20.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1102 í B-deild Alþingistíðinda. (1309)

81. mál, erfðafjárskattur

Framsögum. (Ólafur Briem):

Af þeim breytingartillögum, sem fram eru bornar á þingskjölum 223 og 226, aðhyllist nefndin 1. og 4. tölulið á þskj. 223. Eru þær breytingar til bóta, þar eð þær gera útreikning erfðrfjárskattsins auðveldari. Hækkunin er ekki svo mikil, að hún verði tilfinnanleg, þar sem ætlast er til að erfðagjaldið sé l 1/10% af fyrsta þúsundinu og hækki svo um 1/10% á hverju þúsundi eftir því sem upp eftir dregur.

En þar sem í 2. tölulið á þgskj. 223 er farið fram á, að hámark erfðafjárskattsins verði hækkað úr 5% upp í 100%, þá er það sama sem, að þegar arfurinn hefir náð vissri upphæð, þá eigi hann allur að hverfa í landssjóð. Nefndin hefir ekki getað gengið að þessari breytingu, enda þótt hún haldi ekki fast við það hámark, sem sett var í frumvapinu, nefnilega 5% og þótt mest samræmi sýndist vera í því, að láta erfðagjaldið hækka eftir því sem erfðaféð eykst.

Á þingskjali 226 fer háttv. þm. Dal. (B. J.) fram á, að erfðafjárskatturinn verði ennþá hærri, nefnilega að af 1. þúsundinu í fyrstu erfð undir staflið A. verði hann 1 1/5%, fari svo hækkandi um 1/5% á hverju þúsundi upp í 3%, síðan um ½% á hverju þúsundi upp 15%, svo um 1% á hverju þúsundi upp í 20%, en af erfðafé, sem falli til útarfa, skuli hæsti skattur í annari erfð undir staflið B. nema 30% og í þriðju erfð undir staflið C. skuli skatturinn hækka upp í 60%.

Nefndin hefir ekki getað aðhylst neina af þessum tillögum og er það af þrem ástæðum:

Í fyrsta lagi virðist ekki rétt að stíga mjög stórt stökk í einu í slíku máli sem þessu, en þar á móti þykir varlegra að gera ekki mjög stórar breytingar í einu, heldur smátt og smátt.

Í öðru lagi virðist varhugavert að hafa mjög ólíkar reglur um þetta efni þeim sem eru í nágrannalöndum vorum, því að sé erfðafjárskatturinn miklum mun hærri hér en þar, þá gæti það leitt til þess, að menn freistuðust til þess að flytja úr landi og láta þar arf eftir sig, sem minna þyrfti af honum að gjalda til hins opinbera.

Í þriðja lagi er þess að gæta, að þótt við fengjum þannig löguð erfðalög, þá hefði maður mjög litla tryggingu fyrir því, að ekki væri hægt að fara í kring um lögin og ef til vill væri alls ekki unt að fá tryggingu fyrir því, að svo hörð lög væru haldin, nema með því að setja mjög strangar reglur. En það mundi ekki mælast vel fyrir, að hið opinbera færi að blanda sér mjög inn í einkamál manna með rannsóknum eða öðru harðræði.

Af öllum framkomnum breytingartillögum getur nefndin því eins og áður er tekið fram einungis gengið að 1. og 4. tölulið á þgskj. 223.