18.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1080 í B-deild Alþingistíðinda. (1275)

130. mál, tollalög

Framsögum. (Ólafur Briem):

Út af ummælum háttv. þm. S.-Þing. (P. J.) skal eg geta þess, að ákvæði í líka stefnu og hann benti á var tekið upp í tillögum milliþinganefndarinnar í skattamálum. Stjórnin hefir sleppt því í sínu frumv. — mér er ekki kunnugt um af hvaða ástæðu. Nefndin tók þetta atriði því ekki til neinnar sérstakrar íhugunar, en mun gera það nú, er hún hefir heyrt athugasemd háttv. þm. S.-Þing. (P. J.). En það er vissara fyrir háttv. þm., ef honum er þetta nokkuð kappsmál, að koma með sérstaka breyt.till. við 3. umr. Tillaga í þessa átt lá ekki fyrir nefndinni og kemur athugasemd háttv. þm. því ekki beinlínis við tillögu nefndarinnar, sem að eins snertir toll af tóbaksblöðum, sem notuð væru til böðunar.