21.04.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1086 í B-deild Alþingistíðinda. (1282)

130. mál, tollalög

Pétur Jónsson:

Mér þykir leitt, að háttv. 2. þm. Árn. (S. S.) skuli ekki vera með tillögunni, því að eg held að honum stæði það þó nærri, helzta ráðunaut búnaðarmálanna. Hann virtist ganga að því vísu, að það væri vegna fjárkláðaböðunar sem þessi hlífð á tóbaksblöðum væri ákveðin. En það er eiginlega ekki, svo það er annar sjúkdómur engu óskaðlegri en skitupestin, sem tóbak er nú sannreynt meðal við, enda að ráði dýralæknis. Þessi sjúkdómur er mjög alvarlegur og hefir gert svo mikinn usla, að hann hrekur menn burtu úr héruðum, ef hann kemst í algleyming. Það er kunnugt, að hann hefir verið í Múlasýslum, Þingeyjar-, Árness- og Rangárvallasýslu og víðar. Sauðfé, sem var flutt úr Þingeyjarsýslu suður í Hreppa um 1870, strádrapst úr þessum sjúkdómi, svo hjá sumum var varla urmull eftir. Þetta er því þýðingarmikið mál. Ef tóbak er notað til þess að lækna með skitupest þarf mikið af því, og er lækningin því dýr, ef þessi hái tollur er á tóbakinu.