29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 942 í B-deild Alþingistíðinda. (1228)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Framsögumaður meiri hlutans (Jón Ólafsson):

* Herra forseti. Hinn háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) hélt því fram, að stundum væru samþykt svo góð lög á þingi, að háski væri að þau drægjust eitt ár og nefndi hann til dæmis lögin um greiðslu verkamannakaups í peningum. Satt er það, að það eru góð lög, en þó mundi landið hafa staðið, þótt þau hefðu dregist um eitt ár; enda er sá galli á þeim, að þau ná ekki tilgangi sínum sakir þess, að í þau vantar öll hegningarákvæði, svo að enginn þarf að hlýða þeim framar en hann vill. Nú eru mörg ár liðin síðan lög þessi voru samþykt og hefir hinn h. þm. þó ekki notað þann tíma til þess að bæta úr þessum galla. En ef til vill notar hann nú betur tímann til næsta þings, og væri það þarfara verk en að þvinga árlegum þingum upp á þjóðina.

Þá var hinn háttv. þm. óánægður með að setja mætti menn í gæzluvarðhald, nema þeir væru sakaðir um glæpi sem vörðuðu betrunarhússvinnu. Það var á honum að heyra að tilgangur gæzluvarðhalds væri sá einn, að fá menn til þess að játa, en tilgangurinn er engu síður sá, að hindra menn í að afmá spor glæpsins og bera sig saman við þá, sem meðsekir eru. Eg hefi ekki orðið þess var, að dómarar hér á landi hafi misbeitt valdi sínu að þessu leyti og auk þess eru til lög um bætur fyrir óverðskuldað gæzluvarðhald.

Þá er að minnast á þá brtill. hins háttv. þm., að ef frv. til sambandslaga er samþykt af alþingi, þá skuli stjórnin því að eins skyld að rjúfa þing, að hún vilji veita frv. fylgi sitt. Hann vitnaði um þetta til þeirrar reynslu, sem menn hefðu fengið á dögum »Benediktskunnar«; en þá gegndi öðru máli, þá var ekki þingræði í landinu. Ef ráðh. yrði nú í ósamræmi við meiri hluta þings um slíkt frv., þá yrði hann að víkja úr völdum. Það lítur annars út fyrir, að hinn háttv. þm. geri ráð fyrir svo slæmri samvinnu milli stjórnar og þings, að ráðh. láti þingið ekki vita um afstöðu sína til slíks máls. Eg man ekki betur en að hinn háttv. þm. væri óánægð­ur með að Björn Jónsson veik ekki úr völdum, þegar hann gat ekki komið þingfrestuninni fram samkvæmt vilja meiri hlutans.

Loks er að geta um það í ræðu hins háttv. þm., að ef ráðherrar yrðu 3, þá mætti fækka skrifstofustjórum, ráðherr­arnir gætu þá sjálfir verið skrifstofustjórar. Hinn háttv. þm. mun verða annarar skoðunar, þegar hann sjálfur verður ráðherra; hann mun þá sjá, að þetta væri slæmur sparnaður, enda er það alment viðurkent af stjórnvitrum mönnum, að hin mesta nauðsyn beri til, að stjórnarskrifstofunum sé stýrt af föstum embættismönnum, svo að trygg­ing fáist fyrir reglu og samhengi í stjórnarfarinu. Mill t. d. leggur hina mestu áherzlu á þetta.

Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) talaði margt um kvenfrelsismálið. Eg hefi áður lýst yfir því, að eg muni greiða atkv. með tillögu hans, en ástæður mínar í því máli eru aðrar en hans. Hann er mót­fallin kvenréttindunum, en eg er þeim fylgjandi. Hann vill veita kvenfólkinu nokkurn rétt, vegna þess að hann heldur, að árangurslaust muni verða að veita kvenréttindahreyfingunni mótspyrnu, en eg vil auka réttindi kvenna smátt og smátt, til þess að þeim gefist tækifæri til þess að þroskast og undirbúa sig undir hina pólitísku starfsemi. Hann og marg­ir aðrir tala eins og sjálfsagt væri, að allar konur færu að vasast í pólitík, ef þær fengju pólitísk réttindi, en á því er engin hætta fremur um þær en um karlmenn. Eg skal ekki fara að kappræða við hinn háttv. þm. (J. J.) um þær ástæð­ur, sem hann færði gegn kvenréttindun­um, eg vil aðeins minnast á eina þeirra, að kvenfólkið megi ekki fást við annað en barnauppeldi. Ef svo er, hvers vegna meinum vér þeim þá ekki að fást við slík störf, sem hljóta að hindra þær í að rækja uppeldisverkið? Höfum vér ekki á þessu þingi verið að semja lög um, að þær mættu vera dómarar, læknar, prestar o. s. frv.? Verzlunarstörf hafa margar þeirra á hendi nú þegar, og er þó augljóst, að alt þetta mundi stórum trufla uppeldisstarfsemi þeirra. Eftir því sem baráttan fyrir lífinu harðnar, eftir því verður örðugra að stofna hjúskap og hljóta því margar konur að lifa ógiftar, en þá er rangt að meina þeim að stunda nokkra heiðarlega atvinnu. En annars vil eg taka það fram um barnauppeldið, að þar hefir faðirinn og á fað­irinn ekki að hafa minna að segja en móðirin; um sjálfan mig að minsta kosti get eg fullyrt, að eg hefi að því leyti eins mikið frá föður mínum eins og móður minni. Uppeldið er ekki alt fólgið í því að kenna börnunum að lesa og skrifa, og jafnvel þá kenslu annast feður ekki síður en mæður. Eg mundi álíta sjálfan mig lélegan húsföður, ef eg hefði ekki getað tekið þátt í uppeldi barna minna ásamt móður þeirra. — Nei, eg ætlast ekki til, að allar konur fari að vasast í pólitík eða að þær fari allar í embætti, en ef kona finnur köllun hjá sér til slíkra starfa, þá tel eg rangt, að lögin meini henni það. En ef þær finna ekki köllun hjá sér, þá er ekki hætt við, að þær fari að fást við slíkt.

Einn háttv. þm. mintist á br.till. á þskj. 287 um að breyta orðinu ráðherra í ráðherrar, þar sem talað er um að hann (eða þeir) eigi sæti á alþingi. Þessi br.till. er ónóg, því að mörgum öðrum stöðum þyrfti að breyta á sömu leið, og hún er óþörf, því að í frumv. sjálfu er það tekið fram skýrum orðum, að hvarvetna þar sem stendur ráðherra skuli koma ráðherrar, eftir að þeir eru orðnir fleiri en einn. Þetta tekur út yfir öll tilfelli.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) reyndi að færa söguleg dæmi gegn því, að nokkurntíma bæri að veita mönnum pólitísk réttindi í smáskömtum. (Bjarni Jónsson: Hefi aldrei talað í þá átt!) En ekkert er auðveldara en að nefna mörg dæmi þess, að sú aðferð hefir verið höfð. Hjá oss fengu konur fyrst kosningarrétt og kjörgengi í sveitamálum, síðan í safnaðamálum, og nú er loks farið fram á full pólitísk réttindi handa þeim. Eg skal taka annað dæmi. Eins og flestum mun kunnugt, var þrælum í Bandaríkjunum gefið alt í einu frelsi og atkvæðisréttur eftir borgarastríðið. En þetta hefir orðið svertingjum til stórs skaða, því að hinum hvítu borgurum stóð sá stuggur af þessari skyndilegu byltingu, að þeir síðan hafa neytt allra ráða til þess að bægja þeim frá að nota atkvæðisrétt sinn, og hefir það mikið til hepnast, þótt með ólögum sé gert. Mikið betur hefir gengið í Brasilíu, en þar var sú aðferð höfð, að öllum svertingjum, sem fæddust eftir að lögin voru gengin í gildi, var gefið frelsi; hinum smátt og smátt. Háttv. þm. talaði um próf, sem halda ætti fyrir kosn­ingar, en í frumv. er aðeins talað um þekkingarskilyrði fyrir kosningarrétti. Hann reyndi og að ögra með, að kvenfólkið hér mundi gera uppþot eins og kvenfrelsiskonurnar á Englandi, ef þær fengju ekki öllum sínum kröfum fullnægt í einu. En á Englandi varð uppþotið vegna þess, að þar var konum synjað um allan pólitískan rétt. Hér gegnir því alt öðru máli, hér væri ekki ástæða til slíkra örþrifráða. Hinn háttv. þm. talaði um, að tónninn í umræðunum um opinber mál mundi batna, þegar kvenmenn fengju pólitísk réttindi. Eg er honum samdóma um það, og það er meðal annars þess vegna, að eg er hlyntur kvenfrelsishreyfingunni. Eitt ríki í Ameríku, Wyoming, veitti konum bæði kosningarrétt og kjörgengi fyrir eitthvað 40 árum og hafa bæði blöð og þing þess ríkis verið orðlögð fyrir siðprýði jafnan síðan.

En nú er víst mál til komið, að eg setjist niður, því að flestir munu vera orðnir þreyttir.

*) Upphaf þessarar ræðu er svo vitlaust skrifað, að eg skil ekkert í því, og man nú ekki samhengið lengur, verð því að sleppa því úr — J. Ó.