25.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1129 í B-deild Alþingistíðinda. (1344)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Pétur Jónsson:

Eg játa með kinnroða, að eg hefi ekki haft tíma til að rannsaka þetta mál, eins og þyrfti. Hafnarmál Reykjavíkur stendur í sambandi við ýms önnur nauðsynjamál, svo sem járnbrautarlagningu austur um sýslur, og á landssjóður að sjálfsögðu að styrkja það. Hann hefir og styrkt til slíkra fyrirtækja, t. d. til bryggjusmíðar í Stykkishólmi, Akureyri og víðar, og hefir þá að jafnaði lagt fram ¼ hluta. En þótt styrkja eigi til hafnargerðar í Reykjavík, get eg ekki fallist á, að landssjóður eigi að leggja til helming stofnfjárins, eins og frumvarpið tiltekur án þess að hafa tilkall til arðsins af fyrirtækinu, eða sem gjöf. Þurfi slíks styrks við, til þess að höfnin með tekjum sínum beri uppi nokkurnveginn hinn hluta stofnfjárins (að eins helming) þá er ekki leggjandi út í það; ekki enn kominn tími til þess. Hins vegar getur verið nauðsynlegt og réttmætt að stofna til fyrirtækisins, þótt það ekki með beinum hafnartekjum beri sig til fulls, sízt fyrstu árin, og eg get verið því samþykkur, að landssjóður hlaupi undir bagga til þess að rétta að mestu við þann skakka, á sama hátt eins og annars staðar. Tel eg hæfilegt, að það sé bundið við ¼ stofnkostnaðar. Nægi það ekki verður fyrirtækið að bíða enn.

Á þessum ástæðum er bygð breyttill. mín og nokkurra þingmanna á þgskj. 310. Lengra en hún fer með styrk til hafnargerðarinnar getum við ekki farið.