29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 879 í B-deild Alþingistíðinda. (1219)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögum. meiri hl. (Jón Ólafsson):

Herra forseti! Eg verð að biðja háttv. deild afsökunar á því, þó að eg hafi ekki sett mig inn í allan þann aragrúa af breytingartillögum, sem komið hafa við þetta frumvarp, því að sumar þeirra eru jafnvel á þessu augnabliki að drífa inn í deildina, og eg verð að mælast til vorkunnsemi, þótt eg taki þær ekki í sömu röð og þær eiga sam­an, en eftir því, hvenær þær hafa komið mér fyrir augu.

Hvað frumv. sjálft snertir, þá er þar eins og gerð er grein fyrir í nefndarálitinu og eg mintist á við 1. umr. máls­ins aðallega farið fram á þær breyting­ar, sem vissa er fengin fyrir, að þjóðin hefir sérstaklega æskt eftir. Eg hefi líka í öndverðu gert grein fyrir því, af hverju við höfum lagt fyrir þingið frumv. til breytingar á stjórnarskránni, en ekki nýja stjórnarskrá, því að ef svo hefði verið, þá hefðum við ekki komist hjá því að taka upp í 1. gr. ákvæði, sem snertu stöðu Íslands í sérmálunum. En þar eru þær greinir í, sem víst er, að eigi er auðið að fá staðfestar breytingar á, ef alþingi ætlaði að fara að raska þeirri stöðu, án þess að það væri borið undir ríkisþingið danska. Háttv. minni hluti hefir samt komið með breyt.till., sem snertir 1. gr. Raunar forðast þeir að nefna stöðulögin, en eg er nú hræddur um, að meiri hlutinn, sem ekkert minn­ist á 1. gr. hafi forðast Scyllu, en minni hlutinn hafi aftur á móti ekki komist hjá Karybdis. Þeir telja upp sömu sérmálin og stöðulögin, og ef alþingi samþykkir þessa breyt.till. þeirra, þá hefir það viðurkent stöðulögin, ef ekki í orði þá á borði, þ. e. þá umgerð um málasvið okkar, sem stöðulögin hafa smíðað. Þetta höfum við ógert látið, til þess að þurfa ekki að viðurkenna þessi ummerki stöðulaganna. Við höfum breytt því einu, sem nauðsyn var að breyta, og breytt varð, án þess að viðurkenna stöðulögin, eða þá lenda í bág við þau, svo að öll endurskoðunin yrði ónýt. Alt það, sem þau snertir, látum vér ósnert.

Háttv. minni hluti vill víst ekki held­ur viðurkenna stöðulögin, en hefir ekki komist hjá því. Við viljum því ráða háttv. deild til þess að láta 1. gr. ósnerta, og sneiða þannig hjá þessu skeri.

Fyrsta breytingin, sem fyrir verður, er sú, að ráðherrar skuli vera 3 í stað 1, sem nú er. Í frumvarpi því, sem við háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) bárum fram, var að eins ákveðið, að ráðherrum mætti fjölga með einföldum lögum, en meiri hluti nefndarinnar vildi hafa tölu ráðherra fastákveðna í stjórnarskránni og vildi hafa fleiri en 1 ráðherra. Var því talan 3 ákveðin. Með því er líka hjá því komist, að ráðherrum sé fækkað eða fjölgað án stjórnarskrárbreytingar. Það er margt, sem mælir með því, að hafa fleiri en 1 ráðherra. Enginn einn maður er svo alhliða, að hann sé jafnfær um að hafa með höndum, svo vel fari, öll þau störf, sem á honum hvíla, og það því meir, sem fram líða stundir, og verkin verða margvíslegri. Líka vildum við setja undir þann leka, að sé að eins einn ráðherra, og til þess valinn ógætinn maður, þá er hætt við, að hann geri ýms frumhlaup, sem þing og þjóð er óánægð með. Reynsla síðustu ára ætti að vera mönnum nægileg kenning í þessu efni. En séu ráðherrar 3, er ekki eins hætt við þessu, því að þeir mættu á ráðherrastefnum og ræddu þar málin, og sé einn of framhleypinn, hvatvís eða óprúttinn, þá taka hinir í taumana. Fjölgun ráðherra hefir og það gott í för með sér, að meiri líkur eru fyrir, að málin verði vendilegar íhuguð. Einnig er það stór kostur, að ábyrgðartilfinn­ingin skerpist, og mun þjóðina ekki iðra þessarar breytingar. Enn má þess geta, að hér sem víðar virðist vera að reka að því, að flokkum fjölgi, og að enginn einn flokkur fái stundum meirihluta á þingi. Þá er hagkvæmt að geta mynd­að samsteypuráðaneyti, t. d. af tveim flokkum.

