29.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1153 í B-deild Alþingistíðinda. (1356)

2. mál, hafnarlög fyrir Reykjavíkurkaupstað

Sigurður Sigurðsson:

Eg hélt ekki að það yrðu svona miklar umr. út af þessari breytingartillögu minni. En málið hefir skýrst talsvert við umræðurnar.

Háttv. 2. þm. Rvk (M. B.) sagði, út af þeim ummælum mínum að málið væri lítið rætt, að það hefði verið rætt og samþykt með öllum þorra atkvæða á þingmálafundum Reykjavíkur. En sannleikurinn í því efni er sá, að á fundunum urðu litlar umræður um málið, eins og við var að búast, þar sem svo mörg önnur stórmál voru til umræðu. Málið hefir því ekki fengið mikinn undirbúning á þeim fundum. Að öðru leyti hefir það ekki verið rætt, nema á 2 bæjarstjórnarfundum og samþykt þar, sem og eðlilegt var.

Háttv. 2. þm. Rvk. (M. B.) sagði viðvíkjandi hafnarstæði á Skerjafirði, að hafnarverkfræðingurinn hefði litið á þann stað, en um það stendur ekkert í álitsskjali hans. Annars ætlaði eg ekki að mæla með Skerjafirði, en eg hefi heyrt sagt, að þar mætti gera ódýra höfn. Sami háttv. þm. sagði viðvíkjandi ábyrgð landssjóðs, að hún væri alveg hættulaus, því bærinn stæði á bak við með miklar eignir. En eins og menn vita, þá hefir bærinn undanfarin ár tekið mikil lán til ýmissra þarfafyrirtækja, og margir álíta, að hann sé ekki fær um að ráðast í meira að sinni.

Hvað viðvíkur hinni miklu þýðingu, sem hafnargerðin á að hafa fyrir landið alt, þá virðist mér vægast talað, að fyrir því hafi verið færð óljós og veik rök, og margt sem sagt hefir verið í því efni hafa vitanlega verið staðlausar fullyrðingar. Allir vita, að höfnin hefir mikla þýðingu fyrir Reykjavík og óbeinlínis fyrir aðra landshluta, en ekki nærri eins mikla og þingmenn hafa orð á gert.

Hv. þm. Dal. (B. J.) sagði, að einn hagnaðurinn við höfnina væri, að við gætum þá haft minni skip í förum. Eg held nú að rúmsjórinn sé sá sami, þó höfnin verði gerð og skil því ekki vel þessa röksemd hins háttv. þm.

Þegar um svona stór fyrirtæki er að ræða, þá hefði farið betur á, að tillögur um það hefðu komið frá stjórninni. Eg geri ráð fyrir, að bæjarstjórnin hefði rætt málið fyrst, en frá henni hefði það farið til stjórnarinnar og hún flutt það inn á þing.

Viðvíkjandi ummælum hv. þm. Vestm. (J. M.) skal eg taka það fram, að eg get ekki orðið við tilmælum hans, að taka brtill. mína aftur. Það kann rétt að vera, að betra hefði verið, að þar hefði staðið »alt að« 100 þús. kr., en það gerir lítinn mun. En til þess þó að sýna samkomulagsviðleitni, vil eg mæta þingm. á miðri leið og taka aftur síðustu orðin í seinustu breytingartill.: »og alþingi samþykkir«, því eg sé, að það skaðar ekki tillögurnar. En jafnvel þó tillagan væri samþykt óbreytt, eða eins og hún er á þgskj., þá mundi það aldrei koma að neinum baga. Það eru allar líkur til að þing verði haldið 1912, og þyrftu því engin vandræði af að hljótast, þótt tillagan orðrétt yrði samþykt.

Eg skal ekki eyða tímanum með lengri ræðu. Vona eg, að deildin samþykki tillögur mínar, og hefir þá frumv. fengið þá búningsbót, sem það þurfti, bæði gagnvart landssjóði og landsmönnum yfir höfuð.