29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (1231)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Gunnarsson:

Það er í mesta máta eðlilegt, að síðan tilraun sú, er gerð var til þess að koma á nýjum sambandslögum við Dani, strandaði, þá reynum vér af öllum mætti að snúa hug vorum að þeim atriðum í löggjöf vorri, er ætla mætti að hægt se að breyta til batnaðar. Það er því eðlilegt, að þjóð og þing ráðist nú í það, að koma í framkvæmd nauðsynlegum breytingum á stjórnarskrá landsins.

Það þarf ekki að lýsa því fyrir háttv. þm., hversu merkilegar breytingar hér er um að ræða á stjórnarskránni. Það mun vera öllum ljóst. En áður en eg fer lengra, skal eg geta að nokkru stöðu minnar í nefndinni. Þetta er allfjölmenn nefnd, 9 manns, og því sízt að undra, þótt skoðanamunur verði nokkur, enda er því svo varið. Eg segi það nú fyrir mitt leyti, að þótt eg teljist með meiri hluta nefndarinnar, þá hefi eg þó ýmislegt að athuga við sumar af þeim breytingum, er stafa frá þeim nöfnum, hinum háttv. þm. S.-Múl., eins og líka er vikið að í nefndaráliti meiri hl. En svo eg víki að þeim af hinum verulegu breytingum, eðlisbreytingum er eg tel mig samþykkan, þá skal eg nefna afnám k.kj. þm., víkkun kosningarréttar, fjölgun ráðherra, skipun deildanna á hæfilegan hátt, frumkvæði stjórnarinnar í sambandi við fjár­málin og að skilja megi ríki og kirkju með einföldum lögum. Og eg get jafnvel bætt því við, að þjóðaratkvæði sé reynt í vissum málum og að búseta á Íslandi sé skilyrði fyrir kosningarrétti og kjörgengi. En þótt eg nefni nú einungis þessi atriði, þá er það ekki svo að skilja, að ekki séu hér fleiri breyt­ingar á ferðinni, sem eg ef til vill gæti gengið inn á.

Þá vil eg snúa mér að hinum sérstöku breyt.till. úr ýmsum áttum, og skal eg taka það fram, að mér er ómögulegt að taka þær eftir röð, heldur eftir því, sem eg hefi ritað þær hjá mér.

Það er þá fyrst breyt.till. frá háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) um að draga úr rýmkun kosningarréttarins: Eg vil líka benda á það í sambandi við ræður h. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) og hæstv. ráðherra (Kr. J.), að sami þm. taldi ekki brýna þörf á því að veita konum kosningarrétt. En eg get ekki séð neitt, sem mælir á móti því, og eg álít jafnan brýna nauðsyn á því að gera það sem rétt er. Eg er enginn lögfræðingur, en eg veit það, að það er gömul setning í öllum frjáls­um löndum, að allir eigi að vera jafnir fyrir lögunum, og þegar eg segi allir, ætla eg, að það taki líka til kvenmanna, því þær heyra þó einnig mann­kyninu til, eins og vér karlmenn. En hingað til hefir vantað mikið á það í þessu landi, sem vill kallast þingfrjálst land, að þessari grundvallarreglu hafi verið fylgt. Að eins á síðustu árum hefir konum verið miðlað smátt og smátt nokkru af þeim rétti, sem þær um aldur og ævi hafa átt tilkall til, en aldrei fengið. Nú er það tilgangur margra í nefndinni að stíga sporið til fulls og líta á kvennfólkið eins og manneskjur, jafnréttháar og karlmenn, og þá verð­ur að veita þeim allan sama rétt og karlmönnum. Nú er einmitt kosningarréttur og kjörgengi einn hinn dýrmæt­asti réttur borgaranna í hverju landi, og eg mun því fylgja því fast fram, að hér verði ekki farið að gera neitt kák, heldur verði öllum veittur sami réttur­inn skilyrðislaust. Með því að gera þetta þarf enginn að ímynda sér að kon­ur séu pískaðar til þess að koma allar fram í fylkingu og fara að vasast í opinberum málum. Nei, þær einar, sem finna hjá sér sterka köllun og hæfileika í þá átt, koma fram, smátt og smátt.

