01.03.1911
Neðri deild: -1. fundur, 22. löggjafarþing.
Sjá dálk 1160 í B-deild Alþingistíðinda. (1362)

25. mál, vegamál

Einar Jónsson:

Eg bjóst við því, að háttv. deild yrði 1. gr. frv. þyrnir í augum. En þess ber að gæta, að hér er um þau sýslufélög að ræða, sem engin not hafa af strandferðunum. Í annan stað er hér um að ræða stærstu flutningabrautir á landinu og 2 hinar stærstu brýr, og að þær eru notaðar mikið af öðrum en þessum 2 sýslum.

Að við flutningsmenn frv. höfum sett í það þessa 1. gr., kemur af því, að á þingmálafundum í okkar kjördæmum kom fram eindregin og megn óánægja gegn þessari viðhaldsskyldu sýslnanna, og óskað að þetta yrði lagfært.

Á þinginu 1909 var borið upp líkt frv., en það sætti mótspyrnu og náði ekki fram að ganga, þrátt fyrir tilslökun flutningsmanna. Eg skal ekki segja, hvort meðflutningsmenn mínir muni gera nokkra tilslökun síðar, en eg fyrir mitt leyti vil vinna það til samkomulags, að breyta 1. gr. í sama form og fyrir lá á síðasta þingi. Sú breyting er fólgin í því, að Rangárvallasýsla sé undanþegin viðhaldsskyldu ? Flóavegarins og landssjóður kosti viðhald brautarinnar frá Reykjarétt að vegamótum Grímsnesbrautarinnar við Ingólfsfjall og þannig létt á Árnessýslu hlutfallslega. Eg vona því, að háttv. þd. sýni þá sanngirni að lofa frv. að ganga til nefndar. Eg styð það að 5 manna nefnd verði skipuð í málið og þykir vel við eiga, að hún væri kölluð samgöngumálanefnd, með því að ærið mörg önnur samgöngumál munu koma fram í þinginu, sem vísa mætti svo til þessarar nefndar.