05.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 849 í B-deild Alþingistíðinda. (1190)

162. mál, símskeytarannsókn

Hannes Hafstein:

Ummæli þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um að eg og heimastjórnarflokkurinn hafi beitt óheiðarlegri aðferð við ráðherraskiftin, hefi eg þegar, um leið og hann kom fram með þau, brennimerkt með þeim verðskulduðu orðum, að ummælin væru ærulaus lýgi. Eg endurtek þetta aftur. Það er ærulaus lýgi hjá þingmanni Norður-Ísfirðinga. Hann verður að sætta sig við, að stinga hjá sér þessum orðum. Einasta afsökun hans er það, að hann er svo afskaplega reiður og aumur út af því, að honum skyldi enn þá einu sinni mishepnast að troða sér upp í ráðherrasætið, að hann getur ekki stjórnað sér. Hann er altaf að leita að ástæðu fyrir þessari miklu slysni sinni, eins og þeim hættir til, er hrakför fara. Stundum kemst hann að þeirri niðurstöðu, að þetta sé honum sjálfum að kenna að einhverju leyti, og þá er hann daufur í dálkinn og niðurlútur, eins og menn oft hafa séð hann þarna í horninu á þingsalnum. En stundum rífur hann sig upp í að kenna öðrum um þetta ólán sitt, og þá er hann strax hressari, en ákaflega reiður. Þetta er síðasti fjörkippurinn í honum sem tilvonandi ráðherra. Það brennur sí og æ í honum, að hann sé maðurinn, sem hefði átt að setjast í ráðherrasessinn, og við höfum heyrt það af hans eigin munni hér í þingsalnum, að það hefði verið ólán, ekki einungis fyrir þetta land, heldur einnig fyrir Norðurlönd öll og fleiri lönd, að hann skyldi ekki komast að með þær miklu fyrirætlanir, sem hann læst búa yfir, og alla sína miklu hæfileika. Aðfarir hans gagnvart núverandi ráðherra, og tilraunirnar til að troða hann undir og sjálfum sér fram, eru öllum þingmönnum í fersku minni, og verði einhverntíma rituð saga þessa þings, þá mun framkoma hans verða metin að verðleikum.

Það er ekki nýtt hjá honum, að vilja skella skuldinni á mig fyrir ófarir sínar. Hann hefir lengi sýnt mér þann sóma, og um margra ára bil hefi eg orðið þessa var, að þegar eitthvað hefir gengið honum á móti, eða hann rekur sig á einhverja fyrirstöðu, þá segir hann: »Nú hefir Hannes Hafstein spilt fyrir mér«. Þetta hefir komið fram jafnvel þar sem sízt skyldi vænta þess, og stundum mjög kátbroslega; en eg hefi aldrei gert manninum neitt. Þetta er eins og einhver sérstakur sjúkdómur hjá honum, sem hann ræður ekki við. Mikið mun það þó hin síðari árin hafa ágerst við öfundina yfir því, að eg var skipaður í það embætti, sem hann svo mjög girntist. Eg get ekki annað en brosað að honum, og virt honum til vorkunnar þessa einkennilegu »monomani« gagnvart mér. En skeytin mín finn eg enga ástæðu til að sýna honum, þótt deildarforsetarnir sjái þau. Hann hefir ekkert að sýsla með það, að ávísa kostnaðinum við skeytasendingar. Hann á sjálfur undir deildaforsetunum, hvort þeir vilja ávísa af landssjóði kostnaðinum við langa skeytið hans, og önnur meðmælaskeyti hans með sjálfum sér sem ráðherraefni. Eg er viss um, að deildaforsetarnir láta sömu lög ganga yfir mig, eins og aðra, að því er snertir skeytakostnað minn, og með það er eg ánægður. Kostnaðurinn er heldur ekki svo mikill, að hann geri mér frá eða til.