Þá getur og til borið, að einn af ráðherrum missi traust þings, en hinir eigi, og þarf þá eigi að verða alger breyting, þótt einn fari frá.

Hér er ákveðið, að landssjóður borgi laun ráðherra, en um eftirlaun þeirra er ekkert ákveðið. Það er gert í því skyni, að stjórnarskráin bindi eigi svo, að eftirlaun þeirra megi ekki afnema með lögum.

4. gr. stendur óbreytt frá því, sem nú er, en nefndin hefir bætt við hana því ákvæði, að engum embættismanni megi víkja frá embætti, fyr en hann hefir átt kost á að verja mál sitt fyrir dómstól­unum. Þetta er réttlætis- og sanngirniskrafa, sem eg vona að enginn hafi á móti.

Þá er enn eitt mikilsvarðandi ákvæði um afnám konungskosninga til alþingis. Á alþingi, eg held 1886 eða 1887, bar eg fram stjórnarskrárbreyting þess efnis, svo að hreyfingin er orðin nokkuð gömul, þótt málið hafi ei enn náð fram að ganga. Nú er áhuginn á afnámi konungskosninga orðinn svo sterk­ur með þjóðinni, að lengur verður ekki rönd við reist, enda dálítið öðru máli að gegna síðan við fengum þingræðis­stjórn. Áður var Íslandsráðherra skip­aður án tillits til vilja alþingis. Hann var danskur, vanalega dómsmálaráðherra og Íslandsráðherra um leið í hjáverkum, tók við völdum og fór frá, eftir því hvernig flokkaskiftingum í ríkisþinginu var farið. Meðan svo stóð á, var meiri ástæða til þess að hafa konungkjörna þingmenn, svo að stjórnin ætti altaf einhver viss atkvæði á þingi. En nú er þessi ástæða fallin burt, síðan við fengum þingræðisstjórn. Annars eru þessir konungkjörnu þingmenn leyfar frá ráðgjafarþingunum. Þegar þau voru stofn­uð, voru Íslendingar orðnir óvanir þingsetum og búist var við, að fremur lítið væri um þinghæfa menn og skyldi því stjórnin kveðja til þingsetu nokkra mentaða og þinghæfa menn. Nú er hér orðin breyting á. Nú eru þjóðkjörn­ir þingmenn jafn þinghæfir og hinir kon­ungkjörnu, þinghæfum mönnum hefir fjölgað og fjölgar óðum. Þingræðisstjórn­in gerir og konungskosningar óeðlilegar og ranglátar. Þær verða einungis til þess, að stjórnin geti aukið fylgi sitt fram yfir það, sem eðlilegt er, eða ef fráfarandi stjórn, sem fylgt hefir annari stjórnmálastefnu, hefir skipað þá; þá geta þeir orðið þröskuldur í vegi hinnar nýju stjórnar. Nefndin hefir því einróma lagt til, að konungskosningar verði afnumdar, en þegar til þess kom, hvað setja skyldi í staðinn og bæta upp íhald, sem konungkjörnir þingmenn ávalt hafa átt að vera, skildust leiðir. Það er skoðun meiri hluta nefndarinnar, og eg vona alls þingsins, að nauðsynlegt sé fyrir hverja þjóð að hafa eitthvað stöðvandi afl, hvorki of veikt né heldur þó of sterkt, til þess að skoðanir, sem hafa náð festu hjá þjóðinni, fái ekki framgang — en nógu sterkt til þess, að hver straumur, sem getur vegna æsinga og undirróðurs gripið þjóðina í svip, nái ekki heldur stöðvunarlaust að grípa alt þingið undir eins. Það er óneitanlegt, að slíkt hefir komið fyrir hjá oss fremur en öðrum þjóðum. Vér erum viðvaningar í þingstjórn. Það er stutt síðan vér fórum að stjórna oss sjálfir; það getur ekki talist lengra en frá 1904. Alt til þess tíma var meiri hlutanum af gerðum þingsins hafnað, og þar með vorum vér sviftir fullri ábyrgðartilfinning. Sjálfstjórn feng­um vér ekki fyr en vér fengum ráðherrann í landið og þar með trygt þingræði. Úr því að vér erum svo skamt á veg komnir, að vér megum teljast börn í að stjórna oss, þá er þeim mun meiri nauðsyn að setja skorður við því, að hver æsingaalda, sem veltur yfir landið, grípi oss ekki stöðvunarlaust með sér. Það er engin þjóð, sem sæmi­lega er stjórnað, — eg tel ekki með hálfviltar þjóðir suður á Balkansskaga ­er ekki hafi eitthvert stöðvunarafl, einhvern hemil í sínu þingi.

