20.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (1195)

1. mál, stjórnarskrá Íslands

Flutningsmaður (Jón Þorkelsson):

Þess skal að upphafi getið, að háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) ranghermdi orð mín. Eg sagði, að síðasta alþingi hefði ekki unnist tími til að afgreiða stjórnarskrárfrv. það, sem þá lá fyrir; annað sagði eg ekki, og lítur út fyrir að hinn háttv. þm. sé orðinn heyrnardaufur, eins og mér heyrist hann vera orðinn nokkuð hás.

Eg verð fastlega að halda því fram, að frumv. sé að fullu löglega fram bor­ið samkv. 26. gr. þingskapanna, því að fyrirsögnin felur í sér, að hér sé um stjórnskipunarlög að ræða. Annars hafa forsetar litið ýmsum augum á slíkt; að vísu var frumv. um afnám hæstaréttar eitt sinn vísað frá hér á þingi vegna þess, að í fyrirsögninni var ekki nefnd breyting á stjórnarskránni; en á öðru þingi síðar var frumv. sama efnis þó tekið fyrir sem einföld lög, — þá var Þórarinn Böðvarsson forseti. Menn ættu því ekki að vera að finna sér slíkt til, því að hér er engin hætta á ferðum.

Hinn háttv. þm. má segja hvað sem hann vill um tilgang okkar flutningsm., en hann hefir verið sá einn, að taka sem flestar óskir til greina og hafa all­ar kröfur sem fyllstar; nefnd sú, er skipuð verður í málið og alþingi ræður svo sínum gerðum, hvernig um málið fer. — Háttv. þm. var eitthvað að minn­ast á hreystiverk minnihlutans og frv. það til stjórnarskrárbreytingar, sem þeir ætla að koma fram með og hefir inni að halda ýmist eitthvað af hinum sömu ákvæðum, sem finnast í frumv. okkar, eða þá einskisverðar kákbreytingar. Þeir um það. Við höfum viljað hafa allar kröfur afdráttarlausar í okkar frumv., af því að þykist Danir hafa rétt til að skapa einir fyrirkomulag sambandsins, eins og þeir gerðu með stöðulögunum, þá höfum vér Íslendingar eigi síður rétt til að gera þau ákvæði um sambandið upp á eigin eindæmi af vorri hendi, sem oss þykir hlýða. Fer vel á, að slík ákvæði komist inn í stjórnarskrána, en allir samningar við Dani annars kostar geta verið viðsjárverðir. Það varðar miklu, að vilji vor komi fram skýrt og ljóst einmitt í sambandi við stjórnarskrána, og þeirrar skoðunar voru menn á síðasta þingi, er sambandslagafrumv. meirihlutans var samþykt.

Þetta frumvarp er ekki frumv. til nýrra sambandslaga og því ekki rétt að kalla það svo, þó að í því sé atriði, sem snerta samband vort við Dani. Slík atriði sýnast eðlilega eiga heima í stjórnarskrá landsins, og aðalatriðið fyrir okk­ur var það, að frumv. þetta héldi í stórum dráttum allar sjálfstæðiskröfur vorar, og kemur það því fram sem yfirlýsing um, að við viljum fá þessar rétt­arkröfur uppfyltar, sem oss eru bráðnauðsynlegar og réttmætar. Það er auðvitað á valdi þingsins að samþykkja það af því, sem það nú sér sér fært, eða fella það niður. Annars er óþarft að fara fleiri orðum um mál þetta að svo stöddu, þar eð það mun koma í nefnd.