09.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (120)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Steingrímur Jónsson:

Eg bjóst við því, að einhver, sem á hér breytingartillögur, mundi taka fyrst til máls. Það er ekki svo að skilja, að eg ætli að tala mikið um þær breytingartillögur, sem hér liggja fyrir. Það hefi eg gert áður í Efri deild. En eg ætla að leyfa mér að benda á nokkur atriði í fjárlögunum.

Tekjuhallinn er nú áætlaður 399,167,34. Hann er hér um bil nákvæmlega jafn mikill og sá tekjuhalli var áætlaður, sem mest var um rætt og mest þótti um vert, sem sé tekjuhallinn á fjárlögunum á þinginu 1903. Ef þær breytingartillögur, sem hér liggja fyrir, verða allar samþyktar þá verða þetta að því leyti þau merkilegustu fjárlög, sem samþykt hafa verið af þinginu, að tekjuhallinn er meiri en nokkru sinni fyr. En eins og eg hefi áður bent á, er tekjuáætlunin alt of óvarleg. Það er einkum áfengistollurinn, sem er áætlaður of hátt, 100—120 þús. kr. of hátt. Ef þetta er nú borið saman við fjárlögin 1903, þá er auðsætt að tekjuhallinn er miklu meiri en þá. Þá var það tízka að telja tekjurnar of lágar heldur en hitt. Tekjuhallinn er því nú í raun réttri rúm hálf miljón, og hér við bætist svo fjáraukalögin með 107 þús. kr. útgjalda viðbót. Eg hefi ekki talið saman, hve breytingar þær, sem hér liggja fyrir, fara fram á mikinn útgjaldaauka, en eg hygg, að það nemi 50 þús. kr. Mér finst, að þetta hljóti að vera öllum þingmönnum áhyggjuefni, og eg hygg, að þeir hafi gott af að athuga þetta, áður en gengið er til atkvæða.

Þá skal eg leyfa mér að minnast á, nokkrar breytingartillögur, sem fram hafa komið. Verður þá fyrst fyrir mér breytingartillaga á þingskjali 959, þar sem lagt er til að veita til vita á Bjargtöngum 14 þús. kr. Að minni hyggju væri í sjálfu sér ekki ofmikið fé veitt til vita, þótt þetta fé væri veitt, því að það væri ekki veitt meira til þeirra fyrir því en það, sem ætla má, að vitagjaldið gefi af sér. En þetta mál er alveg óundirbúið. Yfirumsjónarmaður vitanna hefir ekki komið þar og hann veit ekki, hvernig hagar til á þessum stað. Það hefir hann sagt mér sjálfur. Hann hyggur, að það sé ekki ástæða til að reisa stóran vita á þessum stað. Hann heldur, að lítið leiðarljós muni nægja. Hann hyggur, að það hefði átt að reisa þennan stóra vita á Öndverðarnesi.

Þá er hér breytingartillaga á þgsk. 963 um hækkun á tillagi til Keflavíkurvegarins úr 5000 kr. upp í 7500 kr. Eg skil ekki, hvaða ástæða er til að veita þetta fé. Eg hefi aflað mér nákvæmrar vitneskjn um, hvar vegagerð þessari er nú komið. Það er búið að leggja af honum rúmar 26 rastir, sem hafa kostað rúmar 75 þús. kr. Það er eftir að gera 14 rastir. Af fé, sem áður er veitt til hans, er óeytt tæpum 16 þús. kr. Ef nú hér við bætast 30 þús. kr., verður þetta dýrasti vegur landsins. Ef þingið veitir þetta fé, verður það til uppörvunar eyðslusemi og óskynsemi í þessu efni. Eg skal geta þess, að sýslan hefir áður greitt meira en helming kostnaðarins. En það er samt alls ekki svo að skilja, að sýslan eigi nokkra kröfu á hendur landsjóði fyrir það. Eg skal taka það fram, að þótt fjárveiting þessi verði samþykt, þá hefir stjórnin samt enga heimild til þess að veita meira en til móts við það, sem sýslan leggur til. Eg get ekki skilið annað en 20 þúsund krónur nægi til að fullgera þennan veg.

Þá er Blönduósskólinn. Eg álít, að sá styrkur, sem Efri-deild hefir veitt til hans, sé fullríflegur, bæði þegar þess er gætt, hve lítill skólinn er, og eins hins, hverja þýðing hann hefir fyrir landið. Ef þingið felst á br.till. á þingsk. 967, vildi eg mælast til, að br.till. á þskj. 973 yrði samþykt. Ef Blönduósskólinn á að fá 5500 kr., verður sýslan að minsta kosti að leggja fram ¼ á móts við það, eða sú upphæð verður að koma til skólans annarstaðar að. Það er rangt að bera þetta saman við Reykjavíkurskóla, því að bæði er hann miklu stærri og hefir meiri þýðingu fyrir landið í heild sinni. Þegar talað er um upphæð annarstaðar að, þá er ekki átt við það, að þetta fé þurfi að greiða úr sýslusjóði. Það mætti ná nokkru af því inn með því móti, að efnuðustu námsmeyjar greiddu kenslugjald.

Háttv. 1. þm. Húnv. tók mér það óstint upp við umræðurnar um fjáraukalögin um daginn, að eg sagði, að þessi skóli væri sýsluskóli. Honum hefði verið vorkunnarlaust að skilja, hvað eg átti við með því. Þessi skóli var bygður af Húnvetningum einum í trássi við landsstjórnina og án samkomulags við aðra Norðlendinga. Þeir einir hafa haft umsjón með honum. Þeir einir ráða honum á alla vegu. Þó að einstöku stúlka hafi slæðst í skólann annarsstaðar að en úr Húnavatnssýslu, þá er hann aðallega sýsluskóli. Háttv. 1. þm. Húnv. (Hálfd. G.) var í þessu sambandi með dylgjur í minn garð, að eg hefði farið með óáreiðanlegar tölur í loftskeytamálinu. Þessu verð eg að mótmæla og tel það ómaklega mælt í minn garð.

Þá er hér br.till. á þskj. 970, sem eg vildi minnast á. Hún fer fram á að fella burt athugasemdina um, að styrkurinn til Hvammstangavegarins sé bundinn því skilyrði, að jafnmikið tillag sé veitt til hans annarstaðar að. Eg álít þessa vegagerð í sjálfu sér gagnlega. En Efri-deild getur ekki verið því hlynt, að ekkert sé lagt til hans annarstaðar að; þegar landssjóður hefir veitt fé til sýsluvega, hefir það hingað til verið bundið því skilyrði, að helmingur kostnaðar að minsta kosti sé lagður fram annarstaðar að. Það er, ef eg má komast svo að orði, „lífsspursmál“ fyrir landssjóð, að það sé ekki vikið frá þessari reglu og með því móti haldið inn á nýja braut. Það má vel vera að þetta komi of hart niður á einstökum mönnum. En það stafar þá af því, að þeir hafa reist sér hurðarás um öxl og hafa ekki það fylgi í héraði sínu, sem gerði það réttmætt, að þeir réðust í þessi eða þvílík fyrirtæki.