Frá háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) er kom­in breyt.till., sem nokkur bót er í, en því miður ekki nægileg. Hann vill færa upp aldurstakmarkið til kjörgengis í Ed. Tryggingin fyrir góðu þingi er sú, að kjósendur séu hæfir að kjósa. Ef þeir hafa ekki vit á því, þá eru öll höft á kjörgengi gagnslaus.

Í frumv. er lagt til, að til neðri deild­ar sé kosið til 6 ára, en til efri deildar með hlutfallskosningum til 12 ára, og sé landið alt eitt kjördæmi, ? Ed. gangi úr eftir 4 ár. Þannig geta ? verið úr gengnir eftir 8 ár og öll deildin verið endurnýjuð að 12 árum liðnum. Það er dálítið íhaldsafl fólgið í þessu, en ekki er það mikið. Ef mjög sterkur meiri hluti nær yfirvöldum í landinu getur deildarskipunin raskast eftir 4, en ef allföst flokkaskifting er í landinu, mun sjaldnast þurfa að gera ráð fyrir, að deildin raskist stórvægið fyr en eftir 8 ár. Tilgangurinn með þessu ákvæði er að hefta það, að fljóthugsað mál nái að komast gegnum þingið eftir skamm­an umhugsunartíma. Það er satt, að með þessu íhaldi geta mál tafist í 4 ár. En vér lítum svo á, að ef ekki er eingöngu um augnabliksuppþot að ræða, þá sé breytingin viss að komast að eftir 4 ár eða í síðasta lagi 8. Þetta ákvæði getur því eigi verið meinsamur þrösk­uldur fyrir þeim málum, sem öflugt fylgi hafa hjá þjóðinni.

Eg þykist vita, að mörgum muni rísa hugur við 10. gr. frumvarpsins. Hún fer fram á að veita öllum körlum og konum, sem eru 21 árs að aldri, kosn­ingarrétt og nemur burtu þetta 4 kr. gjald til sveitarþarfa, sem áður hefir verið skilyrði fyrir kosningarrétti. Eg er því hlyntur, að konur fái jafnrétti á við karlmenn. Því að þótt gáfnafari og lundarfari sé ólíkt farið og konur skorti oftast dómgreind á við karlmenn, þá bæta konur það upp með öðrum kost­um. Siðgæðistilfinning kvenna er meiri en karla og þær láta síður leiðast af eigingjörnum hvötum. Þetta vegur því upp hvað annað. Konur hafa eðlilegan rétt á borð við karla. Þær greiða gjöld jafnt þeim og ættu þær að fá að ráða hvernig gjöldunum er varið. Þetta hefir orðið ofan á í nefndinni. Mér fyrir mitt leyti ægir að veita aukinn kosningarrétt í svo rífum mæli, hvort sem er körlum eða konum. Eg kysi heldur að gera það smám saman, og get að því leyti fallist á tillögur háttv. samþingismanns míns (J. J.), því fremur sem eg hefi heyrt það á mörgum konum, að slík tilhögun væri að þeirra áliti holl og góð. Eg veit ekki, hvort háttv. flutnm. till. (J. J.) hefir allar hinar sömu ástæður fyrir þessu sem eg, eða jafnframt aðrar, og mun það koma í ljós, er hann gerir grein fyrir tillögunni. Hjá mér er ástæðan sú, að með þessum fresti sé konum gefin hvöt til að búa sig undir að beita þessum rétti sínum, og að eg vil síður kasta svona mörgum nýjum atkvæðum á markaðinn í einu.

