðherra en þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), en hann mundi hvorugum velta.

Það er og órökstudd fullyrðing, að núverandi ráðherra hafi ekki stuðning af meiri hluta alþingis, enda mun atkvæðagreiðslan skera úr þeirri þrætu. En ekki er atkvæðagreiðslan í þessari deild einhlít, því að þótt 13 atkv. hér í deildinni yrðu á móti ráðherra, þá er þar með ekkert sagt um, hvorum megin meiri hluti alþingis er, því að 13 eru ekki nema tæpur þriðji hluti af 40. Nei, ef það verður ofan á, að meiri hluti þessarar deildar sé ráðherra móthverfur, þá verður einnig að reyna atkvæðagreiðslu í Ed., þá tekur fyrst af tvímælin um þingstyrk ráðherra. — Annars verð eg að segja það, að mér finst barist hér um heldur lítið, eg skil ekki ákafa sumra manna eftir að hreppa þetta hnoss, ráðherraembættið. Eg hélt að háttv. þm. N.-Ísaf. (Sk. Th.), sem sjálfur segist finna hjá sér köllun til mikilla framkvæmda, væri svo gáfaður maður, að hann skildi, að honum væri happadrýgst að bíða til næstu kosninga. Ef svo tækist til, að hann, eða flokkur hans, ynni kosningasigur, þá ætti hann verkefni fyrir höndum, þá gæfist honum tækifæri til þess að koma áhugamálum sínum í framkvæmd.