29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1008 í B-deild Alþingistíðinda. (1241)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Jón Þorkelsson:

Eg ætla að eins að tala örfá orð. Vil eg þó halda fram breytingartillögu okkar þm. Dal. (B.J.).

Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) lét það ummælt, að þessi meðferð á 1. gr. stjórn­arskrárinnar væri viðurkenning stöðulaganna. Eg vil þá leyfa mér að spyrja hinn háttv. þingmann: Hvernig skoðar hann það, ef ekki er haggað neitt við þeirri grein? Er það ekki viðurkenn­ing stöðulaganna? Það er ekki alveg nýtt, að lögfræðingum beri ekki saman. Háttv. þm. Vestm. (J. M.) og 1. þm. Eyf. (H. H.) segja, að við samþykkjum stöðulögin, ef við gerum breytingu á þann hátt, sem við leggjum til. En nú skal eg tilfæra annað, sem eg veit þessu til sönnunar, og það var á þingmálafundi hér í Reykjavík, eg hygg undirbúningsfundi undir kosningar 1908, að einn af lögfræðingum okkar (nú assessor í landsyfidómi) kom fram með það, að við hefðum samþykt stöðulögin með stjórnarskipunarlögunum 3. okt. 1903, af því að þar var ekki breytt 1. gr. stjórnarskrárinnar. Einn af yfirdómurum lands­ins álítur þá, að það sé viðurkenning stöðulaganna að hreyfa ekki við 1. gr. stjórnarskrárinnar, þegar breyting er á henni gerð. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að við værum að seilast út fyrir takmörk, sem ekki væri hægt að kom­ast út fyrir. En eg vil benda honum á það, að við höfum »prótesterað« stöðulögunum, og að sá ráðherra (Krieger), sem hafði meðferð þeirra á hendi í ríkisþinginu kannaðist við, að konung­ur og ríkisþingið gætu ekki haft vald til endanlegra úrslita þessa máls eins út af fyrir sig.

Því er svo varið með hæstarétt, að við viljum fela honum um hríð æzta dómsvald í íslenzkum málum. Háttv. 1. þm. Eyf. (H. H.) sagði, að við gætum ekki falið Dönum neitt í þessu efni. Nú sem stendur hefir hæstiréttur æzta dómsvald, og það nær þá ekki lengra en Danir segja nei, og eg sé ekki, að það sé hundrað í hættunni. Við höfum það þá upp úr því, að við fáum viðurkenningu Dana fyrir því, að við getum sjálfir ráðið, hver skuli æztur dómstóll í málum okkar og það er einmitt takmarkið, sem við keppum að, að fá inn­lendan æzta dómstól. Menn verða að gera sér glögga grein fyrir þessu. Ef greinin stendur óhögguð verður það skoðað svo, að okkur þyki ekkert að henni og ef til vill, að við viðurkenn­um stöðulögin. Annars var það mein­ing okkar að stefna svo nærri takmark­inu sem hægt er, en sneiða fram hjá því, sem gæti orðið málinu til hindrunar.

Munkat ek nefna,

nær mun ek stefna.

Nec nominabo,

pæne monstrabo.

Við vildum ekki ganga fram hjá ákvæðinu um hæstarétt, því að það stóð í greininni, en hafi menn yfirleitt á móti því, þá get eg lýst því yfir fyrir sjálf­an mig og eg held háttv. þm. Dal. (B. J.) líka, að þessi hluti tillögunnar megi falla niður.

Eg var líka beðinn fyrir kveðju til háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) frá háttv. þm. Dal. (B. J.), sem nú er andaður, en með því að nú er orðið áliðið og eg hefi ekki heilsu til að tala lengi svo síðla dags, fremur en endranær, held eg að eg láti staðar numið í þetta skifti.