29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1013 í B-deild Alþingistíðinda. (1243)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Sigfússon:

Eg verð að biðja menn afsökunar á því, þótt eg segi ef til vill eitthvað, sem aðrir hafa drepið á. Eg hefi ekki getað verið á fundi og hlustað á allar ræður hv. þm., vegna lasleika, svo að það verður óviljandi, ef eg fer með endurtekningar.

Eg skal þá fyrst minna á það, að það er ekkert þingmál, sem íslenzka þjóðin virðist nú hafa jafn eindreginn hug á, sem breytingar á stjórnarskránni. Það er líka mjög eðlilegt að meðan svo standa sakir, að Danir fást ekki til að sinna kröfum vorum í sambandsmálinu, þá snúist hugir manna að því að breyta þeim ákvæðum stjórnarskrárinnar, sem við höfum full ráð á, og sem nú standa okkur mest fyrir þrifum. Af þeim aðalatriðum skal eg láta mér nægja að nefna t. d. kosningarrétt og kjörgengi kvenna og afnám konungskosninga til alþingis. Síðan þingræði, sem á, að vera sama sem þjóðræði, var hér viðurkent í orði kveðnu kemur sú tilnefning í beran bága við það, að þjóðin fái að ráða sínum málum. Um það dirfast menn nú ekki að þræta lengur, þó reynslan hafi sýnt, að þeir voru ýmsum kærkomnir á þessu þingi eins og áður. Eg tel það helga skyldu okkar að gera alt, sem í okkar valdi stendur, til þess að koma fram nauðsynlegustu breyting­unum. Við getum ekki forsvarað það, að fara heim án þess að hafa gert það. Þess vegna er varlegra að taka ekkert það inn í breytingarnar, sem við óttumst að verði til að hindra staðfestingu. Af því leiðir, að eg þori ekki að greiða atkvæði með sumum af breyt.till. þeirra hv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.) og þm. Dal. (B. J.), þó eg sé samþykkur efni þeirra, enda viðurkendi annar þeirra, að ein breyt­ingin, fæðingjarétturinn, væri þess eðlis, að hætt væri við, að hún gæti orðið frumv. þrándur í götu.

Ein brtill., sem fram hefir komið, frá hv. þm. N.-Ísf. (Sk. Th.), er um árlegt þinghald. Eg heyrði í gær og í morg­un, að tveir þm., sem talað hefðu, væru eindregið með þessari tillögu, og nú síðast mælti hæstv. ráðh. (Kr. J.) líka með því. Mér þykir þetta kynlegt, því að eg get ekki séð, hvaða hnoss það er, að hafa þing árlega. Meðal annara ástæðna var sú flutt fram till. til stuðnings, að hætt væri við, að þingmenn legðu stjórnmálin alveg á hilluna, ef svo langur tími, sem nú er, liði á milli þinga. Mér þykir þessi ástæða satt að segja nokkuð undarleg. Eg skil ekki í því, að sá maður, sem er svo áhugalítill og rænulaus, eigi skilið að fá sæti á alþingi. Eg hygg þvert á móti, að landsmálin séu alt af vakandi í huga þingmanna, sem eru að nokkru nýtir, hvort sem þeir eru á þingi eða heima hjá sér, og þessi ástæða sé því algerlega röng. En svo er þess að gæta, að það eru margir agnúarnir á því að hafa þing á hverju ári. Því fylgir afarmikill kostnaður; ferðakostnaðurinn eykst um helming frá því sem nú er. Þingvinnan er ætíð ódrjúg í þingbyrjun og sömuleiðis síðari hluta þings, einkum síðusta vikurnar. Kostnaðurinn við þinghaldið mundi tvöfaldast, ef þing yrði haldið á hverju ári. Eg álít heppilegast, að þingið sé að eins hald­ið annaðhvort ár, eins og nú er, en að það væri lengur saman í hvert sinn, ef þess gerðist þörf. Eins og háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) tók fram, er það mikill munur fyrir menn sem mikið hafa að starfa, hvort þing er haldið árlega eða annaðhvort ár. Bændur, kennarar, sýslumenn, læknar o. fl. eiga nálega ómögulega heimangengt á ári hverju. Það liggur í augum uppi, að það er sitthvað að yfirgefa heimili sín og aðalstörf um tíma annaðhvort ár, eða altaf á hverju ári. Ekki mundi sú nýbreytni fjölga góðum bænd­um á þingi. Það yrði varla öðrum fært að taka það að sér en einhleypum lausamönnum. Eg fyrir mitt leyti mun greiða atkvæði móti þessari breytingartillögu.

