29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 977 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Thoroddsen:

Eg skal fyrst geta þess, að eg get ekki felt mig við tillögu háttv. þm. S.-Múl. (J. J. og J. Ól.) um þekkingarskilyrðið, ekki af því, að eg álíti ekki að það sé gott, að allir hafi þessa þekkingu, en eg álít það heyri undir fræðslumálalöggjöfina, en eigi ekki heima í stjórnskipunarlögum landsins. En að hafa þetta ákvæði í stjórnarskránni álít eg mjög varhugavert, eink­um þegar hinar pólitísku öldur rísa hátt. Við höfum haft eitt dæmi þess hér á þingi fyrir skömmu, að meiri hlutinn hefir tekið ? hluta af einu kjördæmi og búið til úr því sérstakt kjördæmi, af því sá flokkur gat þá komið einum sinna manna að í þessu nýja kjördæmi. Eg mun því verða á móti þessari tillögu.

Eg er mótfallinn því, að dómarar séu ekki kjörgengir. Það er spor í öfuga átt. Þegar við lítum á það, að dómara landsins er ekki hægt að setja frá embætti nema með dómi, þá eru þeir betur settir með að halda fram sínum pólitísku skoðunum heldur en nokkur annar embættismaður landsins. Hæstv. ráðherra (Kr. J.) hefir einnig tekið það fram, hversu öfugt þetta sé, og að aldrei sé hægt að fyrirbyggja, að dómarar hafi ákveðnar pólitískar skoðanir og séu æstir »parti«-menn. En með því að banna dómurum þingsetu, gæti þingið farið á mis við góða starfskrafta, og því hefir það tæplega efni á. Það hefir verið sagt, að þá ætti einnig að banna prestum þingsetu, en það nær ekki nokkurri átt. Prestar okkar eru ekki annað en mentaðir leikmenn, sem eiga við sömu kjör að búa og alþýðan. Eg er því mótfallinn, að embættismenn séu útilokaðir frá þingsetu, það gæti þá helzt komið til mála að banna þeim þingsetu, sem eru starfsmenn í stjórnarráðinu; það væri dálítið óviðkunnanlegt að sjá ráðherrann mæta hér á þingi með heilan hóp af skrifstofustjórum úr stjórnarráðinu og aðstoðarmönnum og ef til vill dyravörðinn með.

Þá er tillaga frá háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) um alþýðuatkvæði og breyt.till. frá sama þm. þess efnis, að þegar 4000 kjósendur óska þess, þá skuli bera lög­in frá þinginu undir dóm allra kjósenda. En eins og þetta er, þá er það þýðingarlaust. Það er nú fyrst og fremst, að fjárlög og fjáraukalög geta ekki komið til alþýðuatkvæðis, og svo eru þau lög einnig undanskilin, sem eiga að ganga í gildi undir eins. Meiri hlutinn gæti þá ávalt fyrirbygt, að lögin kæmu undir dóm alþýðu með því að setja það ákvæði í þau, að þau skyldu ganga strax í gildi. Ef alþýðuatkvæði ætti sér stað, þá ætti það vera á sama hátt og fór fram hér, áður en bannlögin voru samþykt. En ef »referendum« verður samþykt, þá ætti að samþykkja breyt.till. mína við það.

Þá er ein tillaga nefndarinnar, að ráðherra einn hafi frumkvæði í fjármálum. Eg er þessari tillögu mótfallinn, hún mundi auka um of hrossakaupin á þingi. Það er satt, að það er örðugt fyrir ráðherra að hafa eftirlit með fjárhagnum, þegar þm. geta bætt svo og svo miklu inn eða felt úr, en ábyrgðin á fjárhagsástandinu á ekki að liggja á ráðherra einum, heldur öllu þinginu, eða þeim flokki, sem öllu getur ráðið. Allir þm. verða að hafa ábyrgðina í þeim efnum, að sjá fjárhag landsins borgið og sjá því fyrir nýjum gjaldstofnum, ef þörf krefur. 1. þm. N.-Múl. (J. J.) hefir gert þá breyt­ingartillögu við þessa tillögu, að fjárlaganefndir hafi sama rétt og ráðherra og álít eg, að sú tillag sé til nokkurra bóta, en annars hygg eg, að fyrirkomulagið sé bezt eins og það er.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) talaði um sambandslögin og breytingartillögu mína í sambandi við það, að þótt þingið samþykki sambandslög þá skuli það þó ekki rofið. Við höfum séð það áður, þegar »benediskan« var á ferðinni, að það þreytti þjóðina, þegar hún var samþykt hvað eftir annað og ávalt var haldið aukaþing. Eins mundi þetta verða til þess að þreyta þjóðina, ef það kostaði altaf þingrof, að við til þess að sýna Dönum, að við héldum enn fast við okkar fyrri kröfur í sambandsmálinu, samþyktum sambandslögin frá síðasta þingi og Danir skeltu ávalt skolleyrum við kröfum okkar. Þetta væri að eins til þess að gefa uppkastsmönnum vopn í hendur. En það meg­um við með engu móti. Við eigum að láta Dani heyra til okkar í sífellu, en megum með engu móti gera það á þann veg, að uppkastsmennirnir fái vind í seglin.

