30.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 997 í B-deild Alþingistíðinda. (1238)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Sigurður Sigurðsson:

Eg ætlaði mér ekki að taka aftur til máls við þessa umræðu, en ýms ummæli háttv. þingmanna, er talað hafa og orð hæstv. ráðherra (Kr. J.) gefa mér ástæðu til að segja fáein orð.

Um fjölgun ráðherranna skal eg vera fáorður að þessu sinni. En það vil eg taka fram, að eg sé ekki neina knýj­andi ástæðu til að fara nú strax að fjölga þeim. Og eg mun, eins og eg tók fram í gær, koma með breyt.till. til 3. umr., er fari fram á, að fjölgun þeirra sé að eins heimiluð í stjórnarskránni.

Hvað snertir tillöguna um, að þing sé haldið á hverju ári, þá get eg tekið undir það, sem háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði um það efni. Það er að mínu áliti of snemt að gera þá breytingu. Þing á hverju ári hefir í för með sér 60 þús. kr. útgjöld fyrir landssjóðinn. En þótt þetta sé þungt á metunum og hljóti að ráða miklu í þessu efni, þá er fleira, sem hér er á að líta. Eg hefi heyrt menn segja, að ef þing væri hverju ári, þá mundi það geta átt styttri setu í hvert sinn. En ekki geri eg ráð fyrir því. Þingsetutíminn mundi verða svipaður eða hinn sami. Ef þing væri háð árlega, þá má búast við, að sumir menn, þeir sem lítið hafa að gera, færu að »spekúlera« í því sem atvinnu að sitja á þingi, og mundu þá þeir hinir sömu stuðla að því, að þingið ætti sem lengsta setu. Ekki hefi eg heldur orðið þess var, að þjóðin yfir höfuð æskti þess, að þingið sé háð árlega.

Það hefir verið mikið rætt um tillögu háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) um þjóðaratkvæði, (»referendum«). En hvað þessa tillögu snertir um þinghald á hverju ári, þá virðist mér ástæða til, að spurn­ingin um það væri borin undir þjóðina, áður en nokkuru er þar ráðið til lykta. Og svar hennar mundi óefað verða á leið, að eigi sé kominn tími til að breyta frá því sem nú er í þessu efni. Háttv. 1. þm. Rangv. (E. P.) og háttv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.) héldu því fram, að með því að halda þing á hverju ári, þá mundi vakna meira líf og meiri áhugi í allri pólitík hér á landi; þegar langur tími líður milli þess að þing er haldið, þá dofni yfir stjórnmálunum, segja þess­ir þingmenn, og að þingmenn hugsi ekkert um þingmál milli þinga. Það má vel vera, að eitthvað sé hæft í þessu. En hitt vil eg segja, að það lýsir ekki miklum landsmálaþroska, ef menn gleyma þingmálum og leggja sig til svefns í því efni milli þinga, jafnvel þótt þingið sé ekki háð nema annaðhvort ár. Það eru ekki áhugasamir landsmálamenn, er það gera. Nei, það er ekki kominn tími til að fastákveða það, að þing skuli haldið árlega og þjóðin óskar þess ekki, eftir því, sem eg veit bezt.

Hvað snertir tillögu mína um að banna dómurum að sitja á þingi, þá hefir hún mætt töluverðri mótspyrnu. Eg get fullvissað hæstv. ráðherra (Kr. J.) um það, að þessi tillaga á ekki rót sína að rekja til skrifstofu sjálfstæðismanna. Það er mjög langt síðan eg heyrði þessa uppástungu fyrst. Háttv. þm. Vestm. (J. M.) gat þess við mig, að það væri óvíða í lögum annara þjóða, að dómurum væri bönnuð þingseta, og veit eg, að hann fer þar með rétt mál. En þótt svo sé ekki hjá öðrum þjóðum, þá er ekki þar með sagt, að það sé ekki hagkvæmt fyrirkomulag hjá oss. Vér erum fámennir og þekkjum hver annan að heita má og verðum fyrir áhrifum hver af öðrum. Og dómarar geta eins og aðrir orðið fyrir slíkum áhrifum. Eg segi ekki, að dómarar séu ógáfaðri eða lakari en aðrir menn, síður en svo. En þeir eru þó mannlegum breyzkleika undirorpnir, eins og við hinir. Það, sem liggur bak við tillög­una er það, að fækka embættismönnum á þingi. Eg hefi nú einu sinni fengið það í höfuðið, að heppilegast muni, að sem fæstir embættismenn eigi sæti á þingi og þá hvað sízt dómarar. Auð­vitað getur enginn bannað dómurum sem »prívat«-mönnum að skifta sér af pólitík og vera í pólitískum flokkum og beita þar áhrifum. En mér virðist, að áhrifin geti orðið enn víðtækari og áhrifameiri, að því er þá menn snertir, er eiga sæti á þingi, svo dómara sem aðra, og það jafnvel framar en góðu hófi gegnir. Það hefir verið fundið að tillögunni, að hún sé of víðtæk. Eg skal játa það og kannast við, að hún hefði mátt vera takmarkaðri. Það var ekki meining mín að útiloka sáttanefnd­armenn eða dómendur í landsdómi frá þingsetu. En þetta má laga til 3. umr. Nú hefir verið sett nefnd til að rannsaka dómaskipan landsins. Það má bú­ast við því, að tillögur nefndarinnar hnigi í þá átt að aðskilja dómarastarfið frá fógetastarfinu og að sú stefna verði ofan á í framtíðinni. En við það verða dómararnir færri og mundi þá þessi tillaga mín, ef hún yrði að lögum, ná til færri manna en nú ætti sér stað.