Þá vildi eg minnast á kosningarrétt kvenna. Háttv. 1. þm. S.-Múl. (J. J.) hefir komið fram með breytingartillögu um að skamta konum þennan rétt smátt og smátt á 15 árum, þannig að í fyrsta sinn verði ekki yngri konur en 40 ára settar á kjörskra, næsta ár 39 ára o. s. frv. Mér virðist undarlegt mjög, að h. þm. skuli vera að þrátta um þetta, því að í raun og veru er hér ekki um annað að ræða, en hin sjálfsögðustu mannréttindi, sem hingað til hefir verið haldið fyrir öðrum helm­ing mannkynsins. Þegar menn eru nú samdóma um það, að rétt sé að rýmka kosningarréttinn yfirleitt — og því vil eg fylgja — þá tel eg einsætt að láta það ganga jafnt yfir karla og konur, eða fullkomið jafnrétti. Breytingartillaga hins háttv. þm. S.-Múl. (J. J.) fer alveg í bága við þetta, því hún gerir ekki ráð fyrir að skamta karlmönnum þennan sama rétt á 15 árum, og þar kemur fram misrétti, sem eg tel alveg rangt.

Það er eins og sumir háttv. þm. séu hræddir við einhverja óttalega byltingu, sem leiði af því, að kvenfólkið fái kosn­ingarrétt. Eg hefi ekki orðið var við þennan ótta hjá mönnum út um land, það er helzt hér í Reykjavík. Hefi eg spurst fyrir um ástæður fyrir því og fengið þau svör, að hér hafi það sýnt sig, að ýmsar konur séu töluvert æstar og tilfinningasamar í kosningamálum. Vel má vera, að þetta sé rétt, en eg held þeir athugi ekki, að það er engin furða þótt kvenfólkið finni sárt til þess, að vera miklu lægra sett í þjóðfélaginu en karlmennirnir, og af því stafi eðlileg beiskja. En sú beiskja mundi algerlega hverfa, þegar jafnrétti er fengið. Kvenfólkinu er stórmikil vorkunn á að vera haft svona út undan, og er mál til kom­ið að kippa þessu í lag.

Annars má benda á það, að fjöldi karlmanna eru ekki síður æstir og tilfinningasamir í kosningamálum. Munurinn er bara sá, að hjá þeim þykir það ekkert tiltökumál. Þeir eiga að hafa einkarétt til að hamast við kosningar, hvaða meðölum, sem þeir beita. Varla mundu konur verða óvandaðri í þeim sökum, þvert á móti, líklega miklu samvizkusamari.

Eg skal geta þess, að eg felli mig vel við tillögu háttv. 1. þm. Skagf. (Ó. Br.) um að þingmenn skuli vera 36 að tölu, eða þrennar tylftir. Aftur á móti get eg eigi felt mig vel við þá tillögu, er fram hefir komið um, að ráðherra einn skuli hafa tillögurétt um fjárveitingar. Eg tel slíka tillögu mjög varhugaverða. Það er að vísu full þörf á, að takmarka þennan tillögurétt, en að taka hann frá öllum öðrum en ráðherra, gæti leitt til hættulegs einveldis í fjármálum. Hitt er augljóst orðið, bæði á þessu þingi og áður, að það er afaróheppilegt, og geysilegur tímaspillir, að sérhver þm. geti komið með heila hrúgu af tillögum um fjárveitingar inn á þingið, sem oft eru vanhugsaðar og frekjufullar. En eg vil þó ekki ganga lengra í þessari takmörk­un, en að binda það við tillögur ráðherra og bæði meiri- og minnihluta fjárlaganefnda í báðum þingdeildum.