29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (1233)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Eggert Pálsson:

Umræðurnar eru þegar orðnar langar, sem ekki er furða um svo þýðingarmikið mál. Það hefir verið sagt með sanni, að óholt sé að breyta oft stjórnarskrám, og því er eðlilegt, að mörg atriði verði að taka til athugunar við þessar umræður, því hér á það heima, sem máltækið segir: »Það skal vel vanda, sem lengi á að standa«.

Eg er að vísu svo settur, að eg á engar br.till., sem taki að nefna, en finn þó fullgilda ástæðu til að tala nokkur orð um þetta þýðingarmikla mál. Og vöntun á br.till. frá minni hálfu þarf eigi að vera þar neinn þröskuldur í vegi, þar sem br.till. eru nægar fyrir, 70–80, svo að úr nægu eru að velja. Enda er það svo, að margar af þeim tillögum, sem eg felli mig bezt við, koma svo að segja sín úr hverri áttinni.

Eftir því sem mér hefir bezt getað skilist, eru það aðallega 3 atriði, sem þjóðin óskar breytingar á í stjórnarskránni: Afnám konungkjörinna þingmanna, rýmkun kosningarréttarins og að ríki og kirkja geti skilið með einföld­um lögum. Um réttmæti þessara óska er enginn ágreiningur meðal þingmanna, enda er eigi framhjá neinum þeirra gengið í frumv. því og breytingartill., sem hér liggja fyrir. Ágreiningurinn er um það, hvernig upp skuli byggja í stað­inn, þegar búið er að taka þessar óskir til greina auk ýmissra annara atriða, sem þjóðin hefir ekki krafist breytinga á og þá heldur ekki myndað sér neina skoðun um, en sem eðlilega koma til umræðu og athugunar, þegar stjórnarskrárbreyting er gerð á annað borð.

Það liggur í augum uppi, að hinir konungkjörnu þingmenn mega ekki láta eftir sig auð sæti á þingi, eitthvað verð­ur að koma í staðinn. Upphaflega var tilgangurinn sá, að þeir áttu að mynda nokkurskonar íhaldsflokk í þinginu, svo að ekki væri haldið of ört í framsóknar-áttina. Og þótt skiftar séu skoðanir um, hvort íhald þetta hafi verið bráðnauðsynlegt á liðnum tíma, þá hygg eg þó, að vér getum ekki verið án þess í framtíðinni að hafa eitthvert stöðvunarafl í stjórnarlögum vorum, allra sízt ef kosningarrétturinn er til mikilla muna útvíkkaður. Eg hygg nú, að nefndin hafi hér fundið heppilegan veg til að mynda slíkt íhaldsafl, með því að ákveða hlutfallskosningar til efri deildar. Því svo óheppilegar sem eg tel hlutfallskosn­ingar til þingsins yfir höfuð að tala, annars vegar af því að þær mundu útiloka því sem næst lítið þekta en efni­lega menn frá þingsetu, og hinsvegar missast nauðsynleg þekking á hinum ýmislegu staðháttum og kringumstæðum okkar víðáttumikla lands, þareð þing­mennirnir gætu komið til að safnast frá einum eða fáum stöðum, svo heppilegar virðast mér þær aftur á móti, þegar um kosning til efri deildar er að ræða, að eins í því skyni að þar skuli sæti eiga reyndari og gætnari menn. Því það liggur í augum uppi, að við hlutfalls­kosninguna mundu þeir einir verða fyrir valinu, er reyndari væru orðnir og búnir að skapa sér nafn meðal þjóðarinnar í heildinni. Yngri og óreyndari mennirnir mundu aftur á móti, ef þá fýsti að gefa sig við þjóðmálefnum, knýja á dyr neðri deildar þingsins, og verða svo, ef þeir þættu eiga þær skilið, fluttir upp í efri deildina fyrir alþjóðaratkvæði. En þótt eg fallist þannig á aðferðina, sem nefndin hefir fundið til þess að skapa nauðsynlegt og skynsamlegt íhald, þá virðist mér samt, að hún gangi óþarflega langt, með því að ákveða kjörtíma efri deildar 12 ár. Tólf ár eru sem sé ekki svo lítill hluti af mannsæfinni. Svo að þótt maðurinn standi svo að segja í fullu fjöri og hafi hina fylstu starfskrafta þegar hann er kosinn, þá gæti svo farið, að hann væri kominn að fótum fram og búinn að tapa mjög sínum andlegu kröftum löngu áður en kjörtími hans væri útrunninn. Eg hallast því fyrir mitt leyti fremur að br.till. hins háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) um að hafa 6 ára kjörtímabil til efri deildar, en 3 ár til neðri deildar, og svo að sjálfsögðu þar af leiðandi þing á hverju ári. Eg veit að vísu, að þetta hvorttveggja, tíðar kosningar og þing á hverju ári yrði talsvert miklu dýrara fyrirkomulag. En held þó, að af því hvorutveggja geti stafað svo mikið gagn, að þjóðin megi ekki undan því skorast. Hvað hið fyrra atriðið snertir, þá eru það óbein en ekki bein útgjöld fyrir þjóðina og henni þess vegna ekki svo tilfinnanleg, enda nauðsyn hvort sem er fyrir menn að koma við og við saman til fundarhalda og má þá eins vel koma saman til kosn­inga. Slík fyrirhöfn mundi líka margborga sig, ef kosning hefði mishepnast, að geta lagfært hana og bætt úr skák hálfu fyr en ella.

