04.04.1911
Efri deild: 27. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 19 í B-deild Alþingistíðinda. (12)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Eiríkur Briem:

Háttv. framsögumaður tók það fram, að nefndin hefði ekki getað aðhylst breytingartiliögurnar við 4. og 6. lið.

Hvað 4. liðinn snertir, þá segir þar, að einn skuli vera skoðunarmaður í sýslu hverri; en í þingsályktunartillögunni, að þeir megi ekki vera fleiri en þrír. Eftir tillögunni mega þeir og vera það með samþykki Búnaðarfélags Íslands. Þetta þykir hálfundarlegt fyrirkomulag; og mér þykir það líka óþarfa skriffinska, að þurfa endilega að sækja samþykki Búnaðarfélags Íslands til útnefningar þessara skoðunarmanna. Eg verð að líta svo á að stundum geti verið nauðsynlegt að hafa fleiri en einn skoðunarmann, hvað sem líður samræminu, sem hv. 6. konungkj. talaði um. Og væri nú t. d. einhverra orsaka vegna bráð þörf á, að fá skýrslu frá þessum mönnum um jarðabætur eða mat þeirra, gæti stundum orðið nokkuð örðugt að fá þær.

En aðalatriðið er sem sagt það, að þurfa endilega að skrifa gegnum búnaðarsambandið til Búnaðarfélags Íslands; það þykir mér alt of vafningasamt. Um 6. liðinn hefi eg það að segja, að stundum hafa búnaðarsamböndin orðið til — eg vil segja einungis til þess að fá fé úr landssjóðnum.