Geta vil eg þess, í sambandi við þetta mál, að í Danmörku sitja sárfáir dóm­arar á þingi og enginn af dómendum hæstaréttar. Í Noregi á enginn dómari sæti þar á þingi, og svo mun víðar vera.

En hvað sem þessu líður, þá tek eg það enn fram, að þó það sé hvergi annarsstaðar, að dómendum sé bannað að sitja á þingum, þá mælir samt margt með því, að þeir eigi ekki setu á þingi hér hjá oss. Ef þeir eru of lágt launaðir, þá er miklu skynsamlegra að hækka laun þeirra, svo þeir þurfi ekki að vera sér úti um aðra atvinnu eða aukastörf. Hæstv. ráðherra (Kr. J.) gat þess, að ef dómurunum væri bönnuð þingseta, þá ætti ekki síður við að banna búnaðarráðunautum að vera á þingi. Eg hygg, að þetta sé fremur gaman en alvara hjá hæstv. ráðherra (Kr. J.), enda væri það hálf hlægilegt að banna þeim mönnum þingsetu. Búnaðarráðunautar eru ekki, að áliti sumra manna, þau stórmenni, er hættuleg séu í pólitísku tilliti og þar af leiðandi ástæðulaust að meina þeim að gefa sig við þingstörfum. Þá virðist mér mun meiri ástæða til að banna sýslumönnum, bankastjór­um, læknum og jafnvel prestum þingsetu heldur en búnaðarráðunautum.

Um kosningarréttinn skal eg taka það fram, að ef mínar tillögur verða ekki samþyktar, þá mun eg greiða atkvæði með tillögu háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.). Eg álít að það eigi að fara mjög var­lega í það að færa út kosningarréttinn og ekki gera neinar stórfeldar breyting­ar á honum alt í einu.

Hér hefir verið talað mikið um kosn­ingarrétt kvenna og er það því að bera í bakkafullan lækinn að minnast frek­ar á það atriði. Eg vil þó geta þess, að eg er enn ekki sannfærður um, að það sé á rökum bygt að veita nú þeg­ar konum kosningarétt. Því er nú þann­ig varið, að menn skifta með sér verkum á heimilunum og sömuleiðis í þjóðfélaginu. Þessi skifting hefir tíðkast frá alda öðli og á sér djúpar rætur í þjóð­félagsskipuninni. Verkaskiftingin fer mikið eftir náttúruskilyrðum þeim, sem hver þjóð á við að búa. Hjá okkur hefir verkaskiftingunni milli karla og kvenna verið þannig háttað, að karl­mennirnir hafa tekið að sér stritverkin og þau verk, sem hafa haft í för með sér vosbúð og vökur. En kvenfólkið hefir haft innanbæjarstörfin á hendi og gætt fengins afla. Eins og eg gat um er þessi skifting gömul og það er í sam­ræmi við þessa skiftingu, að karlmenn­irnir hafa tekið að sér að starfa að póli­tík og öðrum landsmálum. Karlmenn­irnir hafa tekið að sér störfin út á við, en kvennþjóðin inn á við. Pólitísku störfin eru ekkert leikfang; þau eru hálfgert skítverk og við þess konar störf­um eigum við að hlífa kvennþjóðinni.

Eg skal svo ekki fara fleirum orðum um frumvarpið að sinni, en óska þess að eins, að það fari svo frá þinginu, að þjóðin verði sem ánægðust með það, og að það á sínum tíma geti öðlast staðfestingu.