Hvað það snertir, að þing sé haldið á hverju ári, þá veit eg, að það kostar talsvert mikið umfram það, sem nú er. En þó getur mér ekki betur skilist, en að það mundi borga sig fyrir þjóðina. Hvað þingsetuna sjálfa áhrærir, þá fer það nú að vera minst á mununum, þeg­ar þingtíminn er farinn að standa 10–12 vikur og getur ekki styttri verið með því móti að þing komi saman ann­að hvort ár. En með þing á hverju ári mundi mega komast af með alt að því helmingi styttri tíma, að minsta kosti það árið, sem fjárlög væru ekki fyrir þinginu. Svo að mismunurinn á kostn­aði ætti þannig ekki að vera mikið meiri en ferðakostnaður þingmanna annaðhvort ár. Og sá kostnaðarauki ætti að geta borgað sig á ýmsan hátt.

Ef þingið kæmi saman á hverju ári, yrði það stuðningur fyrir stjórnina að hafa þjóðarfulltrúana svo að segja við hendina og veitti henni öruggleika til að leggja út í viðurkend þarfafyrirtæki og á hina hliðina hefti hana frá því að ráðast í eitthvert glæfrafyrirtæki án vilja og vitundar þingsins, eins og hún hefir gert sig seka í og skamt er á að minnast, og getur alt af gert sig seka í, þegar heil 2 ár líða á milli þinga. ­Á hinn bóginn hlyti það að hafa góð áhrif á þingmennina sjálfa að koma saman árlega. Störfin verða þeim eiginlegri heldur en eins og nú að hlaupa í þau annaðhvort ár og sleppa því nær allri hugsun um þau á milli. Áhuginn verður meir vakandi, og það því frem­ur, sem hinar tíðari kosningar mundi knýja þá til meiri áhuga, umhugsunar og vandvirkni.

Í sambandi við þetta skal eg geta þess, að eg hallast að breyt.till. á þgskj. 269 um að þm. skuli vera 36, því bæði er sú tala fallegri og skiftingin eðlilegri — ein tylft í efri deild og tvær í neðri. Og hins vegar er það nægilega mikill fjöldi í samanburði við fólksfjöldann yfirleitt. Og ennfremur er það líklegt, að eigi sér stað hér sem annarstaðar hið fornkveðna, að betra sé fylgi en fjölmenni.

