13.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1098 í B-deild Alþingistíðinda. (1302)

81. mál, erfðafjárskattur

Framsögum. (Ólafur Briem):

Þetta frumv., sem hér liggur fyrir, er að miklu leyti samhljóða frumv. því, sem milliþinganefndin í skattamálum samdi. Aðalbreytingin, sem stjórnin hefir gert á frumv. skattanefndarinnar er, að með vaxandi arfi fari gjaldið hækkandi. Þingnefndin hefir fallist á tillögur stjórnarinnar, en breytt að eins fyrirkomulaginu lítilsháttar, aðallega í þá stefnu, að láta hundraðsgjald af arfi hækka í hlutfalli við upphæð arfsins. Þetta byggist á þeirri meginreglu, sem skylt þykir að leggja til grundvallar í góðri skattalöggjöf, að meiri tekjum fylgi tiltölulega meira gjaldþol. Milliþinganefndin viðurkendi fullkomlega þessa meginreglu, en hún þóttist sjá það í hendi sér, að hér væri um svo lítinn tekjuauka fyrir landssjóð að ræða, að það næmi mjög litlu. En þótt stjórnarfrumv. hafi aðhylst hlutfallslega hækkun á erfðafjárskatti, þá hefir stjórnin þó ekki stigið skrefið til fulls. Það væri eðlileg samkvæmni að láta hækkun hundraðsgjaldsins halda áfram, þangað til skatturinn næmi 100% eða með öðrum orðum, að þegar arfurinn hefði náð tilteknu hámarki, hyrfi hann allur í landssjóð. Sérstaklega væri þetta alls ekki neitt óeðlilegt um útarfa, sem ganga til fjarskyldra erfingja. En hér er ekki farið svo langt.

Annað, sem til athugunar hefir komið í nefndinni er, að lögákveðinn erfðaréttur næði ekki lengra en til fyrstu hliðarlínu, sem sé, auk niðja hins látna og foreldra hans, að eins til systkina og þeirra niðja, en þar á móti ekki til fjarskyldari manna. Þetta kom að eins til athugunar, en nefndin hefir ekki komið með neina tillögu í þá átt. Sumpart stafar það af því, að nefndinni þótti það of stórt stig í einu og líka áleit hún viðsjárvert að hafa erfðafjárskattinn mjög háan, meðan sams konar lög væru ekki til í nágrannalöndunum. Það gæti haft þá afleiðingu, að menn, sem safnað hefðu auð hér á landi, flyttu fremur til útlanda, og þannig gæti það orðið til ógæfu, ef við þetta tapaðist mikið fé út úr landinu.

Eg skal svo ekki eyða fleiri orðum um málið að sinni, en vænti þess, að því verði vísað til annarar umræðu.