21.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1096 í B-deild Alþingistíðinda. (1296)

80. mál, aukatekjur landssjóðs

Hannes Hafstein:

Eg get ekki séð annað, en að það sé ástæðulaust og ótilhlýðilegt, þetta sem háttv. þm. Dal. (B. J.) var að segja. Hví má ekki nefna »skip frá öðrum löndum í veldi Danakonungs?« Vill háttv. þm. neita því, að Ísland sé »í veldi Danakonungs?« Kannast hann ekki við, að Ísland njóti neinna þeirra réttinda í Danaveldi, er neinna þakka sé verð? Það er alls ekki »meinlaust gaman« að vera með þessar sífeldu títuprjónastungur. Víst hlýtur háttv. þm. (B. J.) að vita það, að vér Íslendingar njótum alt annarar aðstöðu í Danmörku, heldur en erlendar þjóðir, einmitt af því, að Ísland er »í veldi Danakonungs«, og höfum vér mjög mikið gagn af því á marga vegu. Ef Ísland væri ekki í »veldi Danakonungs«, þá mundum við, meðal annars, ekki njóta þess tollfrelsis, sem við höfum í Danmörk, auk ýmissa annara hlunninda, sem eg býst við að h. þm. mundi telja oss ranglega svifta, ef Danir tækju þessi hlunnindi frá oss, ef marka má af skoðunum h. þm. um landhelgisvörnina o. fl., sem hann heimtar sem sjálfskyldu af Dönum.

Eg álít, að þessi brtill. sé vanhugsuð, og ekkert annað en barnaskapur og hégómi, og að ekkert sé við hana að gera annað en fella hana sem fyrst.