29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 953 í B-deild Alþingistíðinda. (1230)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Pétur Jónsson:

Eg þarf ekki mikið að segja nú. Hér hefir nú verið melt með þeim brtill., sem eg er samþykkur, og móti hinum, og það betur en eg gæti gert.

Þó vildi eg minnast á eina till. frá meiri hl. háttv. nefndar. Eg býst við að fylgja flestum till. hans, en þessari get eg ekki fylgt. Það er 19. gr. í frv. nefndarinnar. 18. gr. í þessu frv. hljóðar um þjóðkirkjuna, og fer fram á það, að aftan við 45. gr. stjórnarskrárinnar skuli sett, að breyta megi þessu með lögum. Eg er nú samþykkur því, að það sé heppilegt að þurfa ekki að hlaupa í stjórnarskrána til þess að breyta fyrirkomulagi kirkjunnar, en einmitt af því, að þessi gr. stendur þarna, þá verður 19. gr. óþörf. Hún hljóðar þannig — ef eg má lesa hana —: »Aftan við 47. gr. stj.skr. bætist: Enginn er skyldur að inna af hendi persónuleg gjöld til neinnar annarar guðsdýrkunar en þeirrar, er hann sjálfur aðhyllist; en gjalda skal hann til skóla hin lögboðnu, persónulegu gjöld þjóðkirkjunnar, ef hann sannar ekki, að hann heyri til öðrum trúarbragðaflokki, er viðurkendur er í landinu«.

Eg finn enga ástæðu til þess að fara að breyta gjaldskyldunni til prests og kirkju þannig, að gjaldið sé að eins greitt í annan sjóð. Eins og nú hagar til, eftir það er prestlaunalögin og ný lög um sóknargjöld komust á, rennur féð sama sem í landssjóð, því prestlaunasjóður er raunar einn af vösum landssjóðs. Eg hygg, að ef gera ætti breytingu á þessu fyrirkomulagi, þá ætti það að vera í sambandi við meiri og fullkomnari breytingar á sambandinu milli ríkis og kirkju og helzt ekki róta því við fyrri. Eg býst við, að sú hugsun vinni meiri og meiri framgang, að auka þurfi frelsi safnaðanna og ábyrgð og losa um böndin á milli ríkis og kirkju eða eiginlega leysa ríkið frá þeirri skyldu, að vernda hinn evangelisku-lútersku kirkju sérstaklega. Af því leiðir alls ekki, að ríkið ætti engin afskifti að hafa af kirkjumálum. En sem stendur er nú þetta alt óráðin gáta, og þá finst mér rétt að hlaupa ekki að neinum breytingum, sem komið gætu í bága við nýtt fyrirkomulag.

Háttv. framsm. meiri hl. (J. Ól.) hélt því fram, að gjaldskyldan til prests og kirkju væri skerðing á trúfrelsi þeirra, sem ekki fylgja kirkjunni. Eg get ekki annað séð, en að það sé sama fyrir mann, sem er annarar trúar, hvort hann lætur gjöld sín í þennan vasa eða hinn í landssjóðnum. Það er engin skerðing á trúfrelsi því, er stjórnarskráin áskilur mönnum. Það snertir ekkert trúbrögð manns eða samvizkufrelsi, hvernig hagað er gjaldskyldu til almennra þarfa; en á meðan ríkið á samkvæmt stjórnar­skránni að vernda og styðja ríkiskirkjuna, verður að telja það með öðrum almennum þörfum. Hitt snertir trúfrelsið, að þessu hlutverki megi breyta með sérstökum lögum. Þess vegna er gjaldskylduspursmálið í þessu sambandi ekkert stjórnarskráratriði og á að falla burt úr frumv.

Svo vildi eg að eins minnast lauslega á árlegt þinghald, af því að hér hefir verið mælt mjög með því og því talið margt til gildis, einkum af háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.). Eg lít svo á, að það sé mjög örðugt fyrir bændur að sitja á þingi á hverju ári, ekki sízt ef þing er haldið á óhentugum tíma. Mín reynsla er sú, að ef eg ætti að fara að sitja á þingi á hverju ári, þá væri eg sama sem búinn að yfirgefa búskapinn, og væri þá sæmra að sleppa honum alveg. Þetta segi eg nú að vísu fyrir mig einan, en eg er búinn að vera bæði þingmaður og bóndi í mörg ár og vanrækja heimili mitt, og þekki þetta því allvel.