09.05.1911
Sameinað þing: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 278 í B-deild Alþingistíðinda. (127)

111. mál, fjárlög 1912-1913

Björn Þorláksson:

Eg stend upp til að gera grein fyrir brtill. minni á þskj. 971. Hún fer fram á það, að feld verði niður alt að 6000 kr. fjárveiting til þess að byggja leikfimishús á Hólum. Eg segi ekkert nýtt, en segi að eins það, sem eg sagði við eina umræðu í Nd., þegar þessi fjárveiting var þar til umræðu. Á fjáraukalögunum fyrir 1910—11 voru veittar 3000 kr. til aðgerðar á gamla skólahúsinu á Hólum, og ætti það að vera nægilegt til þess að húsið geti orðið í góðu lagi. Undanfarin ár hefir kjallarinn í því húsi verið notaður til þess að kenna leikfimi í, og þótt vel fara að dómi kunnugra manna, og hygg eg að vel megi notast við hann enn þessi 2 árin. Slík fjárveiting yrði því að kallast óþörf eyðsla, ekki sízt nú, þegar svo mjög er kvartað um að fjárhagur landsins sé slæmur. Sumir kunna að segja, að ósamræmi sé í því að neita um þessa fjárveitingu, þar sem búið er að veita á fjáraukalögunum 2000 kr. til að gera leikfimishús á Hvanneyri, auk efnisafgangs frá skólahúsinu, er áætlað var að nemi 2000 kr. Þess vegna hefi eg líka, auk aðaltill., um að fella alla fjárveitinguna burt, borið fram varatillögu um að færa upphæðina niður í 4000 kr. Með því móti fengi Hólaskóli jafnmikið og Hvanneyrarskólinn fær í raun og veru. Eg vona, að þessi tillaga verði samþykt, og það því fremur, sem hún er eina brtill. við fjárlögin nú, sem fer fram á lækkun.

Úr því eg stóð upp, vil eg minnast nokkuð á orð hv. 4. kgk. þm. Hann gerði grein fyrir því, hvernig fjárhagur landsins yrði nú eftir fjárlögunum, eins og þau koma frá Ed. Hann skýrði frá því, að tekjuhallinn mundi nema hér um bil 400 þús kr. — En svo bætti hann því við, að tekjur af áfengistolli mundu vera áætlaðar 100—150 þús. kr. hærra en rétt væri. Eg vil mótmæla því, að áfengistollurinn sé áætlaður of hátt í fjárlögunum, og held eg því fram, að áætlun fjárlaganefndar Nd. sé á meiri rökum bygð en skoðun þeirra, er telja hana of háa. Annars mun reynslan skera úr því, hverjir hafa réttara fyrir sér. En það skyldi gleðja mig, ef áætlunin í þessu efni reyndist of há og minna áfengi flyttist inn en gert er ráð fyrir; því minna áfengi, sem flyzt inn í landið, því minna mun verða drukkið og því minna verður bölið, sem af því leiðir.

Það hefir verið minst á fjárhag landsins, líklega í þeim tilgangi, að menn hugsuðu sig vel um, áður en menn samþykkja þessar breytingartillögur, sem hér liggja fyrir, og sem fara fram á aukin útgjöld, um 50 þúsund kr. Það er þannig um þessar tillögur, að eg mun greiða sumum þeirra atkvæði og sumum ekki. Úr því eg er byrjaður á því að tala um tekjuhallann, þá vil eg einnig minnast á, hverjum hann er að kenna, því þótt fjárlögin séu nú afgreidd með 400 þúsund kr. tekjuhalla, og nú í dag verði samþyktar í viðbót um 40,000 kr. og hér við bætist 107 þúsund kr. á fjáraukalögum, eða samtals um 550,000 krónur, þá hefir annað eins og jafnvel verra sést áður. Í fjárlögum frá þinginu 1907 var tekjuhallinn 525,000 kr. Reyndar stóð í frumvarpinu að tekjuhallinn væri einungis 25 þús. kr. En tekjumegin var til fært lán, er taka mætti, að upphæð 500,000 kr., svo að sá sanni tekjuhalli var þá 525,000 kr. Á fjáraukalögum þá voru útgjöld að upphæð 161,000 kr., þetta alt samtalið 686,000 kr. Og í þetta skifti vóru engin lög samin, er gæfu tekjur til nokkurra muna.

Af þessu má sjá, að tekjuhallinn áætlaði 1907 var 136 þús. kr. hærri en nú, og í raun og veru miklu hærri, þegar þess er gætt að nú hafa verið samin lög, er munu gefa um 200,000 kr. tekjur, en þá var engu slíku til að dreifa.

Annars vil eg taka það að endingu fram, þeim til huggunar á þingi og utanþings, sem virðast vera hálf-sturlaðir út af hinum afarbága fjárhag, að í raun og veru sé fjárhagurinn ekki svo afar-vondur og miklu betri en 1907 og jafnvel oftar. Tekjuhallinn taldist mér áður 550 þús. kr. Frá því dragast tekjur eftir hinum nýju lögum 200,000 kr. Verða þá eftir 350,000 kr. Nú vitum við það, að í mörg ár hafa tekjurnar ávalt farið fram úr áætlun, og það er engin ástæða til að halda, að tekjurnar í heild sinni reynist ekki nokkru meiri á næsta fjárhagstímabili, en þær eru áætlaðar. Gæti því svo farið, að tekjuhallinn í reyndinni yrði mjög lítill eða jafnvel enginn.

En við skulum gera ráð fyrir því versta og setja tekjuhallann 350,000 kr. að frádregnum þeim tekjum, er nýju lögin gefa. Þá vil eg spyrja; Hverjum er þetta að kenna? Af því þetta verður í síðasta skifti, sem eg tala á þessu þingi, þá skal eg taka það greinilega fram, hverjum það er að kenna, ef tekjuhalli verður, hvort sem hann verður mikill eða lítill. Það er þeim að kenna, sem ekki hafa viljað samþykkja það frumvarpið, er miklar tekjur hefði gefið og eflaust svo miklar, að enginn tekjuhalli hefði þurft að verða; eg á við farmgjaldsfrumvarpið. Það eru þessir menn, sem bera ábyrgð á hinum væntanlega tekjuhalla. Þeir, og engir aðrir, verða að bera ábyrgðina.