Hvað annað atriðið snertir, sem þjóðin hefir krafist: aukning kosningarréttarins, þá verður vitanlega ekki hjá því komist. Það er krafa, sem hvervetna á sér stað og eigi verður móti staðið. En þegar kosningarrétturinn verður aukinn á annað borð, þá er og líka sjálfsagt, að hann sé einnig látinn ná til kvenfólksins. Því það er engum vafa undirorpið, að það á sömu mannréttindi skilið sem við karlmennirnir, og ekki má láta það blekkja sig, þótt því hafi verið, fyrir vald hnefaréttarins, meinað að njóta þeirra fram á þessa tíma. Þótt einhverjir kynferðis­legir ókostir kunni að þykja eiga heima hjá kvenfólkinu, þá hefir það jafnframt ýmsa kosti fram yfir karlmennina, sem vega fyllilega upp á móti hinu. En þótt eg telji það þannig sjálfsagt, að konum sé veittur kosningarréttur, tel eg samt, að breytingartillaga háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) á þskj. 264 sé mjög svo skynsamleg. Ekki af því, að eg sé eins og hann andvígur réttindum kvenna, heldur sakir þess, að eg veit, að konur eru alment óviðbúnar kosningarréttinum, og það gæti því verið ísjárvert að auka tölu kjósendanna um meira en helming alt í einu, einkanlega þar sem líkindi eru fyrir, að hinir yngri og óþroskaðri mundu fremur neyta hans en þær eldri og gætnari. Þó að þessi skynsamlegi varnagli, sem felst í breytingartillögunni, sé sleginn, þá felst ekki í honum svo ýkja mikil rangsleitni gagnvart kvenfólkinu. Og ekki er eg í neinum vafa um, að miklu betra sé kvenfólkinu slíkt ákvæði heldur en að svo væri ákveðið, að því mætti veita kosningarrétt með lögum. Því þá er hætt við að dregist gæti nokkuð lengi, að þau lög væru gefin út. En með þessu ákvæði á kvenfólkið það víst og áreiðanlegt, að það fær kosningarrétt smátt og smátt. Og frestinn getur hver einstök kona notað til þess að búa sig undir hann. Þessi frestur er heldur ekki eins langur og í fljótu bragði virðist. Þær sem lengst þurfa að bíða, eru þær sem eru 25 ára þegar stjórnarskráin gengur í gildi. Og með því að árin færast saman frá báðum hliðum, aldurstakmarkið þokast niður um eitt ár um leið og konan eldist um eitt ár; getur sú bið eigi lengri orðið en 7–8 ár. Eg get því ekki betur séð, þótt eg sé kvenréttindamaður, en að ákvæði þetta sé á fylsta hátt aðgengi­legt, enda sannfærður um, að allur þorri kvenna muni mjög vel láta sér það nægja.

Hvað þriðja atriðið snertir, að skilnað­ur ríkis og kirkju geti átt sér stað án stjórnarskrárbreytingar, þá liggur það í augum uppi, að nauðsynlegt er að gera ráð fyrir því. Því alt bendir til þess, að svo hljóti að fara innan skamms, að ríki og kirkja skilji, enda hefi eg ekki á móti því, að svo verði, tel það hollast fyrir hvorttveggju, úr því sem komið er, aðeins með skynsamlegum og skaplegum hætti gert. En aftur á hina hliðina finst mér, að á meðan slíkur aðskilnaður er ekki orðinn, eigi ekki löggjafarvaldið að gera neitt til þess að reyna að draga úr áhrifum kirkjunnar og veikja hana. En til þess miða einmitt breytingartil­lögurnar á þskj. 287 og 335. Þar er mönnum beinlínis gefið undir fótinn að losa sig sem mest við öll kirkjuleg bönd, beinlínis gerð tilraun til þess að afkristna landið, með því að ákveða, að þeir skuli minni gjöldum þurfa að svara, sem engum kirkjuflokki vilja heyra til, heldur en hinir sem láta trúarmálefni til sína taka. Slík aðferð gagnvart kirkj­unni getur vart talist heiðarleg frá rík­isins eða löggjafarvaldsins hálfu, eftir hina löngu samþjáningu. Látum þau skilja á skynsamlegan og heiðarlegan hátt, þegar tími þykir til kominn, en löggjafarvaldið á ekki að gera sitt til að murka úr henni lífið áður en sá skilnaður fer fram. Þess ber einnig að gæta, að þetta ákvæði, sem breytingartillög­urnar innihalda, er heldur ekki praktiskt gagnvart ríkinu sjálfu. Því fyrir þau persónulegu gjöld, sem við það tap­aðist, mundi landssjóður verða að endurgreiða prestlaunasjóði jafnmikla upphæð til þeirra presta, sem þegar eru ráðnir að tilhlutun ríkisins, og mundi svo geta farið, að það yrði allmikil og óþægileg blóðtaka.

