21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1083 í B-deild Alþingistíðinda. (1279)

130. mál, tollalög

Framsögum. (Ólafur Briem):

Nefndin hefir leyft sér að koma fram með nokkrar breyt.till. við frv., eins og það var samþykt hér í deildinni við 2. umr.

Það er fyrst breyt.till. við 3. lið á þgskj. 666, sem miðar að því, að gera gleggri greinarmun á þeim drykkjarföngum, sem heyra undir 3. og 4. lið. Í till. er gerður greinarmunur á þeim drykkjarföngum, sem ekki eru sérstaklega nefnd, eftir því hvort þau eru áfeng eða óáfeng. Ef þau eru óáfeng, heyra þau undir 3. lið með 50 aura toll af lítra, en séu þau áfeng heyra þau undir 4. lið með 1 kr. toll af hverjum lítra. Tillagan er ekki efnisbreyting, en miðar að því að útiloka allan misskilning.

Háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) hefir komið fram með breyttill. á þgskj. 672 þess efnis, að tollur á sódavatni sé hækkaður úr 2 aurum upp í 3 aura. Nefndin getur ekki fallist á þessa tillögu, því að hún vill ekki gefa tilefni til þess, að þessi tollur verði skoðaður sem verndartollur fyrir innlendri sódavatnsgerð. En til þess að varna því má tollurinn alls ekki vera hærri en 2 aurar. Yrði hann færður upp, hlyti það að hafa í för með sér, að sérstakt gjald yrði að leggja á innlenda sódavatnsgerð, en það vill nefndin ekki leggja til að svo komnu. Nefndin var raunar ekki öll á einu máli um þessa tillögu, en meir hl. var mótfallinn henni af þessum ástæðum, sem eg hefi tekið fram.

Þá hefir nefndin komið fram með brt. á þgskj. 664 við seinustu málsgrein 1. gr. frv., liður breytingartillögunnar hljóðar um það, að ef lögreglustjóri, sem á að rannsaka skipsforða, er ekki viðlátinn sjálfur, skuli löggiltur umboðsmaður hans gera það og beri honum þá öll borgun fyrir starfið. Inn í þessa sömu grein leggur nefndin ennfremur til að sett sé það ákvæði, að bryti skipsins skuli skyldur til þess að láta lögreglustjóra eða umboðsmanni hans í té skriflegt drengskaparvottorð um allar þær tilskyldar vörur, er hann hefir hönd yfir. Nú er að eins skipstjóri skyldur til þess, en til þess að eftirlitið verði enn betur tryggt vill nefndin skylda brytann til þess líka.

Þá er á þgskj. 688 breyt.till. frá h. þm. S.-Þing. (P. J.) um, að tókbaksblöð til lækninga á kvikfénaði skuli undanþegin tollskyldu. Milliþinganefndin í skattamálum hafði áður komið með þessa tillögu, en stjórnin tók hana ekki upp og nefndin sá heldur ekki ástæðu til þess að koma með hana, ekki af því, að henni virtist tillagan ósanngjörn, heldur vegna þess að hún hélt, að erfitt gæti verið að hafa eftirlit með því, að tóbakið væri ekki notað til annars. En hér er að eins talað um tóbaksblöð, svo að hættan er líklega ekki svo mikil, að ei verði hægt að hafa eftirlit með þessu. Nefndin hefir því að minni hyggju ekkert verulegt á móti því, að breyt.till. verði samþykt.