03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (1255)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Skúli Thoroddsen:

Eg stend að eins upp til þess að lengja tímann til atkvæðagreiðslu, því að það er verið að prenta brtill. við frv. frá mér. Till. mínar fara aðallega í þá átt, að reyna að bæta úr þeim vandræðum, sem orðin eru á skipun Ed. Eg get tekið undir það með hv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), að mér er ekki kunnugt um, að neinar óskir hafi komið fram frá þjóðinni um þessa Ed. skipun. Óskirnar voru um það, að konungkjörnir þingmenn væru afnumdir og þjóðkjörnir kæmu í staðinn, sem allir væru kosnir af sömu kjósendum á sama hátt. Mér er ekki kunnugt um, að á þingmálafundum hafi komið fram neinar óskir um það, að skapa íhald, heldur þvert á móti, því að einmitt það var aðallega fundið að kgkj. þm., að þeir væru of íhaldssamir. Verði nú samþyktar tillögur meiri hluta nefndarinnar, þá verður að fækka 8 kjördæmum, og það er hætt við, að það veki megna óánægju víða, eða að minsta kosti í þeim kjördæmum, sem svift eru þingmönnum. Eg gæti sætt mig við þetta fyrirkomulag, að 10 þm. væru kosnir til Ed. með hlutfallskosningum um alt land, ef kjörtímabil Ed. væri ekki lengra en Nd. Brtill. mínar fara því í þá átt, að miðla svo málum, að 10 þm. séu kosnir til Ed. með hlutfallskosningum um alt land, en að eins fyrir jafn langt kjörtímabil og þingmenn eru kosnir til Nd. og þingrof nái til beggja deilda. Þegar kosið er til beggja á sama tíma, þá getur þessi nýbreytni ekki orð­ið til þess að spilla með íhaldssemi fyrir nytsömum málum, sem þjóðin vill að gangi fram. Það er annars mesti misskilningur, að við eigum að vera að reyna að stofna nokkuð íhald. Við höf­um sannarlega nóg af því. Og hvað er það, sem við þingmenn, sem kosnir erum til alþingis, erum að vinna eða eig­um að vinna? Við erum einmitt að fá bætur á því, sem menn eru óánægðir með. Við eigum að sefa óánægjuna sem fyrst og bezt við getum, og til hvers eigum við þá að hafa íhaldssemina? Það er sagt, að síður sé hætt við, að við hlaupum gönuhlaup. En eg segi fyrir mitt leyti, að eg kýs mik­ið heldur, að kannske eitthvað verði samþykt hér í fljótræði, en að mestu nytsemdarmál séu dregin ár frá ári. Eg vona því að háttv. deild hugsi sig vel um, áður en hún ræðst í þessa breytingu. Við megum heldur ekki gleyma reynslu annara þjóða, þar sem þing hefir verið tvískift og þeirri baráttu, sem oft hefir risið milli þingdeildanna. Jafnvel þó við eigum, eftir þessu nýja fyrirkomulagi að hafa sameinað þing, þá getur það þrásinnis komið fyrir, að stjórnin þykist geta setið að völdum, þótt hún hafi alla Nd. á móti sér, ef hún hefir Ed. með sér. Eg vona því að brt. mínum verði vel tekið. Að öðru leyti skal eg ekki fara mörgum orðum um málið. Eg hallast yfirleitt að brtill. þeirra háttv. 1. þm. Rvk. (J. Þ.), háttv. þm. Dal. (B. J.) og háttv. þm. N.-Þing. (B. S.) t. d. að setja hér inn aftur ákvæðið um kosningarrétt vinnuhjúa, sem samþykt var hér í deild­inni. Það er síður en svo, að verið sé að gera bændum neitt þægt verk með því, að neita hjúum um kosningarrétt. Það er hætt við, að margur maðurinn vildi ekki vista sig, ef hann misti rétt­indi sín við það og er slíkt ekki heppi­legt, eins og nú stendur á, þar sem erfitt er að fá vinnufólk. Till. meiri hl. um það, að breyting á sambandinu milli Danmerkur og Íslands skuli fara með eins og stjórnarskrárbreytingu, álít eg óheppilega og vona að hún fái sömu afdrif hér í deildinni og seinast. Það ákvæði er ekki til annars en að gera örðugra fyrir, ef »eo ipso« á að rjúfa þing, þegar breyting er gerð af alþingi, þó að engin von sé um árangur. Eg hallast því fremur, að því er þetta atriði snertir að breyt.till. minni hlutans.