03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1055 í B-deild Alþingistíðinda. (1259)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Björn Sigfússon:

Eg ætlaði að minnast á brt. á þgskj. 837. Mig furð­ar ekki á því, þótt hv. flutnm. komi með þá, tillögu; hann hefir jafnan hald­ið þeirri skoðun fram, sem kemur fram í þeirri tillögu, að halda fast við vetrarþingin. En mig furðar á því að heyra hv. framsögum. leggja till. liðsyrði. Formælendur háskólans — og hann er einn af þeim — hafa flestir haldið því fram, að þinghald og háskólahald gæti ekki farið saman, ef háskólinn á að vera í þinghúsinu, og það er vitanlega alveg rétt. Það er hvorttveggja, að rúmið er of lítið og óhentugt til þess, auk þess sem það mundi trufla hvort annað.

Það er annars töluvert eftirtektaverð aðferð, sem beitt hefir verið í þessu háskólamáli. Meðan verið var að »agitera« fyrir því að setja fjárveitingu til háskólans inn í fjáraukalög og fjárlögin var reynt að blekkja menn með því, að óhætt væri að samþykkja það, þar sem efri deild væri búin að setja inn í stjórnarskrárfrv., að þing skyldi byrja 17. júní. En óðara en þetta frv. kemur til þessarar deildar, kemur tillaga um að færa tímann aftur til vetrarins. Það er jafn óheilt alt þetta atferli, sem snertir háskólahumbuggið, og það er þinginu, eða þeim sem því valda, til ævarandi vanvirðu.

Ef þessi tillaga verður samþykt, þýðir það ekkert annað en það, að á næsta þingi verði farið fram á að byggja hús handa háskólanum, og mun þá verða óhætt að ætla til háskólans, ekki 34 þús. kr., eins og nú er á fjárlögunum, heldur 134 þús. kr. Eg vil skora á menn að greiða atkv. móti þess­ari tillögu til þess að halda ekki alt af áfram að bæta gráu ofan á svart.