Auk þessara höfuðþátta í stjórnarskrár­breytingunni, eru líka ýms þýðingarmikil atriði, sem fram hafa komið í breytingartillögum og þurfa athugunar við. Þannig eru t. d. tillögur háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) og háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) um alþýðuatkvæði. Sú tillaga finst mér harla varhugaverð og enda óþörf. Ef um eitt mikilvægt mál er að ræða, sem þing og stjórn er sammála um, að rétt sé að bera undir kjósendur, þá má altaf gera það, enda hefir verið gert. Og engin ákvæði í stjórnarskránni, hvorki þeirri sem er né þeirri sem nú er verið að semja, sem getur meinað það eða hamlað því. En með hin minni mál er slíkt með öllu óþarft, enda minni þörf, ef kosningar yrðu tíðari en nú. Sama er að segja um tillögu háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.), um að stjórnin ein hafi vald til að ákveða hvað á fjárlög megi taka, tel eg hana mjög varhugaverða í svo litlu þjóðfélagi, sem hér er um að gera. Þótt vel hafi gefist annarstaðar, þá er mjög hætt við að hér mundi því verða breytt svo, að allar fjármála­tillögur skiftust eftir flokkum, og ekkert komast að, sem forkólfar meiri hlutans væru andvígir, og það jafnvel þótt ráðherrarnir yrðu þrír, því oftast nær mundu þeir allir verða af sama flokki. En við þessa tillögu hefir háttv. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) komið með þá breytingartillögu, að fjárlaganefndin geti einnig haft tillögurétt í fjármálum, og má vera, að það bæti nokkuð úr, en þó ekki til fullnustu. Eg tel því líklegt að ekki sé tími til kominn, að þessu atriði sé breytt hjá oss.

Aftur á móti hefir komið fram breyt­ingartillaga á þskj. 330 um það, að kosningarrétt megi með lögum binda við þekkingarskilyrði, sem eg fyrir mitt leyti get aðhylst. Mér finst það eigi nema eðlilegt, að svo sé, og það því fremur, sem kosningarrétturinn er víkk­aður. Þetta þarf heldur ekki að vera svo ægilegt. Því fyrst og fremst er ekki sagt, að þær kröfur þurfi að vera svo harðar, að almenningi sé ekki hægt að fullnægja þeim, en hins vegar alls ekki óeðlilegt, að þær séu einhverjar, svo að þeir sem ekkert vita og ekkert skilja séu útilokaðir frá að hafa áhrif á þjóðmálefnin með atkvæði sínu og eyðileggja máske þar með öll áhrif hinna skynbærari kjósenda. Hér er heldur ekki um það að ræða, að þau ákvæði skuli setja þegar í stað, heldur eingöngu það, að heimilt sé að setja slík ákvæði með einföldum lögum, ef alþingi kynni að virðast þörf á því fyr eða síðar til þess að takmarka skaðleg áhrif ómentaðs skríls, sem komið getur upp hér sem annarstaðar, þótt enn þá séum við hann lausir. Að minsta kosti ætti það ekki að geta á neinn hátt skaðað, þótt ákvæðið sem br.till. á þskj. 330 fer fram á stæði í stjórnarskránni, en gæti hinsvegar farið svo, að það reyndist til stórra bóta, að upp hefði verið tekið.