Háttv. 1. þm. Rang. (E. P.) hélt, að menn mundu hlaupa hópum saman úr þjóðkirkjunni, ef þeir menn, sem ekki eru í henni, væru losaðir við skólagjaldið. Eg held það yrði ekki alment. Almenningur er of fastheldinn við það gamla, svo þeir mundu ekki verða ýkja margir, sem færu úr þjóðkirkjunni, þó þessir menn yrðu losaðir undan gjaldskyldu til hennar eða annara stofnana. En aðalatriðið er hér að ganga ekki of nærri persónufrelsi manna. En það er gert með því að skylda þá til þess að gjalda til þeirrar kirkju, hverrar kenningu þeir ekki geta aðhylst og sem þeir álíta óþarfa. Því það eru mörg atriði í kenningu þjóðkirkjunnar, sem bæði eg og aðrir ekki geta aðhylst, t. d. kenn­inguna um guðdóm Krists; svo er einn­ig útskýring þeirra á sakramentunum, sem eg get alls ekki felt mig við, en aðhyllist þar miklu fremur kenningu Kalvíns. Trúin er persónulegt mál, sem hver og einn á að eiga við sjálfan sig og guðdóminn, og það á ekki að leggja þeim kvaðir á herðar, sem ekki vilja vera í þjóðkirkjunni, af því þeir aðhyllast ekki kenningar hennar.

Hæstv. ráðh. (Kr. J.) vildi fara hóflega í útfærslu kosningarréttarins, en var þó ekki alveg samdóma 1. þm. S.-Múl. (J. J.) sem hann taldi hafa stefnt í rétta átt. Einnig áleit hæstv. ráðherra, að gjaldþrotamenn og þeir, sem þiggja af sveit séu svo ósjálfstæðir, að þeir eigi ekki að hafa kosningarrétt. Eg er ekki hæstv. ráðherra samdóma í því, að gjaldþrota menn séu ósjálfstæðari en aðrir menn. Leynilegu kosningarnar eiga að vera trygging fyrir því, að þeir menn, sem orðið hafa gjaldþrota eða þegið sveitarstyrk geti neytt kosningarréttar síns, án þess að aðrir menn hafi nokkur áhrif á þá. Kosningarrétturinn á að ná til allra meðlima þjóðfélagsins, sem orðnir eru fullveðja, og þeir eiga allir að bera ábyrgð á því, sem gerist í þjóðfélaginu og þess vegna er ekki rétt að svifta þessa menn atkvæði.

Þá vill háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) að eins veita þeim konum kosningarrétt, sem eru 40 ára eða eldri. En þær sem yngri eru eiga þá að hagnýta tím­ann og afla sér pólitískrar fræðslu. Er hann þá svo sannfærður um, að kvenfólkið þurfi fremur að afla sér pólitískr­ar fræðslu en karlmenn? Eg tel mikinn vafa á því, þær lesa engu síður blöð og fylgjast með í því sem gerist en karlmenn. Kvenfólkið hefir meira húsleg­um störfum að sinna, og hefir því betri tök á því að lesa blöð og bækur, held­ur en karlmenn, sem eru mikið meira á faraldsfæti úti við; og viðvíkjandi þeirri mótbáru, að kvenfólkið ekki vilji blanda sér í pólitík, og sé þess vegna ófrótt um þá hluti, þá vil eg að eins benda á það, að fjölda margir karlmenn eru ekki þroskaðri en það, að það er nærri því að setja mann í kvalaástand, að tala við þá um landsmál, svo að því leyti eru þeir að engu fremri konum og þess vegna engin ástæða til að svifta þær kosningarrétti af þeim sökum. Þar að auki er það víst, að karlmennirnir eru ekki gæddir hvorki meiri né betri hæfileikum en konur. Kvenfólk er yfirleitt tilfinningaríkara, og hefir næmari tilfinningu fyrir bágindum, og því sem rangt er; eg held því að það myndi hafa góð áhrif á okkar pólitíska líf, ef kvenfólk ætti sæti hér á þinginu; því hvað er okkar starfi hér, annað en það að reyna að bæta úr bágindunum og eymd­inni og reyna að koma jöfnuði á í þjóðfélaginu.

Háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ól.) tók það fram, að það mundi ekki vera gott, að fá fjölda óþroskaðra kjósenda inn á kosn­ingamarkaðinn. Þessu hefi eg svarað í fyrri ræðu minni, en vil að eins bæta því við, að við höfum einnig rýmkað kosningaréttinn fyr, og það seinast á þinginu 1903, er gjald það, er kosningarrétturinn miðast við, var fært úr 12 krónum niður í 4 krónur, og var það mjög mikil rýmkun; eða heldur þingmaðurinn að hættan sé meiri nú? (Jón Ólafsson: Miklu meiri) þó að kvenfólkið, sem eins og eg hefi áður bent á, hvað þroska snertir stendur jafnfætis karlmönnum, fái kosningarétt? Og þegar litið er til þess, hversu mikla þýðingu það getur haft, nú á þessum tímum þegar rangfærslur og blekkingar ganga fjöllunum hærra, að kvenfólkið, sem við viðurkennum allir að sé kurteisara, og að sjálfsögðu ekki eins sokkið niður í hina pólitísku spillingu eins og karlmennirnir, láti til sín heyra í blöðunum, þá er ekki minsti vafi á því, að einnig með það fyrir augum ber að veita þeim full réttindi. En aðalatriðið er það í þessu máli, að konur eiga þennan rétt engu síður en karlmennirnir, þótt þær ekki hafi haft hann að undanförnu, og það er því ekki nema sjálfsagður hlutur að bæta fyrir það ranglæti, sem þeim hefir verið sýnt um mörg ár.

Viðvíkjandi tillögu minni um það, að hafa þing á hverju ári, þarf eg eigi að fjölyrða nú, því að hæstv. ráðherra (Kr. J.) mælti svo eindregið með henni, að eg álít því máli vel borgið, en í sam­bandi við þetta vil eg minnast á um­mæli háttv. 2. þm. S.-Múl. (J. Ó.) viðvíkjandi lögunum um peningagreiðslu til daglaunamanna, að þau hefðu verið þýðingarlaus, og væru hvorki fugl eða fiskur, þá er þetta alls ekki rétt hjá hinum háttvirta þingm., því að sann­leikurinn er sá, að lögin sköpuðu beinlínis »revolution«, og þótt það geti verið að hegningarákvæði vanti í lögin, þá er þó eins og eg hefi áður bent á mögu­legt fyrir daglaunamennina að ná rétti sínum á annan hátt. Ummæli háttv. þm. (J. Ó.) hljóta því að vera miðuð við einstök tilfelli úr hans eigin líft, því að honum hlýtur að vera það kunnugt, að nú orðið er daglaunamönnum, að minsta kosti í kauptúnunum, ekki borgað öðru vísi en í peningum, nema ef til vill einstöku sjómönnum, sem hafa tekið svo mikið út fyrir sig fram, og þó einhver misbrestur kunni að vera á þessu, þá hafa daglaunamenn, eins og eg hefi áður bent á, lagalegan rétt og geta þess vegna náð rétti sínum.

Viðvíkjandi breytingartillögu minni um takmörkun á valdi dómaranna til þess að beita gæzluvarðhaldi, þá er það að vísu rétt, sem bent hefir verið á, að stundum er það notað til þess, að hindra sakborning frá því, að hafa áhrif á þau vitni, sem kunna að verða leidd í málinu og til þess að hindra strok og þess háttar. En þá er hins að gæta, að gæzluvarðhaldið í sjálfu sér er svo þungt fyrir þann, sem fyrir því verður, að viðkomandi hefir með gæzluvarðhaldinu næstum því tekið út meiri hegningu en þá hegningu, sem hann kann að verða dæmdur í, og þegar þess er gætt, að langtíðast er gæzluvarðhaldinu beitt til þess að knýja fram eigin játningu sakborningsins, sem eg fyrir mitt leyti álít að ekki hafi svo mjög mikið að þýða, þá álít eg að rétt sé að takmarka þetta vald dómaranna. Það liggur t. d. í augum uppi, að maður, sem stolið hefir lambketling, sem ekki kæmist upp fyr en eftir mörg ár, og þá er þessi vesling­ur tekinn og settur í gæzluvarðhald, svo og svo lengi og auðvitað að lokum dæmdur, þá segi eg, að það liggi í augum uppi hversu miklar sálarkvalir þessi maður hefir hlotið að líða, ekki einungis þann tíma, sem hann var í gæzluvarðhaldinu, heldur einnig öll þau ár, sem hann gekk með þetta á samvizkunni. Eg er þeirrar skoðunar, að það sé betra að einhverjar smáyfirsjón­ir séu látnar órefsaðar, heldur en að baka mönnum þær sálar- og líkamskvalir, sem því eru samfara að vera hneptur í gæzluvarðhald. Og yfir höfuð á það að vera takmark hegningar­innar að hafa betrandi áhrif á menn; en hins vegar lít eg, að hegningin eigi ætíð að vera sem allra minst sem hægt er að komast af með. Eg mæli því með þessari breyt.till. minni og vonast til að hún nái fram að ganga.