Eg þarf ekki að minnast sérstaklega á 12. gr., sem er ný grein og eðlileg afleiðing af því, að deildirnar eru kosn­ar hvor í sínu lagi. Það liggur í hlut­arins eðli, að ef þingmaður í Ed. deyr eða forfallast, þarf að vera til taks vara­þingmaður af sama flokki eða lista.

Í 16. gr. frumvarpsins eru ákvæði um, að sameinað alþingi kjósi 3 yfirskoðunarmenn landsreikninganna með hlutfallskosningum, í stað þess sem nú eru þeir kosnir 2, hvor í sinni deild, með einföldum meiri hluta. Nú eru þeir kosnir úr stjórnarflokknum, og er tiltölulega lítið gagn að því. Það er mót­stöðuflokkurinn, sem hefir opin augun fyrir fjármálameðferð stjórnarinnar, og er því rétt að gefa mótstöðuflokkinum færi á að velja 1 mann, ef hann er svo sterkur. Enn fremur er yfirskoðunarmönnum í sömu grein veitt heimild til að sjá reikninga og bækur gjaldkera landsjóðs og stjórnarráðsins um yfirstandanda ár. Er það gert til þess, að þeir gefi eftirmönnum sínum bendingu um þetta. Þetta er aðhald fyrir stjórn­ina og mun hún fremur með þessu ákvæði gæta sín að fara ekki út fyrir lögin með fjárveitingar aðrar en þær, sem vissa er um, að fáist samþyktar eftir á. Sömuleiðis, að stjórnin gerði ekki neinar óráðlegar ráðstafanir, sem þjóðin væri dulin.

17. gr. frumv. kveður svo á, að hvor deild um sig skeri úr því, hvort þingmenn hennar séu löglega kosnir. Þetta er eðlileg afleiðing af því, að hér er nánast að ræða um 2 þing, þótt saman komi í sameinuðu þingi.

18. gr. frumv. fer fram á það, að breyta megi með einföldum lögum því ákvæði 45. gr. stj.skr., að hin evangeliska-lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi. Öllum er það kunnugt, að sterk hreyfing er uppi hér á landi í þá átt að skilja ríki og kirkju. Sú hugsun, sem lá til grundvallar fyrir þessari tillögu, var sú, að á síðasta þingi var skorað á stjórnina í þingsályktun að undirbúa skilnað ríkis og kirkju. Því þótti henta betur, að breytingin gæti fram farið með einföldum lögum en með stjórnarskrárbreytingu.

19. gr. frumv. er um það, að menn séu eigi skyldir að greiða persónuleg gjöld til annarar guðsþjónustu en þeir aðhyllast sjálfir, og þeir, sem í engu trúfélagi eru, greiði til skóla þau gjöld, sem ella ættu að greiða til þjóðkirkj­unnar. Þetta varð ofan á hjá meiri hluta nefndarinnar. Það er sjálfsögð afleiðing af trúbragðafrelsi manna, að þeir séu eigi skattskyldir til nokkurrar guðsþjónustu, þeirrar er þeir vilja ekki þekkjast. Þetta er mannlegur réttur. En eg lít svo á, að það að leggja á menn, sem ekki eru í neinu viðurkendu kirkjufélagi, gjald til skóla um fram það, sem þeir ella greiða, sé hegning. Það virðist svo sem fylgismenn þjóðkirkjunnar séu hræddir um að hún hrynji, ef henni er ekki haldið uppi með fésektum. Þannig lít eg á málið. En þeir, sem halda fram þessu ákvæði, get eg búist við að færi þessi rök fyrir máli sínu. Ef menn eru undanþegnir öllu gjaldi til trúbragða og ekkert gjald lagt á menn í staðinn, þá er eins og sé verið að veita mönnum verðlaun fyrir að ganga úr þjóðkirkjunni. Á þessa lund munu þeir hugsa. Segi eg þetta vegna þess, að mér finst það skylda mín, að setja málið fram jafnt frá þeirra hlið sem vorri. En ef það er satt, sem vel má vera, að meðlimir kirkjunnar hangi saman á gjaldinu einu, þá vex eigi vegur kirkjunnar við það.

21. gr. frumv. er ný grein þess efnis, að ef alþingi samþykkir sambandsög, skuli þing rofið og nýjar kosningar fara fram. Ef sambandslögin eru síðan samþykt af hinu nýja þingi, skulu þau lögð fyrir konung til staðfesingar, að tilskildu samþykki löggjafarvalds Dana. Þetta ákvæði er sett til þess að aftra því, að menn hvatvíslega breyti eða geri sambandslög, heldur geti þjóðin með nýjum kosningum lagt dóm sinn á málið.

