05.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 842 í B-deild Alþingistíðinda. (1184)

162. mál, símskeytarannsókn

Skúli Thoroddsen:

Það eru nokkur orð út af ræðu háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.). Hann sagði, eins og rétt var, að það væri algengt, að konungur kallaði þingmenn á fund sinn, við stjórnarskifti, til þess að leita hjá þeim upplýsinga um ástandið. Þetta er mikið rétt, en þar sem háttv. þm. sagði, að þingið gæti als ekki krafist sagna, að því er það snerti, er konungi og þm. færi í milli, þá álít eg þau orð hans bæði röng og blekkjandi. Það er vitanlegt, að það er réttur hvers þings, í hvaða máli sem er, einkum jafn mikilsverðu og þessu að heimta allan sannleikann leiddan í ljós. Þess vegna hafa bæði aðrar þjóðir í grundvallarlögum sínum og við í okkar stjórnarskrá ákvæði, sem heimila þinginu að heimta bæði munnlegar og skriflegar skýrslur af mönnum og öll gögn, er að málinu lúta til þess að komast að því rétta. Þetta veit háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) ósköp vel og ummæli hans eru því ekkert annað en blekkingartilraun til þess að fóðra það, hve nauðugt honum er að skeyti hans til konungs komi fram í dagsbirtuna. Eins og háttv. þm. N.-Þing. (B. Sv.) gat um, var nýlega haldinn privatfundur meðal þingmanna, vegna þess að forseta höfðu borist kröfur frá einstaka mönnum viðvíkjandi símskeytasendingum til konungs, sem ættu að borgast af landsfé. Forseta þótti sem von var nokkuð viðurhlutamikið að skrifa undir ávísanirnar, án þess þingmönnum gæfist kostur á að sjá, hvað símað væri. Þegar því var hreyft á þessum privatfundi, að þeim, sem kröfu gerðu til þess, að skeytin yrðu borguð af landsfé, bæri að sýna þingmönnum innihaldið, þá brást háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) reiður við og hljóp burt af fundi í fússi. Það er ekki til neins fyrir háttv. þm. að þræta fyrir þetta. Vitnin eru milli 30 og 40. H. þm. fór mörgum orðum um það, að hann hefði ekkert það símað, sem allir mættu ekki sjá, en í sömu andránni sýnir hann hinn mesta hita og leggur hið mesta kapp á, að skeytin verði ekki birt. Þetta virðist nokkuð undarlegt, en annars skal eg ekki dæma um, hvað háttv. þm. hefir símað. Þar sem háttv. þm gat þess, ,að símastjóri væri ekki skyldur að afhenda væntanlegri rannsóknarnefnd skeyti þau, er send hefðu verið, þá er það ekki rétt. Að vísu hefir símastjóri þagnarskyldu, en hana er skylt að rjúfa þegar nefnd er skipuð eftir 22. grein stjórnarskrárinnar, eins og t. d. bankar eru skyldir að þegja yfir inneign manna en verða að skýra frá því, þegar slík nefnd er skipuð. Sama hlýtur að gilda um símastjórann, en það er svo sem auðséð, hvert stefnt er. H. 1. þm. Eyf. (H. H.) er góðkunningi símastjórans og ætlar líklega að benda honum á að láta ekkert í ljósi, fyr en dómur er fallinn fyrir því. Það er ósköp hægur vegur til þess að dylja það, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) vill ekki, þrátt fyrir öll sín digurmæli, að komi fram í dagsbirtuna. Eg hélt annars, ef hann hefði svona góða samvizku, að honum ætti að vera það kært, þá yrði öllum dylgjum lokið og þó einhverjar misfellur væru á, þá yrði blöðum hans líklega ekki skotaskuld úr því að leiða alþýðu manna í allan sannleika. Eg get ekki séð annað en fyllsta ástæða sé til þess að skipa þessa nefnd. Hvernig störf hennar fara, er ekki gott að segja. Takist háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) að fá símastjóra til þess að trássast, er hætt við að lítið verði úr störfunum.

Eg skal svo ekki eyða frekari orðum í þetta, en tek undir það með háttv. þm.

N. Þing. (B. Sv.) að eg lagði sama skilning í till. og hann, að hún næði líka til fráfarandi ráðherra. Annars mun eg greiða breyt.till. atkv. til þess að forðast allan misskilning, þó að hún í sjálfu sér sé óþörf.