23.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 878 í B-deild Alþingistíðinda. (1214)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögumaður (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Mér dettur ekki í hug að svara þessum ómerku ómagaorðum frá þessu hornhljóði, en skýt því til allra meðnefndarmanna minna, hvort nefndarálitið hafi ekki verið prentað, eins og það var samþykt í nefndinni.

Þessi þinggaur og skrípatrúður, sem aldrei hefir getað gefið út eina einustu bók, svo nokkurt lag hafi verið á, er ekki fær að dæma um þetta.

Þó eg gerði uppkast að nefndarálitinu, þá er það þó verk okkar allra nefndarmanna, því að það var lesið upp orð fyrir orð og vendilega yfir það farið á nefndarfundi, og öll niðrunaryrði um nefndarálitið falla á alla nefndina. Og nefndarálitið þolir vel að vera gagnskoðað af skynbærum mönnum. En það verður ekki með sanni sagt um verk dragsúgsmannsins þarna í horninu. (Jón Þorkelsson: Þetta er haugalýgi).