20.02.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1118 í B-deild Alþingistíðinda. (1337)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Flutningsm. (Magnús Blöndahl):

Mér virðist það tilhlýðilegt að fara nokkrum orðum um frumvarp þetta, þar sem um þvílíkt stórmál er að ræða. Það er farið hér fram á allmikla fjárveitingu. Eg þykist vita, að hin háttv. deild muni geta verið mér samdóma um það, að eitt af aðalskilyrðum fyrir verulegum framförum í samgöngum, verzlun, siglingum og fiskiveiðum séu góðar og öruggar hafnir. Þannig er litið á það mál meðal nágrannaþjóðanna og annara, sem lengst eru komnar á braut mentunar og framfara.

Hvert sem maður lítur út á við, þá sér maður, að næstum árlega er varið stórfé til að endurbæta og byggja að nýju slíkar hafnir, og það jafnvel hjá þeim þjóðum, sem þó að öðru leyti hafa góðar samgöngur hver við aðra. Alt bendir þetta á það, að hver þjóð fyrir sig álítur sér skylt að fylgjast svo með í hinum stórstígu framförum og kröfum nútímans í þessu efni, að hún geti verið sem færust um að standast alla samkeppni bæði nágrannaþjóðanna og annara í baráttunni fyrir tilveru sinni. Góðar og öruggar hafnir eru því alstaðar skoðaðar meðal hinna allramestu nauðsynja- og velferðarmála hvers lands, og að mörgu leyti sem einn hyrningarsteinninn undir vexti og viðgangi lands og þjóðar. Þegar vér nú lítum til okkar eigin lands og þjóðar, þá sjáum vér strax, að séu góðar hafnir lífsnauðsynjamál nágrannaþjóðanna, þá ættu þær ekki síður að vera nauðsynjamál okkar, sem vegna legu lands vors verðum að nota sjóinn sem þá einu leið, er við getum náð til annara þjóða og þær til okkar, að í staðinn fyrir járnbrautir, er tengja saman ýms önnur lönd, verðum vér Íslendingar að brúka skipin, bæði seglskip og gufuskip, til hvers konar farms- og farþegaflutnings bæði til okkar og frá okkur. Af þessu leiðir aftur, að til þess að slíkir flutningar geti orðið sem notadrýgstir og heillavænlegastir oss og öðrum, þá útheimtast góðar hafnir, þar sem skipin geti við komu sína og burtför fengið fljóta og góða afgreiðslu hvernig sem viðrar, en þurfi ekki að liggja dögum eða vikum saman og bíða eftir tækifæri til þess að losna við að taka á móti farmi og fólki.

Góð og örugg höfn á hentugum stað mundi líka vafalaust verða til þess, að auka aðsókn af skipum, er hingað sækja, og jafnframt til þess, að auka verzlun milli landsmanna og útlendinga, bæði beinlínis og óbeinlínis.

Hafnleysið við suðurhluta þessa lands, þekkja allir, svo ekki þarf þar um mikið að tala. En aftur á móti hefir þessi hluti landsins ýmsa kosti fram yfir flesta aðra parta landsins. Í fyrsta lagi þarf sjaldan eða aldrei að óttast að þessi partur landsins lokist af ís, og í öðru lagi, að hér liggja einhver allraauðugustu fiskimið heimsins, enda sækja hingað fjöldi útlendra fiskiskipa, er fer vaxandi með hverju ári. Undanfarinn tíma hafa landsmenn átt örðugt í þeirri samkeppni, og hefir margt til þess borið, bæði ónóg þekking á hinni nýju veiðiaðferð og svo féleysi bankanna, og síðast en ekki sízt hafnleysið hér við suðurhluta landsins. Úr sumu af þessu er nú bætt, og á eg þar þá sérstaklega við það, að þeim sjómönnum vorum fjölgar nú óðum, er næga þekkingu hafa til að bera að geta tekið þátt í samkeppninni við útlendinga í fiskiveiðunum hér, og er það að þakka bæði þeim fáu innlendu botnvörpuskipum, sem hér eru nú, og svo hinu, að ýmsir af framtakssömum sjómönnum vorum hafa lært þessa veiðiaðferð á mörgum af hinum útlendu fiskiskipum, og bíða nú eftir því, að þekking þeirra í þessu efni mætti koma landinu og landsmönnum til gagns og góða. En þar sem botnvörpuskipin kosta mikið fé, er eðlilegt, að menn hiki við að leggja það fram — þó unt væri — þar sem eitt af aðalskilyrðunum fyrir því að það fé sé nægilega trygt og gefi mönnum þann arð, er vænta má, vantar algerlega — höfnina — og fiskiveiðarnar eins og nú er ástatt, eru altaf í meiri og minni hættu á hafnleysum þeim, sem við höfum orðið að búa við frá ómuna tíð. Menn geta því altaf átt á hættu á meðan svo stendur, að komi fyrir stærri eða minni tjón, eins og hin sorglega reynsla undanfarinna ára hefir sýnt.