Ákvæðin um stundarsakir eru svo sjálfsögð, að eg þarf ekki að gera grein fyrir þeim.

Þá skal eg snúa mér að brtill. þeim, sem fram hafa komið, og tek eg þær eins og þær koma fyrir, því að mér hefir ekki verið hægt að fá yfirlit yfir þær vegna tímaleysis.

Er þá fyrst fyrir brt. frá oss þm. S.-Múl. þess efnis, að engi nema ráðh. hafi frumkvæði í fjármálum, og þar við komin brt. á þgskj. 312 frá háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) um að ráðherra og fjárlaganefndir deildanna hafi frumkvæðið. Þetta er mikið nýmæli og óheyrt hér á þingi áður. En samt er mikilsvert, að það geti komið til umræðu til að vekja þjóðina til umhugs­unar um málið. Þessari tillögu er svo farið, að ef hún gengur ekki fram í fyrsta sinn, þá er hún líkleg til að vinna fylgi smámsaman og sigra að lokum. Ráðherrann ber ábyrgð sinna gerða. Það er eðlilegt, að stjórnin segi til, hvers hún þurfi við til að geta stjórnað. Þjóðin er á engu eins sár og fé, sem eytt er til ónýtis. Það er hennar helgi réttur og brýna skylda. En þegar fé er varið til óþarfa, þá á þjóðin rétt til að vita, hver eigi að svara fyrir það, og því á eigi neinum að haldast uppi að bera upp fjárveitingu öðrum en þeim sem ábyrgðina ber. Páll heitinn Briem sagði eitt sinn: »Ef eitthvað fer aflaga í stjórn, er nauðsynlegt að hafa einhvern til að skamma fyrir það«. Þetta fyrirkomulag er með Bretum. Alla tíð síðan parlamentið var stofnað, hefir engum nema ráðherrum verið heimilt talið að gera tillögur um fjárveitingar.

Brtill. um nýjar fjárveitingar geta skift hundruðum. Nú eru þær þegar á annað hundrað, og verða óefað tvöfalt fleiri áður þessu þingi verður lokið. Eg tala nú ekki um meðan alt leggur saman, bæði fjárln. og einstakir þm. Þá geta þær orðið býsna margar. Hvað er þá eiginlega orðið eftir af fjárlögum stjórnarinnar, þegar meiri hl. þm. er búinn að gera þau svo ólík sjálfum sér með alls konar hrossakaupum, að munurinn getur skift hundruðum þúsunda? Og hver á að bera ábyrgðina á öllu þessu? Stjórnin getur ekki borið ábyrgð á öðru en sínu frumv., en hver á þá að bera ábyrgð á hinu? Og ef þjóðin verður nú óánægð, hvert á hún þá að snúa sér með ávítur fyrir þessar auknu fjárveitingar? Ekki til þessara 40 þm., því að sú ábyrgð, sem er svo dreifð, er sama sem engin ábyrgð. Ekki til flokkanna, því að í fjárveitingum gætir venjulega ekki mikið flokkaskiftingar. Þar renn­ur alt sundur og saman, og þarf ekki að lýsa því.

„Þar hlaupa þeir saman í hjónaband sem hundur og tík á svelli“.

Þess vegna er það till. okkar, að ráðherra einn megi koma fram með br.till. við fjárl., þær, er hafa í för með sér aukin útgjöld. Við þessa till. vora hefir svo háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) gert aðra br.till. þess efnis, að frumkvæði í fjárveitingum sé ekki leyft öðrum en ráðherra og fjárln. hvorrar deildar í heild sinni. Ekki þori eg nú að hengja mig upp á það, að ekki sé nein bót að þessu, en bágt á eg með að sjá vit í því. Afleiðingin verður sú, að allir koma með hreppapólitíkina í vasanum til fjárln. og fá sér þar flutningsmenn, og þar safnast fyrir heilir baggar af þessu. Þeim, sem þar sitja, er ant um að gera sínum flokksmönnum til hæfis, og alt lendir í hrossakaupum eftir sem áður; hver einstakur getur sagt nei, pólverskt »liberum veto«, og þá verður hver þm. pískaður af annara áhugamálum, ef hann á að koma nokkru fram af sínum.

