29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 893 í B-deild Alþingistíðinda. (1220)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögum. minni hl. (Jón Þorkelsson):

Við höfðum, háttv. þm. Dal. (B. J.) og eg, leyft okkur að koma fram með frumv. til stjórnarskrár, sem fór miklu lengra en bæði meiri og minni hl. háttv. nefndar vildi fara. Með þessu var það ekki ætlun okkar, að reyna að standa í vegi fyrir nauðsynlegum stj.skr.breytingum á þessu þingi, heldur vild­um við sýna það, eins og okkur hafði verið á hendur falið af okkar flokki, að stefna hans í stjórnmálum og gagnvart Dönum væri enn hin sama, sem á síðasta þingi.

Það er nú margt í þessu frumvarpi okkar, sem háttv. nefnd hefir verið á einu máli um að fallast á, og sem ekki hefir verið hér upp talið, t. d. að ráðherrar skuli vera þrír. Ennfremur vil eg nefna ákvæðið um afnám eftirlauna, og í sambandi við það skal eg geta þess, að það er misgáningur, bæði í frv. og nefndarálitinu, þar sem þess er ekki get­ið, að 3. málsgr. í 4. gr. stjórnarskrárinnar eigi að falla burt, eins og eg tók fram við háttv. framsögumann meiri hl. við 1. umr. Ennfremur rýmkun kosningarréttarins, sem allir eru sammála um að einhverju leyti, og margt fleira. Meðal annars er ákvæðið um ríkiskirkjuna hér í landi, að skilja megi hana frá ríkinu með sérstökum lögum, þótt við hefðum nú reyndar álitið, að fyrirkomulagi kirkj­unnar skyldi skipa með lögum.

Það er eins fyrir mér og háttv. 2. þm. S.-Múl., (J. Ól.) að eg hefi ekki á stutt­um tíma getað áttað mig á öllum br.till. hér. Eg skal þessvegna aðallega halda mér við br.till. mínar og háttv. þm. Dal. (B. J.). Um þær er líka aðalágreining­urinn í nefndinni, og þá einkum 1. gr. Það var að vísu ásetningur hinna háttv. þm. S.-Múl. í upphafi, að gera úr garði allsherjar stjórnarskrárfrumv. En þeir hurfu frá því ráði, sökum vandkvæða, á því að orða 1. gr. þannig, að útflæmd yrði tilvitnunin til hinna svokölluðu stöðulaga og efninu þó haldið innan staddra endimarka. Það skal fyllilega viðurkent, að það er vandi að komast í kringum þessa tilvitnun svo vel á fari, en ekki skil eg í því, að það ætti að vera ókleift. Eins og menn vita, takmarkast stjórnarskráin af landamerkjum stöðulaganna, og því hefir áður verið hreyft á þingi, að komast mætti fram hjá þessu hvimleiða skeri með því, að telja upp þau mál, er stjórnarskráin tekur yfir. Og það hefir bæði mér og öðrum sýnst, að þetta sé ekki ófær vegur, ef ekki er farið út fyrir þau tak­mörk, sem þessi stöðulög setja stjórnarskránni. Vandhæfið liggur ekki í því, að orða þetta heldur undantekninguna, hæstarétt. Í stöðulögunum stendur svo, að fyrst um sinn skuli hæstiréttur Danmerkur ríkis hafa æðsta dómsvald í ísl. málum. Við höfum nú gert margar tilraunir til þess að koma þessu sæmilega fyrir, og fengið marga vitra menn til þess að aðstoða okkur, og niðurstaðan er nú orðin þessi. Eg skal geta þess, að í stjórnarskrárfrumvarpi Benedikts Sveinssonar fyrrum var svipað ákvæði um þetta, þótt það væri öðruvís orðað. Þar er ákvæði þessu skotið aftur fyrir. Nú höfum við orðað þetta svo, að hæsta­rétti Dana skuli falið æðsta dómsvald í framangreindum málum, unz önnur skip­un verður þar á gerð. Þeir, sem á eftir okkur koma, verða svo að gera út um það mál, og það er látið ósagt, hvenær það verði. Það virðist svo, sem þetta ákvæði haldi sig svo greinilega innan landamerkja stöðulaganna, að þar geti ekki skeikað, og erfitt verður mér að trúa því, að þetta ákvæði verði frv. til falls, því að hér er ekkert sagt, sem fari í bága við stöðulögin, ef þau eru annars svo friðhelg, að ekki megi hreyfa við þeim á þessu þingi.

Við höfum leyft okkur að prenta hér aftan við ummæli Kriegers ráðherra, þess er kom lögunum á 1870–1871, og svo mótmæli alþingis árið 1871 gegn gildi þeirra. Sjálfur játar Krieger, maðurinn sem kom lögunum í kring, að hér sé ekki um nein endanleg úrslit að ræða, enga endanlega samþykt í þessu máli, þar þurfi hinn málsaðilinn (alþingi) að koma til.

