04.04.1911
Efri deild: 27. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 20 í B-deild Alþingistíðinda. (13)

4. mál, styrkveiting úr landssjóði til búnaðarfélaga

Jósef Björnsson:

Það er að eins ör lítið, sem eg vildi segja. Hingað til hefir styrkurinn til búnaðarfélaga verið veittur til hvatningar bændum.

Og þótt áhuginn á jarðabótum fari mikið vaxandi, þá verður þess að gæta, að einatt getur eitthvað nýtt komið til sögunnar, sem hvatningar þarf við, og þá verður full ástæða að halda styrknum til nýrra hvata og nýrra framfara.

Eg skal ekki deila við háttv. 6. kgk. um búnaðarsamböndin. Okkur skilur þar í raun og veru ekki mikið á. En það vil eg taka fram, að eg tel næsta mikilsvert að góðir skoðunarmenn fáist, ekki einungis til þess að mæla jarðabæturnar, heldur einnig meta þær til dagsverka. Þá gæti þingið sjálft hætt að meta hvað í dagsverk eigi að leggja, og losnað við það vandaverk, sem því, oft sökum ónógrar þekkingar á málinu, hefir verið um megn. Í slíkum ákvæðum hefir ekki æfinlega verið tekið nægilegt tillit til þess feikna munar, sem á því er, að rækta upp stórgrýtta jörð og vota eða slétt og gljúp landsvæði.

Þess vegna getur orðið mikill ávinningur af því að fá hæfa menn til þessara starfa.