Eg get nú búist við því, að sumir kunni ef til vill að líta svo á, að hafnarbygging sú, er hér er farið fram á í þessu frumvarpi, muni aðallega koma Reykjavík eða höfuðstað landsins til góða. Það væri þó ekki rétt ályktað nema að nokkru leyti, enda ber frumvarp þetta það með sér, að Reykjavík tekur fullkomlega sinn bróðurpart af kostnaðinum og freklega það. Við vandlega íhugun þessa máls, efast eg ekki um, að háttv. deild muni verða mér samdóma um það, að hafnarbygging sú, er hér ræðir um, sé ekki síður landsmál en bæjarmál og skal eg því til stuðnings benda á, að komist verk þetta í framkvæmd, munu fiskiveiðarnar, þessi annar aðalatvinnuvegur landsins, taka stórstígum framförum og verða til þess að landsmenn sjálfir koma til að ráða betur yfir hinum auðugu fiskimiðum sínum og njóta sjálfir arðsins af þeim, í stað þess sem nú er, að vér verðum að horfa á útlendar þjóðir raka hér saman of fjár upp við landsteinana, meðan stóra hópa af landsmönnum vantar margar af helztu nauðsynjum lífsins. Við aukna framför og framleiðslu í fiskiveiðum mundi því landssjóði bætast meiri og meiri tekjur, sem vafalaust mundu á tiltölulega stuttum tíma gera meira en endurborga landssjóði það fjárframlag, sem farið er fram á í frumvarpi þessu. Þess utan má benda á það, að meðan hafnleysið er eins og nú, hefir landið mjög lítið gagn af komum hinna útlendu fiskiskipa. Af öllum þeim feikna afla, er skip þessi sækja hingað að ströndum landsins, er því sem næst ekkert goldið í landssjóð; þetta mundi fljótt breytast, er örugg höfn væri komin hér í Reykjavík. Þá mundu fleiri eða færri af hinum erlendu fiskiskipum selja hér afla sinn eða leggja hann á land til verkunar og þannig auka atvinnu, tekjur og viðskifti við landið og landsmenn, auk þess sem landssjóður mundi fá ríflegan tekjuauka í vaxandi útflutningsgjald.

Þá er það verzlunin, sem ekki mundi taka minni breytingum við það, að þessi fyrirhugaða höfn kæmist upp. Eins og nú standa sakir, rennur megnið af verzlunararðinum út úr landinu til erlendra umboðsmanna, og telja fróðir menn, að sú fjárhæð, er þannig tapast nú muni nema jafnvel yfir 2 miljónir króna á ári. Með góðri höfn mundi þetta breytast svo, að meira eða minna af þessu fé mundi verða kyrt í landinu, því þá mundu rísa hér upp stórkaupaverzlanir, sem kæmu í stað hinna núverandi útlendu umboðsmanna, og með því mundi öll verzlun verða sem næst innlend og bygð á hollari og traustari grundvelli en hingað til, auk þess sem smákaupmönnum víðsvegar um landið yrði hægra með að afla sér vörunnar eftir þörfum héðan úr Reykjavík og kæmust því af með miklu minna starfsfé til verzlana sinna.

Eg vænti því, að háttv. deild verði mér samdóma um það, að hér sé um stórmál að ræða og um leið eitthvert mesta velferðarmál þessa bæjar og landsins í heild sinni, og að háttv. deild að yfirveguðu máli ljái frumvarpinu öflugt fylgi sitt til farsællegra úrslita. Það skal tekið fram, að eg hefi leyft mér að láta útbýta hér meðal háttv. þingmanna prentuðu áliti hafnarnefndar Rvíkur og áætlun yfir kostnað við hafnargerðina frá hafnarfræðing Smith í Kristjaníu, til þess að háttv. þingm. geti sem bezt sett sig inn í málið, en auk þess er bæjarstjórn þessa bæjar fús til þess að gefa allar þær upplýsingar, sem unt er í málinu og ef með þarf leggja fram hina ýmsu uppdrætti, er snerta þetta mál. Að svo mæltu vil eg leyfa mér að stinga upp á að 5 manna nefnd verði kosin í málið til þess að athuga það.