25.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 863 í B-deild Alþingistíðinda. (1206)

17. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Þorkelsson:

Það er hart, að þagað sé við svo merku frumvarpi, sem þetta er. Háttv. flutningsmenn voru líka kurteisari en svo á dögunum við stjórnarskrárfrumvarp það, sem við komum með, háttv. þm. Dal. (B. J.) og eg. Eg vil því leyfa mér, með leyfi hæstv. forseta og annara góðra manna, að drepa lauslega á sitt af hverju á víð og dreif, sem mér þykir einna merkilegast við frumv. þetta.

Það er vert að athuga strax í upphafinu, að í frumv. þessu er gengið þurrum fótum fram hjá því, sem á þingmálafundum hefir verið talið aðalatriði, sem sé því, að ef nokkuð setti að fara að krukka í stjórnarskrána, þá ætti að kippa burt tilvitnuninni til stöðulaganna. Eins og frv. liggur nú fyrir, þá er það tilgangur háttv. flutningsmanna, að færa breytingarnar inn í núgildandi texta stjórnarskrárinnar og gera úr stjórnarskránni þannig breyttri einn »codex« eða »codification«. Það er því sýnt, að þessir herrar vilja halda oss fast við stöðulögin. Margt er hér og fleira eftirtekt­arvert. Sumt er hinsvegar sameiginlegt með þessu frumv. og frumv. okkar þm. Dalamanna, t. d. er ríkisráðsákvæðinu kipt burt, en aftur vantar hér fast ákvæði um tölu ráðherranna. Við vildum að hún væri stödd föst í stjórnarskránni sjálfri, vildum að það atriði stæði á steini, svo að ekki sé hægt að hrúga á þjóðina hve mörgum ráðherrum sem er, með einföldum lögum.

Annars skal eg nú fara sem fæstum orðum um þau atriði, sem kunna að geta orð­ið samningsatriði milli háttv. flutningsm. og mín og þm. Dalamanna, en það get­ur tilvitnunin í stöðulögin ekki orðið.

Eftir núgildandi stjórnarskrá eru þeir menn einir kjörgengir til alþingis, er dvalið hafa síðustu 5 ár í þeim löndum í Norðurálfunni, sem liggja undir veldi Danakonungs. Þetta hefir nú mörgum þótt innlimunarmerki, og í þessu frv. er því enn haldið á þann hátt, að kjörgengi er bundið við það, að menn hafi verið heimilisfastir 2 síðustu ár í veldi Danakonungs, í »hinu samsafnaða danska ríki«, og er þetta atriði ekki neitt samningamál. Okkur þykir þurfa að miða kjörgengi við Ísland, og gerðum við ráð fyrir að skorða það við tveggja ára búsetu á Íslandi.

Þá er það, að þetta frv. gerir aðeins ráð fyrir því, að breyta megi fyrirkomu­lagi þjóðkirkjunnar — evangelisk-lútersku — með lögum, en vildum hafa það í stj.skr., að fyrirkomulagi kirkjunn­ar skuli skipað með lögum. En þetta mætti nú heldur verða samningaatriði.

Þá skal eg, með leyfi hæstv. forseta, leyfa mér að lesa eina stutta grein, sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir; að bætt verði inn í stjórnarskrána. Hún hljóðar svo:

»Konungur getur með samþykki alþingis kært menn fyrir landsdómi fyrir þesskonar glæpi, er honum virð­ast einkar háskalegir fyrir Ísland«. Mér er nú spurn: Hvert stefnir þetta? Það mun þó ekki hér ver­ið að gera ráð fyrir því, að þingið kunni einhvern tíma að verða svo skipað, að á þennan hátt mætti bæla það niður, að hér á landi geti komið upp og haldist við pólitískar hreyfingar, sem þyki fara heldur langt ? (Nokkrir þm.: T. d. skiln­aður). Já. (Jón Ólafsson: Það stend­ur: pólitíska glæpi). Jú, það getur hugsast, að einhverju sinni verði sá meiri hluti í þinginu, er álíti skilnaðarstefn­una vera það. Eg geri engum neinar getsakir. Eg spyr eingöngu, hvert þetta stefnir, og eg heimta skýringu á því, því að þessu þarf að gefa rækilega gaum.

Eitt hafa háttv. flutn.m. ekki þorað að taka eftir okkur, og það er að losa okkur við krossaglingrið. Þeim hefir nú ef til vill þótt það hégómamál, en það hefir þó stundum reynst handhægt að beita eða jafnvel misbeita þess háttar tildri; vildum við því lögbanna allan þann óþarfa. Það er skamt á að minn­ast síðan ausið var yfir landið steypiflóði af krossum og titlum. (Hannes Hafstein: Fékk þingmaðurinn ekkert?) — Við þm. Dal. (B. J.) höfum ekki borið okkur eftir því, og viljum nú taka fyrir alla von þar um bæði okkur og öðrum til handa.

Eitt er það enn, sem varla getur vel verið samningsatriði, en það eru orðin: »hin sérstaklegu« málefni Íslands. Þau mega í rauninni ekki sjást. Það er óbeinlínis viðurkenning á »sameiginleg­um« málum.

Á einum stað í frv. lítur svo út sem ætlast sé til að yfirheyra eigi kjósendur í pólitík, líklega helzt við kjörborðið, svona líkt og fermingarbörn. Ef binda ætti kosningarrétt manna við einhver þekkingarskilyrði, svo sem að vita aðalundirstöðuatriðin um stjórnarfar lands­ins, þá sýnist það helzt eiga við að hafa tilsögn um það í alþýðufræðslunni í landinu, í barnaskólum og alþýðuskólum.

Eg skal svo ekki fjölyrða meira að sinni um þetta frumvarp, en vil »slá því föstu«, að þar kennir of mjög innlimunaranda þess, sem verið hefir í fleiru úr þeirri áttinni.