Nú hefir þessi hinn málsaðilinn (alþingi) aldrei samþykt stöðulögin, svo sem kunnugt er, heldur einmitt mótmælt þeim. Þau eru því alls ekki bindandi fyrir oss, hverju svo sem Danir kunna að vilja halda fram um það. Og um það atriði, að konungur muni ekki staðfesta stjórnarskrá þessa, ef nefnd stöðulagaákvæði yrði úr henni feld, þá er eg ekki hræddur við að hreyfa við 1. gr. stjórnarskrárinnar af þeim ástæðum.

Þá skal eg snúa mér að því, sem landsfólkið segir um þetta mál. Á 4 þingmálafundum, sem haldnir voru hér í Reykjavík, var samþykt í einu hljóði tillaga, sem borin var fram bæði af meirihlutanum og minnihlutanum, og orðuð af einum lögfræðing þessa bæjar, og fór sú tillaga fram á það, að jafnframt því, sem gerðar yrðu breytingar á stjórnarskránni, þá væri og afnumdar allar tilvitnanir í stöðulögin. Annar lagamaður, háttv. þm. Vestm. (J. M.) bar það og fram á þingmálafundi í sínu kjördæmi og fekk samþykta tillögu, er einnig fór fram á að nema burtu stöðulagaákvæðið úr stjórnarskránni. Þá var og enn samþykt á 2 fundum hjá háttv. þm. A.-Sk. (Þ. J.), þar sem fundurinn lýsir yfir því, að hann viðurkenni ekki stöðulögin sem réttargrundvöll stjórnarskipunar vorrar. Þá var ennfremur samþykt á þingmálafundum, sem haldnir voru af þm. Árnesinga að Tryggva­skála og Húsatóftum, tillaga, er »telur það öldungis ótækt að byggja á stöðulögunum«. Á fleiri þingmálafundum veit eg ekki til, að bornar hafi verið upp tillögur í þessa átt, en hefðu slíkar tillögur verið uppbornar á fleiri fundum, þá efast eg ekki um, að þær hefðu orðið samþyktar af öllum landslýð.

Enda þótt háttv. framsm. (J. Ól.) vildi hræða okkur frá því að koma með brtill. í þá átt að afnema tilvitnanina í stöðulögin, þá höfum við þó, eg og háttv. þm. Dal. (B. J.), komið einnig hér fram með breyt.till. við 2. gr. stjórnarskrárinnar, þar sem »hin sérstaklegu« málefni Íslands eru nefnd — því við lítum svo á, að það eigi ekki að sjást í stjórnarskrá þeirri, sem nú verður samþykt. Það bendir til viðurkenningar um einhver »sameiginleg« mál með Dönum.

Þá er þriðja breytingartill. okkar um það, að engan megi skipa embættismann á Íslandi annan en Íslending, nema hann hafi fæðingarrétt eftir þeim lögum, sem alþingi hefir sett og samþykt. Þessi breytingartill. hefir einnig orðið ágreiningsatriði, og hafa sumir helzt talið þess­ari breyt.till. það til foráttu, að hún gangi um of inn á svonefnt sambandslagasvið.

En þá vil eg spyrja, hver er það, sem ákveður sambandslagasviðið? Er það ríkisdagurinn í Danmörku eða alþingi Íslendinga?

Hverju hinir háttv. mótstöðumenn þessarar tillögu hér til svara, skal eg láta ósagt, en hinu verð eg að halda fast fram, að Íslendingar geti ekki viðurkent landamerki þau, sem danskt löggjafarvadd setur hér um, nema því aðeins að Íslendingar sjálfir löglega samþykki þau.

En um þetta atriði, sem menn kalla sambandsmálefni, hefir meiri hl. nefnd­arinnar viljað komast hjá að greiða atkvæði. Hvort atkvæðagreiðsla um það geti ef til vili verið heppileg eða ekki, skal eg láta ósagt, en hitt dylst víst fáum, að það að ganga þegjandi framhjá þessu atriði, er að loka augunum og látast ekki sjá hættuna.

Þá hefir orðið ágreiningur um það, á hvern hátt skipa skuli þinginu, hvort það skuli vera óskift eða tvískift, og á hvern hátt þá eigi að kjósa til efri deildar.

Okkur, mér og háttv. þm. Dal. (B. J.), finst þingið ekki svo umfangsmikið, að neina nauðsyn beri til þess að kjósa til þess á tvennan hátt, eins og háttv. meiri hluti nefndarinnar vill halda fram, að þörf sé á. Þvert á móti álítum við, að slíkt fyrirkomulag geti reist of rammar skorður fyrir framkvæmdum neðri deildar, og það getur þó ekki verið meiningin hjá andstæðingum okkar, að þeir með þessu fyrirkomulagi vilji setja þá stýflu fyrir framkvæmdir þessarar deildar, að hún ekki geti komið fram áhugamálum sínum, enda þótt þeir hljóti að viðurkenna, að neðri deild eigi mestu um þingsins málefni að ráða. Ekki væri það heldur eins dæmi þótt við hefðum þingið óskift, því þannig er það bæði í Finnlandi og Noregi. Þá þykir okkur kjörtíminn til efri deildar of langur — hann á sem sé að verða 12 ár; lengst­ur tími sem annars er tíðkanlegur í öðrum löndum er 8–9 ár, en nú sé eg, að háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hefir komið með breyt.till. um að kjörtíminn verði færður niður í 6 ár.