Eg kemst ekki yfir það, að minnast á allar brtill., og læt mér því nægja hinar helztu. Um brtill. háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) um kosningarrétt kvenna hefi eg áður talað, og ætla ekki að minnast á það aftur.

Háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) á brtill. um tölu þm. og skiftingu þeirra í deild­ir. Vill hann að þeir verði 36 í stað 40, eða með öðrum orðum að þeim verði fækkað um 4, þegar kgkj. þm. er slept. Meiri hluti nefndarinnar hefir ekki get­að aðhylst þetta, og eg get það ekki fyrir mitt leyti. Á öllum þeim þingum, sem eg man eftir, hefir það viljað brenna við, að flestöll störf hafa hlaðist á örfáa starfhæfa menn, og annríki þessara manna, sem skipaðir eru í margar nefndir, tefur hvað mest þingtímann. Eg veit, að þessa kennir einnig í fjölskipaðri þingum, og að það er ekki svo mjög ámælisvert, því að ætíð hlýtur að vera misjafn sauður í mörgu fé. En þegar svo er, þá tjáir ekki að klípa af starfskröftunum. Það veitir ekki af þeim eins og er, og því betur verður með málin farið sem þm. eru fleiri. Skifting hans í deildirnar er ekki ann­að en bein afleiðing af fækkuninni, svo að eg þarf ekki að tala frekar um hana.

Þá er brtill. á þgskj. 283 frá sama háttv. þm., sem eg verð að segja bæði fyrir mig og fleiri, að mér líkar ekki. Og eg óska að háttv. deild geri sér það ljóst, hvað það er, sem hér er farið fram á, sem sé það, að ef ekki færri en 4 þús. kjósendur óska þess, þá á að bera öll ný lög undir þjóðaratkvæði, nema fjárlög. Mér vitanlega tíðkast þetta hvergi nema í Sviss og einhverjum af Ástralíufylkjunum, ef til vill, mér er það ekki svo kunnugt. Eg reikna ekki fyrirmyndarlandið(!) Finnland, því að þar hefir þetta nú litla þýðingu. Og þar sem þetta hefir verið reynt, hefir það gefist illa. Eg las hérna í vikunni 2 ritgerðir eftir tvo merka stjórnmálamenn í Vesturheimi, sem tala um »referendum«, og segja, að þegar stjórnarskrá Bandamanna var samin, þá hafi það verið viturlega ráðið, að kveða niður þann draug. Það væri banatilræði við alla sanna þjóðstjórn í löndum, þar sem alþýða kýs sér fulltrúa. Og eg verð líka að segja það, hvort sem mönnum líkar það betur eða ver, að allir þeir tugir þúsunda, sem eru kjósendur, hafa ekki vit á þingmálum. Hitt er alt annað, að kunna að velja skynsama menn, sem þeir þekkja og bera traust til fyrir sína hönd. Og þótt þetta eigi sér stað í Sviss, þá er þess að gæta, að þar stendur alveg sérstaklega á, þar sem hvert »Kanton« er svo örlítið um sig og því svo létt að ná saman. Í sumum fylkjunum er jafnvel ekkert þing, heldur koma allir borgararnir saman á einn stað og þinga, alveg eins og í grísku borgfélögunum í fornöld. En þetta á nú ekki við annarstaðar, og sízt í strjálbygðu og víðáttumiklu landi. Menn geta hugsað sér, ef »referendum« ætti að vera um öll lög, sem vér samþykkjum hér, hver tök hávaði kjósenda mundi hafa á því að kynna sér þau til hlítar, og hvert skyn allur fjöldi þeirra beri á þau. Þeir yrðu ekki annað en atkvæðastórgripir, sem einstakir menn teymdu. Þetta væri blátt áfram að kasta löggjöfinni úr skynbærra manna höndum í hendur óvita, því að eitt er það að velja menn til þess að gefa sér lög, en annað að dæma um lög, sem þingið samþykkir. Eg hygg því, að þetta væri háskalegt fyrir hið sanna þjóðfrelsi. Þetta yrði til bana öllu þingræði og sönnu þjóðræði, en til að skapa skrílræði og flónræði. Eg sé að hér hafa verið sett tímatakmörk fyrir þessu á þgskj. 297, það á að fara fram innan þriggja mánaða. Halda menn nú að það gengi létt, að fá 4 þús. — ekki til að skrifa eða ljá í blindni nöfn sín undir áskoranir um málskot, það yrði lafhægt — heldur 4 þús. kjósendur til þess að sjá og lesa lögin, kynna sér málin og afla sér þekkingar, að þeir vissu betur en þingmenn? Hitt, að safna liði, það má ætíð á stuttum tíma, ef nógu ötulir menn eiga í hlut, en það yrði ekki til bóta festu í löggjöf eða frelsi í landinu, heldur hið gagnstæða.

