09.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í B-deild Alþingistíðinda. (126)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Sigfússon:

Eg skal geta þess, að við flutningsmenn brtill. á þskj. 961 tökum hana aftur. En eg vil minnast nokkrum orðum á brtill. á þskj. 967 og í sambandi við hana á brtill. á þskj. 973. Við þm. Húnv. höfum leyft okkur að bera fram nú þá sömu brtill., sem við allar umræður er búið að samþykkja í Nd. með miklum atkvæðamun, nefnilega að veittar verði til kvennaskólans á Blönduósi kr. 5,500 hvort árið. En af því að hv. Ed., sem hafði algerlega felt allan styrk til skólans við þrjár umræður, færði nú við síðustu umræðu þessa upphæð niður í 3000 kr. og áskildi auk þess 750 kr. tillag annarstaðar frá, þá vildum við nú svo sem til samkomulags taka upp í brtill. okkar þetta skilyrði um 750 kr. framlag á móti frá sýslufélaginu, en förum aftur fram á sömu upphæð, sem áður var samþykt í Nd. En nú er fram komin brtill. við okkar till. frá hv. 4. kkj. þm. (St. J.), um að hækka þetta áskilda framlag annarstaðar frá upp í kr. 1350. Þessi brtill. þykir okkur ganga æði langt, og vera æði frekjufull. Eg minnist þess ekki, að jafnhátt framlag á móti hafi nokkurn tíma verið áskilið sem skilyrði fyrir fjárveitingu til nokkurar mentastofnunar. Eg vona því að þingið sýni þá sanngirni að samþykkja okkar till. Það getur engum dulist, að nú, þegar á að byggja skólann upp aftur, þá verður sýslan að leggja afarmikið fé fram, bæði til bygginga og áhalda. Auk þess hefir það lent á sýslunni í vetur að hlaupa undir bagga með mörgum nemendum og kenslukonum á skólanum, sem urðu fyrir stórtjóni við brunann. Um leið vil eg geta þess, að einmitt vegna þess að svo mjög. hefir dregist að útkljá þetta mál á þingi, þá er undirbúningur undir byggingu skólahússins mjög stutt á veg kominn. Eg fekk t. d. fyrst í gær uppdráttinn að því. Afleiðingin af þessu öllu verður, að ekki verður hægt að taka húsið til afnota nú í haust; það getur ekki orðið fullgert þá. Það verður því óhjákvæmilegt að leigja annað húsnæði fyrir skólann í þrem húsum, og veldur það auðvitað miklum aukakostnaði. Sumir hafa sagt, að þá væri bezt að láta skólahaldið falla niður næsta vetur. En á því eru þau vankvæði, að það er brot á reglugerð skólans, og auk þess yrði, hvort sem er, að greiða kenslukonum ákveðin laun þeirra, þó þær ynnu ekki að kenslu. Þær eiga heimting á því og væru rangindum beittar ella. Það getur því ekki komið til mála að skólinn. starfi eigi næsta vetur.

Það gladdi mig að heyra, að hv. 4. kgk. sem virðist vera eitthvað illa við þennan skóla, tók þó nú aftur þau ummæli sín að hann hefði aldrei annað verið en sýsluskóli. Hann hefir sannfærst um það gagnstæða, og er ætíð gott, ef menn taka aftur ósannindi, þegar sýnt er fram á þau. Eg efast um að hægt sé að benda á annan skóla, sem hefir verið landsskóli framar en þessi. Það hefir verið margsannað og sýnt með skólaskýrslunum. Hitt er annað mál, að allir skólar, og þessi líka, hefir haft fleiri nemendur úr nágrenninu.

Brtill. um að færa framlagið annarstaðar frá upp í 1350 kr. virðist ekki vera fram komin af góðum hvötum, heldur einungis til þess að hnekkja þessari fjárveitingu. Fjárveitingar til slíkra skóla hafa aldrei verið miðaðar við vissa tölu nemenda og má í því efni sérstaklega benda á bændaskólana, og þá ekki síður embættaskólana, enda er það óeðlilegt, því að kostnaðurinn við skólahaldið fer ekki eftir því, hvort nemendurnir eru eitthvað ofurlítið fleiri eða færri; það hefir engin áhrif á það, hversu marga kennara þarf við skólann. Vitanlega standa þeir skólar bezt að vígi, sem eru í fjölbygðum kaupstöðum, einkum í Reykjavík, því þeir eru alt af fullskipaðir. — Þá vil eg minnast lítið eitt á brtill. okkar á þskj. 970, um að fella burt það skilyrði fyrir fjárveitingunni til Hvammstangavegarins, að jafnmikið tillag skuli koma annarstaðar frá. Það sem eg legg aðaláherzluna á er það, að þessi vegur verður án efa innan skamms flutningabraut, nefnilega frá Hvammstanga til Blönduóss. Þetta er líka álit vegaverkfræðingsins, sem var fyrir norðan í sumar sem leið. Það kemur skilmerkilega fram í umsögn hans um það mál. Þegar þessi vegur er orðinn flutningabraut, þá verður landsjóði búið að sparast mikið fé, með því sem sýslan hefir lagt fram. Auk þess vil eg minna á, að landsjóður hefir stundum lagt fram fé til slíkra fyrirtækja, án þess að áskilja nokkuð framlag í móti. T. d. má nefna fjárveitinguna til bryggjunnar á Akranesi, er samþykt var í Ed. nú fyrir stuttu. Ekki er þar áskilið framlag á móti, og þó er það ekkert annað en viðgerð, sem sumum öðrum þótti smásálarlegt að heimta af landsjóði.

Um Bjargtangavitann hefir það verið sagt, að nægilegt mundi vera að hafa að eins lítinn og ódýran vita þar; þá skil eg ekki, því þeir sömu menn leggja svo mjög í móti honum. Álíti vitaverkfræðingurinn að þar dugi lítill og ódýr viti, fer stjórnin náttúrlega eftir því og mikið af fénu sparast, eins og við Dyrhólavitann. Annars vil eg líka benda á, að það hefir iðulega komið fyrir, að vitar hafa orðið ódýrari en áætlað var.

Mér er í móti skapi að eyða tímanum, og skal því láta þetta nægja.