04.05.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (1266)

108. mál, stjórnarskipunarlög

Bjarni Jónsson:

Eg vildi lýsa því yfir, að þinghald og háskólahald kemur í bága hvort við annað. (Framsögum: Hvernig í vetur?) Það getur gengið eitt ár, þó að það gangi ekki í 50 ár. Þetta er bara gert til að skapa grímu. Einn þm. sagði, að hitinn hefði skaðleg áhrif, en hefir hann þá ekki athugað kuldann.

Þá vil eg víkja að vinnuhjúa kosn­ingarréttinum. Eg skil ekki ástæður þeirra, og kæri mig ekki um að heyra þær meira útlistaðar. Þetta er hneyksli eins og eg sagði áðan.

1. þm. S.-Múl. (J. J.) sagði rétt um í hverju skoðanir okkar lægju. Eg er í engum efa um, að rétt væri að kosið væri 2. eða 3. hvert ár. Það mundi þroska þjóðina, að koma sem oftast að kosningaborðinu. En ilt er að hafa kosningar að eins 5. eða 6. hvert ár, því að þjóðin mundi þá ekki fá næga æfingu.

Annað er það líka, sem við erum ósammála um, og það er rýmkun kosning­arréttarins. Hann segir að hún muni koma öllu á ringulreið, en vill hafa deildarskipunina sem mótvog. En nú er þess að gæta, að þar sem konum er gefinn kosningarréttur, að konur eru íhaldssamari og er því engin hætta á hvirfilbyljum. Tilfinningar þeirra eru stöðugri, það er sögunnar kenning.

Eg vil því lýsa yfir eins og hann, að ef þessar litlu breytingar okkar ná ekki fram að ganga, þá verð eg á móti málinu. Eg hefi eins góða von á því, að á næsta þingi sitji ekki óvitrari menn en nú og að ekki verði meira vagl á sálarsýn þeirra en hinna, sem eg á nú í höggi við.