Í sambandi við þetta skal eg geta um till. háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.). Hann vill fara nokkurs konar meðalveg. Veita fyrst kosningarrétt þeim konum, sem eru 40 ára og eldri. Síðan næsta ár þeim sem eru 39 ára, o. s. frv., þangað til komið er niður í hið upprunalega aldurstakmark. Ekki get eg felt mig við þá till., og ekki fæ eg séð, að hún sé á rökum bygð. Hún hefir það við sig, að kjósendur verða færri, er konum milli 21 og 40 ára aldurs er bægt frá kosningarrétti. Þá held eg nærri því, eftir ástæðum, eins og nú horfir við, að réttara væri að snúa alveg við blaðinu og veita ungu konunum kosningarrétt, en ekki hinum eldri, þótt eg auðvitað haldi því ekki fram heldur. Mentunin hefir aukist mikið á síðari árum, svo að margar af yngri konunum hafa gengið á alþýðuskóla, og hafa því fengið meiri almenna mentun en hinar eldri. Og eg verð að segja það, að konur, sem nú eru milli 21 og 30 ára, munu vera betur heima í almennum málum, en marg­ir kjósendur meðal karla, sem í mörg ár hafa notið þessara dýrmætu réttinda. Eg hefi reynsluna fyrir mér í því, að margir eldri karlmenn hafa þar ekki úr háum söðli að detta.

Hinn háttv. þm. áleit það ískyggilegt að fjölga svo mjög kjósendum alt í einu, að tala þeirra vaxi meira en um helm­ing, og þá sérstaklega vegna kvenfólks­ins. En hann sér ekkert ískyggilegt við það að fjölga að sama skapi karlkynskjósendum. Uppeldið er þó hið sama fyrir bæði kyn og alþýðumentunin hin sama. Eitt af því, sem hann færði fram til stuðnings sínu máli, var það, að kon­ur gætu notað tíma sinn til annars betra en að búa sig undir kosningar. Ef það er mikilsvert að búa sig vel undir þær og neyta réttarins með viti, þá fæ eg eigi séð, að þetta sé á rökum bygt. Menn segja, að aðalhlutverk kvenna sé að ala upp börn. Eg játa það, en það er eigi þeirra hlutverk einna, heldur karlmanna líka. Menn segja þó, að þessi og þessi unglingur hafi fengið gott upp­eldi í foreldrahúsum, hjá föður og móður. Og hver ímyndar sér, að uppeldi æskulýðsins verði lakara fyrir það, þótt kon­ur verði fróðari en áður í almenningsmálum? Nei, þá verða þær einmitt þeim mun færari um að ala upp þjóðlega syni og dætur fyrir föðurlandið.

Sami háttv. þm. hélt því fram, að pólitík væri ekki löguð fyrir hinar fínni tilfinningar kvenfólksins og gerði mikið úr spillingu þeirri, er henni fylgdi. Eg verð nú einmitt að álíta það gróða, að kvenfólkið, sem er óspiltara og hefir næmari tilfinningu fyrir því, sem sæmi­legt er og ósæmilegt, taki þátt í pólitíkinni ásamt karlmönnunum, og að þá verði spillingin minni, sem henni fylgir svo sárlega hér. Eg held því, að ekki sé hægt að slá því föstu, að neitt versni við það, þótt konur gefi sig við þjóðmálum, og verð þess vegna að halda fast við það, að hér verði ekki gerður neinn greinarmunur, heldur verði það gert, sem gera ber, að allir verðir gerð­ir jafnir fyrir lögunum, og að öðru leyti verði reynslan að skera úr hvernig fer.

Næst vildi eg minnast á það, sem háttv. framsögumaður meirihlutans (J. Ól.) sagði í sambandi við 19. gr., þar sem mönnum, sem ekki tilheyra neinu kirkjufélagi er gert að skyldu að greiða til mentamála það sem því nemur, er þeir annars hefðu, þurft að greiða til kirkjufélagsins. Hann taldi það hegn­ingu, en það virðist mér rangt hjá hon­um. Hann veit vel, að ekkert slíkt vakti fyrir nefndinni, heldur einungis hitt, að með þessu væru reistar skorður við því, að menn hlypu brott úr kirkjunni að eins til þess að firrast útgjöld án nokkurs ágreinings í trúmálum.

H. þm. S.-Múl. (J. J. og J. Ól.) bera fram þá till. á þgskj. 330, að kosningarrétt megi binda þekkingarskilyrði. Eg get ekki felt mig við þá tillögu, ekki af því, að eg vilji ekki, að kjósendur séu sem bezt að sér, heldur er það sú ástæða, að mér þykir óþarfi að setja það í stjórnarskrána. Það á betur heima í barnafræðslulögum. Þar ættu ungmennin að fá ljóst, en stutt yfirlit yfir það, hvernig oss er stjórnað. Það nær heldur ekki nokkurri átt að setja 60 og 70 ára karla við prófborðið. Það væri nokkuð skrítið og næði ekki tilganginum.

