25.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (1348)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Hálfdan Guðjónsson:

Eg stend ekki upp af því að eg geti gefið neinar upplýsingar um þetta mál, en eg kann þó ekki við, að það verði afgreitt svo frá deildinni, að eg hafi enga grein gert fyrir skoðun minni á því. Þetta er hið stærsta fjármál, sem gegnum deildina gengur, og því eigi vanþörf á, að það sé rækilega íhugað, áður en því er ráðið til lykta. Það er því ekki að furða, þótt hik sé á mörgum mönnum að greiða því atkvæði, sérstaklega mönnum eins og mér, sem ekki hafa nægilega þekking á því.

Mér virðist málið lítið skoðað, nema frá annari hlið og skal eg kannast við, að hún er ekki svo óglæsileg. En eins og öll önnur mál, hlýtur þetta og að hafa tvær hliðar, og hina þá kannske ekki alveg eins skuggalausa.

Eg get ei annað séð, en að 1. gr. frv, geri ráð fyrir, að fyrirtækið hvíli algerlega á landssjóði — beinlínis eða óbeinlínis — sumpart með ábyrgðum og sumpart með fjárútlátum. Í nefndarálitinu er raunar sagt, að ábyrgðin sé ekki varasöm fyrir landssjóð, en það hefir ekki nægilegt sannfæringargildi fyrir mig. Eg hefi þvert á móti miklar líkur fyrir, að slíkar ábyrgðir geti verið mjög varasamar. Dæmin eru svo mörg fyrir því, að til ýmsra fyrirtækja, sem glæsileg hafa þótt, hefir verið stofnað með láni frá landssjóði, en þegar að skuldadögunum hefir komið, hefir rignt niður beiðnum um uppgjöf, annaðhvort að öllu leyti, eða þá að nokkru leyti. Mér dettur nú í hug, að þótt hér sé um framfaramál að ræða, sé hægt að hugsa sér að slíkar málaleitanir komi til þingsins síðarmeir.

Það hafa verið fluttir hér fram ljómandi fallegir spádómar um hvílíkt framfara- og hagsmunafyrirtæki þetta mundi verða fyrir bæinn og landið alt í heild sinni, en eg verð að neita því að þetta sé rétt, hvað alt landið snertir. Eg held t. d. það sé nokkuð orðum aukið hjá þeim mönnum, sem fullyrða, að Reykjavík verði sjálfsagður milliliður landsverzlunarinnar við önnur lönd. Eg hygg, að stærstu verzlanirnar mundu halda eins eftir sem áður beinu viðskiftasambandi við önnur lönd, einkum þær, sem sem hafa sín eigin skip í förum, eða leiguskip. Eg sé engar líkur til þess, að þær muni telja sér það ábatavænlegra að hafa Reykjavík fyrir millilið. Og ef stærstu verzlanirnar skerast úr leik, þá er hætt við, að hagurinn, sem landið alt á að hafa af hafnargerðinni, fari að skerðast.

Eg verð að lýsa því yfir, að eg bind alls ekki atkvæði mitt í þessu máli að svo stöddu, en eg áleit mér skylt að gera grein fyrir því, hvers vegna eg gerði það ekki. Meðan landssjóður er ekki færari en nú er til þess að takast á herðar slík stórfyrirtæki, er engin von um fylgi mitt með málinu. Eg greiði því ekki atkvæði fyr en vissa er fengin fyrir því, að landssjóður sé fær um slík fjárútgjöld, jafnvel þótt það sé til nytsamra fyrirtækja.