09.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 274 í B-deild Alþingistíðinda. (125)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Kristjánsson:

Eg hefi leyft mér að koma með br.till. á þskj. 972. Hún hefir verið alloft á ferðinni í báðum deildum. Ed. kipti þessum orðum út úr liðnum, en eg skil ekki hversvegna. Það virðist engin ástæða vera til þess, því að samningurinn, sem gjörður hefir verið við Thore-félagið, er í alla staði löglegur, og er því alveg rétt að vísa í hann. Eg geri mér því beztu vonir um, að br.till. verði samþykt — Þá vil eg minnast á br.till. á þgskj. 963, frá okkur þm. G.-Kjós. Hv. meðþingmaður minn hefir þegar tekið það fram. að það er praktiskara að veita þessa upphæð alla nú í einu lagi, en að skifta henni á fleiri fjárhagstímabil. Það er dýrara að gera út fáa menn, og láta þá vinna lítinn hluta af verkinu í einu, en að gera það alt í einu með fleiri mönnum. Eg vona því, að br.till. nái fram að ganga, og það því fremur, sem hún var samþykt með 18 atkv. í Nd. Mig furðar annars á þeirri hörku, sem Ed. hefir beitt á þessu þingi, því að það hefir alt af verið venja í Ed. að hreyfa ekki við fjárveitingum, sem hafa verið samþyktar með miklum atkvæðamun í Nd.