Á þingskjali 270 koma háttv. þingm. með breyt.till. í þá átt, að stjórnin ein hafi rétt til að koma með uppástungur um nýjar og auknar fjárgreiðslur. Síðan hefir og komið fram sú breytingartillaga, að fjárlaganefnd skuli og hafa þennan rétt ásamt stjórninni. Eftir nákvæma yfirvegun hefi eg komist að þeirri niðurstöðu, að þetta eða eitthvað í þessa átt muni vera rétt. Það þarf naumast að lýsa því, hver vandræði það hefir í för með sér, að hver þingmaður getur komið með breytingartillögur til síðustu meðferðar fjárlagafrumvarps. Afleiðingarnar eru auðsæjar. Fjárlögin verða einatt hálfgerður óskapnaður með því lagi. Eg hefi heyrt þau mótmæli, að stjórnin fengi með því of mikið vald. Ekki er eg svo hræddur við það. Stjórnin hlyti þá að finna til meiri ábyrgðar; þá mundi komast meira samræmi og fastari stefna í fjármálin. Stjórnin myndaði sér þá ákveðna stefnu í fjármálum þegar fyrir þing. Hún mundi leita sér upplýsinga hjá sýslunarmönnum sínum, gæta umræðna um þau efni í blöðum landsins og þannig fá yfirlit yfir alt landið. Eg hallast þó held­ur að þeirri breytingartillögu, að fjárlaganefnd hafi og uppástunguvald í þeim efnum. Það getur verið, að á þessu fyrirkomulagi séu agnúar, en mér dylst ekki, að þeir eru léttari á metum en kostirnir.

Háttv. þm. Dal. (B. J.) hafði orð um, að svo líti út í augum sumra, að þingið gæti ekki beizlislaust verið. Það er einmitt sannleikur, að þingið verður að hafa eitthvert aðhald í þessu efni, eða réttara sagt hinir einstöku þingmenn. Reynslan hefir sýnt það, hvernig fjárfögin tætast sundur og verða stefnulaus, með því að hver einstakur þingmaður hefir óbundið frumkvæði til að koma með uppástungur til fjárauka.

Viðvíkjandi því sem hæstv. ráðherra (Kr. J.) talaði áðan, þá get eg að ýmsu leyti fallist á það. Að eins þótti mér hann fara nokkuð skamt. Hann sagði, að »Referendum« (?: að skjóta málum undir þjóðaratkvæði), hafi lítið verið rætt, væri því nær óþekt og hafi ekki komið fyr fram á þinginu. En með því er ekki sagt, að það hafi ekki verið rætt. Eg man þó vel, að það hefir verið rætt í tímaritum og blöðum. Hygg eg réttast að binda þetta ákvæði við vissa tegund mála. Eg áskil mér umhugsunarfrest til að íhuga þessa tillögu nánar. Mun eg greiða þeirri tillögu, sem nú liggur fyrir í þessa átt, atkvæði, án þess að skuldbinda mig til að greiða henni atkvæði óbreyttri síðar. Hæstv. ráðherra (Kr. J.) hélt, að þetta ákvæði mundi fella stjórnarskrárfrumvarpið hjá konungi. Það get eg ekki skilið.

Um breytingartillögur háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og háttv. þm. Dal. (B. J.) skal eg vera fáorður. Eg get ekki láð þeim, þótt þeir hafi reynt að orða 1. grein svo, að þar kæmi ekki fram tilvitnun í stöðulögin. Stöðulögin frá 1871 eru oss þyrnir í augum. Höfum vér skoðað þau sem nauðungarlög. En mér er ekki ljóst, að við stöndum neitt bet­ur að vígi eftir en áður, þótt þessi umorðun þeirra næði fram að ganga. Betra að minnast alls ekki á stöðulögin.

Víkkun kosningarréttarins kallaði hæstv. ráðherra (Kr. J.) »revolution«. Það er nokkuð stórt orð. Eftir því sem til hagar hér á landi, þá get eg ekki ímyndað mér, að sá hluti þjóðarinnar, sem ekki hefir kosningarrétt, en á nú að veita hann, sé þeim mun ógætnari en hinn, að þessi breyting geti orsakað »revolution«, eins og hann komst að orði, eða algerða byltingu í pólitíkinni.