Brtill. þeirra háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og háttv. þm. Dal. (B. J.) eru svo lang­ar og margvíslegar, að eg get ekki farið til muna út í þær hér. Þær hvíla, að minsta kosti framan af í frv. á þeim mismun á skoðunum, að þeir hyggjast geta orðað 1. gr. án þess að viðurkenna gildi stöðulaganna. Það held eg að alþingi geti ekki. Annars hefi eg talað um það áður, og vil ekki endurtaka það. Það eru að eins fá atriði í brtill. þeirra, sem eg vildi drepa á, t. d. 3. brtill. við 2. gr., að framan við 4. gr. á þgskj. 328 komi ákvæði um það, að engan megi skipa í embætti, nema Ís­lendinga, eða þá, er öðlast hafi þegnréttindi hér samkvæmt íslenzkum lög­um. Eg ætla nú hvorki að lofa þetta né lasta í sjálfu sér, en vil að eins benda á það, að með þessu er búinn til nýr fæðingjaréttur og fráskilinn fæðingjarétti Danaveldis. Og menn verða að gæta þess, að þetta er svo mikil röskun á því, sem kölluð hafa verið lög, að það er eitt ærið nóg til þess, að lögum þessum verður undir eins synjað staðfestingar. Engin von, heldur beinhart nei, fyrir þetta eina atriði, þar sem farið er út af sérmálasviðinu. Og er nú þetta þess vert, að kasta frá sér öllum breytingum til bóta á stjórnarskránni fyrir þá ánægju, sem af þessu kann að verða í þinginu og úti um land? Eg held ekki, hversu mikið sem kynni að mæla með þessu í sjálfu sér.

Þá vilja þeir og hafa þingið óskift, eins og segja má að það sé nú, því að önnur deildin er eiginlega ekkert annað en nefnd, kosin af hinni deildinni, og á þetta auðvitað enn frekar við, þegar kgkj. þm. eru farnir. Þá virðist mér vera annaðhvort að gera, að hafa ekki nema eina deild, eða þá að hvor deildin sé bygð á sínum grundvelli. Eg veit ekki hvað þeir vilja tryggja sér með þessu fyrirkomulagi. Er það ekkert annað en það, að málin verði rædd 6 sinnum? Það mætti eins þótt þingið væri alveg óskift.

Ekki get eg látið vera að minnast dálítið á kosningarrétt og kjörgengi samkvæmt till. þeirra. Því er meðal annars haldið fram, að kosningarrétt og kjörgengi eigi allir gjaldþrota menn að hafa, einnig meðan bú þeirra eru til skiftameðferðar. Nú er það svo, að þeir öðlast þessi réttindi aftur, þegar er skiftin eru um garð gengin. (Bjarni Jónsson: En hvað gerir það þá til, þótt þeir hafi þau eins á meðan?). Það getur vel verið, að það geri oft ekki stórmikið til, en það má þá eins vel segja, að það geri ekkert til, þó að glæpamennirnir í tukthúsinu hefðu kosningarrétt, eða þá börnin í vöggunni. Það mætti alt af kjósa fyrir þau. Annars býst eg við því, að brtill. eins og þetta séu þess eðlis, að það megi spara sér að mæla á móti þeim. Eg held að hver þingmaður hafi eitthvað það í brjósti sínu og hugskoti, sem býður þeim að drepa slíkt.

Eg býst nú ekki við því, að eg hafi komist yfir það, að nefna nærri því allar brtill., sem hér liggja fyrir, enda munu ýmsar vera ókomnar ennþá, en eg vona, að mér hafi ekki sést yfir margar af hinum verulegri, og má þá athuga hinar síðar. Eg vil þá ekki lengur en í klukkutíma sitja í ljósi háttv. tillögumönnum, og læt þetta vera nóg að sinni.