03.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1059 í B-deild Alþingistíðinda. (1262)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Einar Jónsson:

Það liggur næst fyrir mér að byrja ræðu mína með sömu orðum og háttv. samþingismaður minn (E. P. ) að heppilegast sé að taka sem minst til máls, því það stendur æðimik­ið á skriftum á ræðum þingmanna, og það væri óskandi, að forseti sæi svo um, að ræðum þeirra þingmanna, sem ekki eiga heima hér í Reykjavík, yrði sem fyrst lokið. (Bjarni Jónsson: Fjölga skrifurunum). En eg skal ekki fjölyrða meira um þetta, en mun beina máli mínu sérstaklega að fjórum atriðum, sem eg finn ástæðu til að minnast hér á háskólann, þingtímann, kosninguna til Ed. og kosningarrétt vinnuhjúa.

Háttv. 2. þm. Húnv. (B. S.) fór að sumu leyti eðlilegum orðum um háskól­ann, þótt orð hans væru mestmegnis fullyrðingar einar. Mér virðist, að góð tök séu á því að halda háskóla hér í þinghúsinu, þótt þing sé háð á sama tíma og nú er. Eins og nú er komið fjárhag okkar, höfum við ekki efni á að efna til nýrrar og dýrrar háskóla­byggingar, og ef nú á að fara að byggja nýtt hús handa háskólanum, þá hefði verið réttara að fresta því máli fyrst um sinn, enda þótt fróðir og mentafúsir menn álíti mikla þörf og framför, þjóð­ar innar vegna, í háskólastofnun hið fyrsta. En eg ætla að sleppa að tala um þetta, það hefir verið svo margt um það sagt áður, en mitt atkvæði um þetta mál er því skilyrði bundið, að húsnæði notist hér í þinghúsinu, en eigi verði kostað til nýrrar byggingar.

Um þingtímann er það að segja, að eg álít óheppilegt að flytja samkomudag þingsins til sumartímans. Raunar eru það meiri peningaútgjöld fyrir landið að hafa þing að vetrinum. En ef tekið er tillit til alls, og þá ekki sízt þeirra manna, sem fjarlægir eru sínum eigin heimilum allan þingtímann, þá mun það þó verða ódýrara yfir höfuð. Eg hefi að vísu aldrei reynt það, að dvelja á alþingi yfir sumarið, en mér skilst, að það muni vera fremur þreyt­andi líf að vera innilokaður á ergjandi fundum, þegar úti skín »júnísólin heið« og löngunin til þess að vera fremur úti staddur en inni, ríkir hvað mest hjá hverjum heilbrigðum manni. Gæti eg búist við, að þeir þingmenn, sem jafn hvikulir eru í sætum sínum og starf­rækslu, sem ýmsir þeirra eru nú, þó vetur sé, yrðu það eigi síður að sumri til og þá er þess eigi sízt að gæta, að júní, júlí og ágúst eru dýrustu annamánuðir allra bænda og fjölda manna annara. Því mun eg greiða atkvæði móti því, að þingtíminn sé fluttur til sumarsins.

Þá kem eg að 3. atriðinu, sem eg ætl­aði að minnast á, kosningin til efri deild­ar. Eg get ekki hrundið því frá mér, að eg álít það viðsjárvert og athugavert að kjósa alla þingmenn til efri deildar með hlutfallskosningu um land alt. Mér skilst ekki, að þjóðin geti orðið ánægð með þetta fyrirkomulag. Því ef þetta yrði, þá mundu fáir aðrir sitja þar, en gamlir embættismanna þjarkar, einkum úr Reykjavík. Það geta verið greindir og góðir menn í mörgum tilfellum, en það eru ekki þeir, sem vita bezt hvar skórinn kreppir að í fjársökum og atvinnugreinum, né það, hvað fjöldanum er fyrir beztu alment. Í öðru lagi mun þjóðin ekki gera sig ánægða með hina nýju kjördæmaskiftingu, sem af því hlyti að leiða að öll efri deild — 14 menn — væri þannig kosin. Þau kjördæmi, sem nú senda tvo þingmenn, munu ekki gera sig ánægð með að senda framvegis að eins einn þingmann, þó aldrei nema segja megi, að allir eigi tiltölu í þeim embættismannabunka, sem í efri deild sætu. Og sum kjördæmi, sem nú senda einn mundu engum þingmanni koma að, ef þetta yrði samþykt. Þess vegna álít eg breytingartillöguna, sem fyrir liggur, um að aðeins 10 þingmenn til efri deildar séu kosnir með hlutfallskosningu en 4 valdir úr neðri deild, miklu aðgengi­legri. Eg felli mig mun betur við það. Vildi að vísu helzt hið þriðja, er fyrir liggur, 7 og 7, en með því að eg hefi vissu fyrir að það ákvæði yrði stjórnar­skránni að falli í efri deild, legg eg ekki út í að fylgja því.

Þá kem eg að 4. og síðasta atriðinu, sem eg vildi minnast á, kosningarrétt vinnuhjúa og skal eg strax lýsa því yfir að eg er mjög óánægður með það, að nokkurt það ákvæði komist inn í lög — og þá sérstaklega stjórnarskrá —, sem takmarki frekar rétt vinnuhjúa, en lausafólks. Í því getur engin sanngirni falist. Eg tek í strenginn með öðrum háttv. þm., sem um þetta hafa talað á þenna máta, að það er ekki nokkur sanngirni í því, að vinnuhjú hafi ekki sama rétt til að kjósa og lausamenn. Eg veit, að margir eru óánægðir með það að hjúin hafi ekki sama rétt og lausamenn í hverju sem fyrir kemur. Eg veit, að margt vinnufólk, er ekki það skyni skroppið, að það muni ekki fljótt segja við okkur, þegar við erum að fala það í víst: »Nei, góði minn. Eg vil vera lausamaður en ekki hjú, þá hefi eg réttinn til þess að kjósa, annars ekki«. Það er mjög óhyggilegt, að hafa nokkuð það ákvæði í lögum, sem aftrar því, að hjúin hafi sama rétt og lausa­menn, því reynslan hefir sýnt, að »hjú­in gera garðinn frægan« og eru landbændum og búnaði í flestum tilfellum hagfeldari og uppbyggilegri en lausafólk, yfirleitt ráðdeildarsamara og sam­heldnara á eigum sínum, en lausamenn­irnir, sem almennast eiga aldrei neitt til og eru landsins mestu óreiðumenn. Eg er svo mikill hjúa- og sanngirnisvinur, að þessari breyting um kosningarrétt­inn er eg eindregið á móti og vona að meiri hluti háttv. þingmanna verði mér samdóma, þegar til atkv.gr. kemur.