25.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1130 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Framsm. (Magnús Blöndahl):

Eg skal vera stuttorður að þessu sinni. Háttv. þm. Sfjk. (B. Þ.) virtist sanngjarnt að landssjóður legði fram 600 þús. kr., en áskildi sér svo ¼ hluta af ágóðanum. Eg verð nú að taka það fram, að eg get ekki álitið það sanngjarnt að þetta ágóðaskilyrði sé sett, þegar Reykjavík á í hlut, þar sem slíkt skilyrði hefir aldrei áður verið sett hinum öðrum bæjum eða kauptúnum, er um svipuð fjárframlög úr landssjóði hefir verið að ræða, og þótt háttvirtum tillögumanni þyki hagur landssjóðs svo þröngur og hann þess vegna hafi komið fram með tillöguna, þá bætir hún lítið úr í þeim efnum. Hér er heldur ekki að ræða um það, að fjárveiting þessi skuli koma öll niður á næsta fjárhags tímabil, heldur er búist við, að þetta stóra mannvirki verði í smíðum 6—8 ár, og að sjálfsögðu deilist þá líka tillagið niður á jafn mörg ár.

En þótt svo færi, að landssjóður gæti ekki altaf lagt fram af venjulegum árstekjum sínum tiltölulegan hluta af tillaginu, þá get eg fyrir mitt leyti ekki séð neitt hættulegt við það, þó landssjóður í slíku tilfelli þyrfti að taka bráðabirgðalán til þessa. Því eins og eg hefi oft áður tekið fram, þá mun það sannast á sínum tíma, að tillag það, sem landssjóður kæmi til að leggja fram til hafnarbyggingar í Reykjavík, hvort sem það nú verður 400 eða 600 þúsund, þá mundi landssjóði bætast það aftur að fullu á skömmum tíma; því með slíkri hafnargerð eflist innlenda verzlunin, og framleiðslan eykst að miklum mun (?: fiskiveiðar) og að því ógleymdu að slíkt mannvirki mun verða stórt og happadrjúgt spor í menningaráttina.

1. þm. Rvk. (J. Þ.) talaði um, að ef mál þetta kæmist til framkvæmda, þá ættu innlendir menn einungis að verða teknir til vinnu við hafnarbygginguna. Þetta er alveg sjálfsagður hlutur, enda veit eg, að það er einróma álit bæjarstjórnarinnar.

Eg skal þá ekki fjölyrða meira um málið að sinni, og leyfi mér að vænta að frumvarpið fái sem greiðastan framgang.