Þá skal eg leyfa mér að svara háttv. framsm. (J. Ól.) nokkrum orðum. Hann vildi amast við því, að menn, sem þiggja af sveit, fengju kosningarrétt. Eg skal ekki þrátta við hann um hæfileika þess­ara manna, en því verð eg að halda fram, að heiðarlegir sveitarómagar muni hafa eins mikla dómgreind um það að kjósa þingmenn eins og margir aðrir, sem ekki hafa ratað í þær raunir að verða þurfandi. Að öðru leyti mun þm. Dal. (B. J.) halda svörum uppi fyrir þessari tillögu, sem honum er sérstaklega áhugamál.

Þá vil eg minnast á það, að eg og háttv. þm. Dal. (B. J.) höfum komið með breyt.till. í þá átt að breyta núgildandi ákvæði, um að sá, sem hefir dvalið 5 ár í löndum Danakonungs í Norðurálfu, hafi kjörgengi hér á landi, að breyta því þannig, að til þess að öðlast kjörgengi hér verði hann að hafa verið heimilisfastur minst 2 síðustu árin á Íslandi. Okkur finst óeðlilegt að miða kjörgengi manna hér við það, hversu lengi þeir hafa dvalið t. d. í Færeyjum, Borgundarhólmi eða annarsstaðar í Danmörku, enda ekki meira heimtandi af þeim manni, sem vill verða hér þingmaður, en að hann hafi dvalið hér á landi svo lengi, að hann að minsta kosti hafi nokkura nasasjón af því, hvernig hér til hagar.

Þá eru ýmsar aðrar breyt.till., t. d. um nafnbætur og titla. Okkur þótti rétt að lofa því efni að koma undir atkvæði hér í deildinni, án þess þó að það væri meining okkar að svifta þá menn, sem slíka hluti hafa nú, því yndi og ánægju, að mega hengja þá á sig.

Þá er tillaga frá þingmönnum Skagfirðinga um þjóðaratkvæði (referendum), er geti náð til allra laga nema fjárlaganna. Þetta ákvæði álít eg mjög varhugavert, því það getur orðið til þess, að nytsömustu lög nái ekki fram að ganga. Hinsvegar finst mér sjálfsagður hlutur að leita þjóðaratkvæðis, þegar um sambandsbreytingu milli ríkjanna er að ræða, en að kasta t. d. lögum um aukna skatta, nýjar lántökur til arðvænlegra fyrirtækja fyrir almenning, álít eg varhugavert.

Þá er breyt.till. í þá átt, að enginn þm. megi koma með breyt.till. um hækkun liða í fjárlögunum, nema í sambandi við stjórnina og fjárlaganefnd. — Eg skal að vísu játa, að þetta fyrirkomulag getur haft kosti í för með sér, en hinsvegar getur fylgt því sú hætta, ef við harðsnúinn meiri hluta er að eiga, að minni hluti geti ekki komið nokkurri nytsamlegri fjárveitingu fram, en stjórn­in sjálf og fylgifiskar hennar geta ráð­ið öllum fjárveitingum. Þótt einstakir þingmenn bryddi upp á nytsamlegum fyrirtækjum, er hætt við að þeir fái litlu komið áleiðis, ef landstjórnin hefir ekki áttað sig á málinu eða af einhverjum ástæðum vill ekki sinna því. Ef til vill mætti hér finna heppilegan milliveg; gerhugull maður hefir, bent mér á, að gera mætti þingmönnum að skyldu að senda stjórninni uppástungur um fjárveitingar til umsagnar, gæti svo stjórn­in tekið afstöðu til þeirra. Á þann hátt ykist samvinnan milli þings og stjórnar. Þó sýnist mér það heldur ekki annmarkalaust.

Hér hefir komið fram tillaga frá h. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) um kosningarrétt kvenna. Eg vildi ekki setja mig á móti meiri hluta nefndarinnar um það mál, en felli mig þó öllu betur við till. þessa og hallast væntanlega að henni við atkvæðagreiðsluna.

Enn hefir komið fram till. frá háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) um að setja þekkingarskilyrði fyrir kosningarrétti. Till. þessi var rædd í nefndinni og þótti sumum hún varhugaverð og ekki eiga sem bezt heima í stjórnarskrárlögum. Ef slíku ákvæði væri harðneskjulega beitt, mætti vafalaust nota það til þess að svifta fjölda manns atkvæðisrétti. Hitt virðist sjálfsagt, að í skólum sé kend einhver slík námsgrein, en ákvæði um það ætti betur heima í fræðslulögunum eða reglugerð, en í stjórnarskrá.

Margar aðrar tillögur hafa komið fram, en eg hefi minst á flestar, sem nokkru máli skifta og við gátum ekki komið okkur saman um við meiri hl. nefndarinnar. Mun eg því ekki orðlengja frekar að sinni.